Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2008 Matvælaráðuneytið

Nr. 3/2008 - Styrkir veittir úr samkeppnisdeild Verkefnasjóðs sjávarútvegsins

Styrkir veittir úr samkeppnisdeild Verkefnasjóðs sjávarútvegsins

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Einar K. Guðfinnsson, hefur veitt styrki úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins, deild um sjávarrannsóknir á samkeppnissviði, samtals 50 milljónir króna.

Þrjátíu og ein umsókn bárust, þar af var 21 vegna stærri verkefna og 10 vegna minni verkefna. Alls var sótt um styrki fyrir 111 milljónir króna eða meira en tvöfalt það fé sem til úthlutunar var.

Fimmtán verkefni voru styrkt að þessu sinni og fjalla þau um 9 mismunandi tegundir sjávarlífvera, allt frá þangi til hvala. Þorskur er aðalviðfangsefnið í 6 verkefnum, og til þeirra rann um helmingur styrkfjárins. Það er í samræmi við áherslur ráðherra á að auka fé deildarinnar, en aukningunni skyldi að öðru jöfnu varið til þorskrannsókna.

Ráðherra ákvað á síðasta ári að tvöfalda fé deildarinnar og var því hægt að styrkja flest samþykkt verkefni að fullu m.v. umsókn. Niðurstaðan úr þessu umsóknarferli staðfestir eins og áður að mikill fjöldi frábærs vísindafólks, með góðar hugmyndir um rannsókna- og nýsköpunarverkefni á sviði sjávarrannsókna er nú starfandi á Íslandi.

 

Ráðuneytið telur að með þessu ferli hafi öll helstu markmið náðst sem sett voru fram við tilurð og eflingu deildar Verkefnasjóðs sjávarútvegsins um sjávarrannsóknir á samkeppnissviði.

 

Upplýsingar um styrkþega og verkefni þeirra má sjá hér.

 

 

Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu

18. febrúar 2008

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum