Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2008 Innviðaráðuneytið

Fimmtán mínútna svefn getur skipt sköpum

Opnuð hefur verið vefsíða um syfju og akstur 15.is en þar er að finna ýmsar ábendingar vegna áhættu sem syfjaðir ökumenn skapa í umferðinni. Einnig eru þar ýmis heilræði sem unnt er að grípa til þegar syfja sækir að ökumönnum.

Frá málþingi Umferðarstofu um syfju og akstur.
Kristján L. Moller ávarpaði málþingi Umferðarstofu um syfju og akstur og opnaði formlega nýja vefsíðu.

Kristján L. Möller samgönguráðherra opnaði vefsíðuna formlega í dag á málþingi Umferðarstofu um syfju og akstur. Fram kom hjá Karli Ragnars, forstjóra Umferðarstofu, að síðan er liður í átaki Umferðasrstofu sem gengur undir nafninu 15 og vísar til þess að ekki þurfi nema 15 mínútna svefn til að koma hugsanlega í veg fyrir slys sem kunna að verða vegna syfjaðra ökumanna. Er hvatt til þess að ökumenn stöðvi og blundi í 15 mínútur í stað þess að streitast við að halda sér vakandi við stýrið með tilheyrandi hættu á að sofna.

Meðal atriða sem rædd eru á síðunni eru þessi:

  • 15 mínútur geta gert kraftaverk.
  • Hættan á sofna undir stýri eykst síðdegis.
  • Geispi og flöktandi augu benda til þreytu.
  • Hvernig komumst við hjá þreytu?
  • Það er bannað að keyra þegar við erum þreytt.
  • Mörg slys verða vegna þess að menn sofna undir stýri.

Á málþinginu flutti Gunnar Guðmundsson, sérfræðingur í lungnalækningum, erindi um kæfisvefn og einkenni hans, flutt var erindi frá Birni Mikaelssyni, yfirlögregluþjóni á Sauðárkróki, um hverju meðferð við kæfisvefni hefði breytt fyrir hann, Erna Hreinsdóttir, tæknifræðingur hjá Vegagerðinni, sagði frá vegrifflum, Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa, greindi frá banaslysum á undanförnum árum, sem rekja mætti til syfju og Ágúst Hallvarðsson, sölustjóri hjá Brimborg, kynnti nokkrar tækninýjungar frá Volvo sem vekja athygli ökumanns ef bíll hans ætlar að leita út fyrir veg.

Í ávarpi sínu við upphaf málþingsins sagði Kristján L. Möller meðal annars:

,,Hann er nú alveg sofandi í umferðinni þessi!

Hversu oft segjum við ekki eitthvað á þessa leið þegar okkur finnst einhver úti á þekju í umferðinni. Og tilfellið er að mjög oft er eitthvað til í þessu.

Annars vegar eru menn sofandi í umferðinni á þann hátt að þeir eru algjörlega annars hugar og gera tóma vitleysu en sleppa kannski með skekkinn. Hins vegar eru til þeir sem hreinlega sofna við stýrið. Reynslan hefur sýnt okkur að það getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Ég hugsa að við höfum öll upplifað það að vera syfjuð við stýrið. Og ég hugsa að við höfum flest líka upplifað það að hafa sofnað við stýrið andartak. Hrokkið upp við það að bíllinn stefndi kannski útaf eða alla vega hrokkið upp – og vonandi í tíma áður en nokkuð alvarlegt gerðist. Þá er ég vitanlega ekki að tala um að menn sofi lengi, heldur bara örsvefn, þegar augun lokast í sekúndu, kannski eina, kannski tvær.

Þegar svo er komið er aðeins eitt til ráða, það er að hvíla sig. Fá annan til að keyra ef það er hægt. Annars að stöðva á góðum stað og leggja sig í nokkrar mínútur. Að því loknu er hægt að halda áfram. Ég hef reynslu fyrir því að leggja sig á þennan hátt í 10 til 15 mínútur þegar syfjan hefur sótt á við akstur á ferðum mínum milli Reykjavíkur og Siglufjarðar. Þegar maður finnur að athyglin er ekki til staðar og augun þyngjast er eina vitið að hvílast. Aðeins þannig kemur maður í veg fyrir þá áhættu að valda sjálfum sér eða öðrum skaða eða tjóni.”

Samgönguráðherra nefndi einnig dæmi um reynslu sína af því að aka þreyttur og dottaði við stýrið en það hefði þó allt farið vel. Hann sagði málþingið þarft framtak og brýndi þátttakendur til að taka boðskap þess með sér og úthýsa syfju úr akstri.

Vefsíðuna 15.is má skoða hér.


Frá málþingi Umferðarstofu um syfju og akstur.
Fjallað var um syfju og akstur á málþingi Umferðarstofu í dag.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum