Hoppa yfir valmynd
6. mars 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Straumhvörf í Kópavogi

Jóhanna Sigurðardóttir og Gunnar Birgisson
Jóhanna Sigurðardóttir og Gunnar Birgisson

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, og Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi gáfu út í dag sameiginlega yfirlýsingu um búsetu og þjónustu við fólk með geðfötlun í Kópavogi.  

Yfirlýsing félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Kópavogsbæjar varðar þjónustu sem veitt er í samræmi við lög um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og stefnu og framkvæmdaáætlun vegna átaks ráðuneytisins í þjónustu við geðfatlað fólk 2006–2010 sem ber heitið Straumhvörf.

Félags- og tyggingamálaráðuneytið og Kópavogsbær eru sammála um að uppbygging í þágu geðfatlaðra sé samstarfsverkefni þar sem lögð er áhersla á breytileg búsetuúrræði sem henta getu og þörfum  hvers íbúa.

Kópavogsbær útvegar íbúðir til búsetu með þjónustu fyrir fólk með geðfötlun sem þarf almenna félagslega heimaþjónustu í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Umsýsla húsnæðisins og þjónustunnar verður í höndum Kópavogsbæjar.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið, Straumhvörf, efling þjónustu við geðfatlaða, útvegar íbúðir í tveimur þjónustueiningum, fyrir tólf geðfatlaða einstaklinga sem þurfa á sértækri þjónustu að halda, jafnvel sólarhringsþjónustu. Umsýsla húsnæðisins er á vegum ráðuneytisins, en  Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Reykjanesi annast skipulag og veitir íbúum þjónustu ásamt Kópavogsbæ samkvæmt gildandi lögum.

Straumhvörf spannar árin 2006–2010 og tekur til 160 einstaklinga á landinu öllu sem þurfa búsetu á vegum svæðisskrifstofu eða félagsþjónustu sveitarfélaga. Markmiðið er að bjóða fólkinu búsetu í einstaklingsíbúðum utan stofnana og styrkja þjónustu er eflir virkni fólks sem býr við geðfötlun.

Fyrsta verkefni Straumhvarfa á grundvelli þessarar yfirlýsingar er bygging 6–7 íbúða fyrir geðfatlaða á lóð sem Kópavogsbær hefur úthlutað til verkefnisins. Hönnun hússins er hafin og verkið verður boðið út í sumar.

Framkvæmdum vegna uppbyggingar skal vera lokið eigi síðar en 1. apríl  2010.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum