Hoppa yfir valmynd
28. mars 2008 Dómsmálaráðuneytið

Upplýsingar vegna skipulagsbreytinga á Suðurnesjum

Í tilefni af fyrirspurnum frá fjölmiðlum varðandi breytingar á skipan löggæslu- og tollgæslumála á Suðurnesjum tekur dóms- og kirkjumálaráðuneytið fram eftirfarandi:

Rökin fyrir breytingunum eru alveg skýr; hagræðing, bætt stjórnsýsla og skýr ábyrgð. Undanfarin ár hefur rekstur embættisins farið fram úr fjárheimildum og með þessum aðgerðum er verið að leggja traustari grunn að skilvirkari stjórnsýslu og betra rekstrarumhverfi. Það að lögreglu- og tollstjórinn á Suðurnesjum hafi haft á einni hendi lög-, öryggis- og tollgæslumál er arfur frá þeim tíma er utanríkisráðuneytið fór með yfirstjórn mála á Keflavíkurflugvelli fyrir hönd allra ráðuneyta meðan á dvöl varnarliðsins stóð. Með breytingunni er verið að færa stjórnsýslulega skipan mála í það horf sem almennt er í landinu.

Skipulagsbreytingarnar miða að því að saman fari stjórnsýsluleg og rekstrarleg ábyrgð og eru þær ekki settar fram í sparnaðarskyni. Þær miðast að því að færa verkefnin undir forsjá þess ráðuneytis sem ber ábyrgð á hverjum málaflokki; tollgæslan heyrir undir fjármálaráðuneytið, öryggismál eru á forræði samgönguráðuneytis og löggæsla og landamæragæsla áfram á forræði dóms- og kirkjumálaráðherra.

Breytingarnar munu ekki hafa í för með sér minni samvinnu lögreglu, landamæragæslu, tollgæslu og öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli og eiga því á engan hátt að draga úr þeim árangri sem náðst hefur. Hér eftir sem hingað til munu tollverðir, lögreglumenn og öryggisverðir ákveða og skipuleggja samstarfið sín á milli þannig að það verði sem árangursríkast. Markmiðið er að styrkja hverja einingu en um leið að halda í heiðri og efla samstarfið á milli þeirra.

Tekið skal sérstaklega fram að ekki stendur til að færa landamæragæslu frá lögreglustjóraembættinu.

Ráðuneytinu hefur ekki borist uppsögn frá Jóhanni R. Benediktssyni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum