Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 19/2007. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 21. desember 2007

í máli nr. 19/2007:

Ísaga ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi, dags. 17. desember 2007, kærði Ísaga ehf. þá ákvörðun Ríkiskaupa að taka tilboði Fastus ehf. og Strandmöllen a/s í útboði Ríkiskaupa nr. 14378 - Rammasamningsútboð, Lyfjasúrefni, glaðloft og fleira fyrir heilbrigðisstofnanir. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„Aðallega, að mat kærða, ódags., á tilboði Fastus ehf. og Strandmöllen a/s annars vegar og tilboði kæranda hins vegar, verði lýst ógilt og kærða verði gert að ganga til samninga við kæranda.

Til vara, að rammasamningsútboð nr. 14378, verði lýst ógilt og kærða verði gert að endurtaka útboðið.

Jafnframt er gerð sú krafa, að innkaupaferli og / eða samningsgerð vegna tilboðsins verði stöðvað tímabundið, eða þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

Þá er þess krafist, að kæranda verði greiddur kostnaður við að hafa kæruna uppi í málinu, auk virðisaukaskatts, sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á gerð samnings. Athugasemdir kærða bárust með bréfi, dags. 19. desember 2007. Kærandi sendi viðbótarrökstuðning með bréfi, dags. 20 desember 2007. Ekki var ástæða til að gefa kærða færi á að gera athugasemdir við þær viðbætur fyrir þessa ákvörðun.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.


 

I.

Með tölvupósti, dags. 7. desember 2007, tilkynnti kærði um töku tilboðs í hinu kærða útboði. Með tölvupósti kærða, dags. 18. desember 2007, var tilboðið endanlega samþykkt.  

 

II.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, getur kærunefnd útboðsmála, eftir kröfu kæranda, stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Heimild nefndarinnar til stöðvunar er þannig bundin við útboðsferlið og samningsgerðina. Frá því að ákvörðun um val tilboðs var tilkynnt og þangað til tilboð var endanlega samþykkt liðu tíu dagar. Í þeim innkaupum sem mál þetta lýtur að hefur þannig komist á bindandi samningur samkvæmt 76. gr. laganna og þegar af þeirri ástæður er ekki hægt að stöðva samningsgerðina, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Ísaga ehf., um stöðvun á samningsgerð Ríkiskaupa um Lyfjasúrefni, glaðloft og fleira fyrir heilbrigðisstofnanir, er hafnað.

 

Reykjavík, 21. desember 2007.

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Sigfús Jónsson

                                                               Stanley Pálsson

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 21. desember 2007.

 

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn