Hoppa yfir valmynd
10. mars 2008 Dómsmálaráðuneytið

Réttarvörslukerfið og flutningur verkefna í deiglunni á fundi með forstöðumönnum

Svipmynd frá forstöðumannafundi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.
Frá forstöðumannafundi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 7. mars sl.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið bauð forstöðumönnum stofnana ráðuneytisins til árlegs fundar föstudaginn 7. mars á Radisson SAS Hótel Sögu. Yfirskrift fundarins var Samvinna – sameining – samruni: Réttarvörslukerfið á tímamótum. Ákæruvaldið var í deiglunni og fjallað var um hugmyndir um millidómstig. Þá var varpað ljósi á möguleika varðandi flutning verkefna innan stjórnsýslunnar og hugsanlega útvistun. Tæplega 70 manns sóttu fundinn; forsvarsmenn stofnana og starfsfólk ráðuneytisins, en þetta er í fjórða sinn sem ráðherra býður til slíks fundar.

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra flutti ræðu þar sem hann kynnti stöðu mála sem unnið er að innan ráðuneytisins. Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari flutti erindi um ákæruvaldið og Elín Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Dómstólaráðs, fjallaði um hugmyndir um millidómstig, sérdómstóla og sameiningu dómstóla.

Þá sagði Jónína B. Bjarnadóttir, sérfræðingur í fjármálaráðuneyti, frá útvistunarstefnu ríkisins. Þau Bjarni Stefánsson, sýslumaður á Blönduósi, og Erna Björg Jónmundsdóttir deildarstjóri sögðu svo frá ávinningi af opnun innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar og Anna Birna Þráinsdóttir, sýslumaður í Vík, sagði frá vel heppnuðum flutningi Lögbirtingablaðsins til Víkur.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, fór einnig yfir flutning verkefna frá sjónarhóli embættisins og Hildur Dungal, forstjóri Útlendingastofnunar, sagði frá góðri reynslu af því að á síðasta ári var opnað fyrir afgreiðslu á umsóknum um dvalarleyfi hjá sýslumannsembættum um land allt. Nokkrar umræður voru um erindin og fyrirspurnir til framsögufólks. Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri stýrði fundi.

Sjá svipmyndir frá fundinum hér.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum