Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Lagafrumvörp lögð fram af fjármálaráðherra

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 3/2008

Fjármálaráðherra mun á næstu dögum mæla fyrir eftirfarandi átta frumvörpum til laga sem samþykkt hafa verið af ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarflokkanna:

1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í frumvarpinu er að finna ýmsar breytingar í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar sl. til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum markaði, þ.e. um hækkun persónuafsláttar, lækkun á tekjuskatti fyrirtækja, breytingar á barnabótum og hækkun á eignarviðmiðum vaxtabóta.

2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald. Með frumvarpinu er lagt til að skuldabréf og tryggingarbréf sem tryggð eru með veði í fasteign og gefin eru út til fjármögnunar fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði verði undanþegin stimpilgjaldi. Er frumvarpið í samræmi við áðurnefnda yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar sl.

3. Frumvarp til laga um uppbót á eftirlaun. Frumvarpið er útfærsla á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. desember 2007 þess efnis að ríkissjóður muni tryggja að ellilífeyrisþegar fái að lágmarki 25 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóði, að viðbættri uppbót á eftirlaun, frá 1. júlí 2008. Er frumvarpinu ætlað að hrinda þessum áformum í framkvæmd og bæta kjör þeirra sem fá takmarkaðar eða engar greiðslur úr lífeyrissjóðum.

4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Með frumvarpinu er auk smærri breytinga lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að taka þátt í skipulegum lánamarkaði með verðbréf.

5. Frumvarp til laga um til breytingu á lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna. Með frumvarpinu eru lagðar til tilteknar breytingar á aðferðum og verklagi við skráningu og mat fasteigna, breytingar á nafni Fasteignamats ríkisins auk breytingar á fjármögnun stofnunarinnar.

6. Frumvarp til laga um endurskoðendur. Um er að ræða heildarlöggjöf um endurskoðendur sem sett er til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB.

7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga. Í frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á ársreikningalögum, samhliða frumvarpi til laga um endurskoðendur, til að tryggja innleiðingu á framangreindri tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB.

8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, og breytingu á lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Með frumvarpinu er verið að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/58/EB um rafræna skráningu upplýsinga í hlutafélagaskrá.


Fjármálaráðuneytinu, 2. apríl 2008

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum