Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Straumhvörf í lífi geðfatlaðra

Straumhvörf, fimm ára átaksverkefni í þjónustu við geðfatlaða á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins, stóðu fyrir opnum morgunverðarfundi í samvinnu við Samtök atvinnulífsins um félagsleg fyrirtæki og samfélagslega ábyrgð á Hilton Reykjavík Nordica 5. febrúar síðastliðinn.

„Í þessu verkefni hafa orðið straumhvörf í lífi margra þeirra sem búa við geðfötlun og hafa verið lokaðir inn á stofnunum“, sagði Ásta R. Jóhannesdóttir, alþingismaður og formaður verkefnistjórnar straumhvarfa. „Ítarleg stefnumótun hefur verið unnin í félagsmálaráðuneytinu um hvernig búið skuli að geðfötluðum. Stefnan snýst meðal annars um það að fólk geti búið í sérbýlum og farnar séu nýjar leiðir með fjölbreyttri endurhæfingu og stuðningi við fatlaða á almennum vinnumarkaði. Einnig að styrkja tengslanet við fjölskyldu og vini og efna til umræðu um málefni“, sagði Ásta einnig á fundinum.

Í máli frummælenda kom fram að mikilvægt er að vinna frekar að því að fá geðfatlaða til þátttöku á vinnumarkaði og til þess væru nokkrar leiðir.

Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr, lýsti því hvernig hægt væri að skapa forsendur til þess að geðfatlaðir geti notið sín í starfi. Benti hann meðal annars á mikilvægi þess að fræða starfsfólk um geðraskanir.

Nanna Þórisdóttir, starfsmaður AE endurhæfingar, ræddi um mikilvægi þess að byrja í hlutastarfi og fólki gæfist síðan tækifæri til þess að prófa sig áfram.

Í máli Páls Ásgeirs Davíðssonar, sérfræðings hjá Háskólanum Reykjavík, kom fram að samfélagslega ábyrg fyrirtæki löðuðu að sér fjárfesta. Jafnframt benti hann á það mikla vinnuafl sem væri ónýtt hjá fötluðum.

Í samantekt Péturs Reimarssonar, forstöðumanns hjá Samtökum atvinnulífsins, kom fram að atvinnuþátttaka öryrkja væri minni hér á landi en í nálægum löndum þrátt fyrir að almenn atvinnuþátttaka sé sú mesta sem þekkist.

Morgunverðarfundurinn var fjölsóttur og komu margar áhugaverðar spurningar úr sal um efni fundarins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum