Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mat á þjónustu við geðfatlaða og átak í ráðgjöf og fræðslu

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, undirritaði á dögunum samning við AE-starfsendurhæfingu. Samningurinn tekur til ársins 2008 og leysir af hólmi samning frá 29. desember 2006.

Markmið samningsins er að afla upplýsinga um gæði þjónustu sem veitt eru fólki með geðfötlun á vegum ráðuneytisins, meta hvaða þættir þjónustunnar það eru sem nýtast vel og hvað þættir nýtast síður og styrkja þróun NsN-aðferðar (notandi spyr notanda) sem tæki til sjálfseflingar.

NsN-verkefnið gengur út það að nýta reynslu notenda til öflunar upplýsinga sem matið byggir á. Með notkun NsN-aðferðar verður til þekking á forsendum notenda sjálfra sem nýtist til fræðslu og á námskeiðum fyrir starfsfólk, notendur, aðstandendur og aðra sem áhuga hafa. Matsniðurstöður verða kynntar í vinnusmiðju á hverjum þjónustustað. Verkefni vinnusmiðjanna er að skýra niðurstöður og vinna með heimilisfólki og starfsfólki að skipulagningu og framkvæmd hugsanlegra breytinga á grundvelli skýrslnanna.

Samningurinn fjallar einnig um átak í fræðslu og ráðgjöf til notenda, aðstandenda, starfsmanna í þjónustu við geðfatlaða og annarra aðila sem málið varðar. Á samningstímanum verða haldnar fjórar fræðslulotur á mismunandi stöðum á landinu. Fræðsluefnið verður byggt á hugmyndafræði sjálfseflingar og valdeflingar. Notendur eru hvattir til að taka þátt í fræðslulotunum til þess að afstaða þeirra komi fram. Ráðgjöfin mun einnig beinast að því að aðstoða starfsmenn við að styrkja bakland notenda þjónustunnar og að virkja aðstandendur, vini og vinnufélaga til stuðnings í bataferlinu.

Öll þjónusta samkvæmt samningi þessum er veitt notendum að kostnaðarlausu.

Heildarkostnaður Straumhvarfa við verkefnið árið 2008 er 18 milljónir króna.

Með samningnum er stuðlað að því að geðfatlaðir fái notið sín sem fullgildir borgarar samfélagsins samkvæmt stefnumótun og framkvæmdaáætlun 2006–2010, sem ber nafnið Straumhvörf – efling þjónustu við geðfatlaða.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum