Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2008 Matvælaráðuneytið

Nr. 17/2008 - Alþjóðleg ráðstefna í Færeyjum um áhrif loftslagsbreytinga á lífríki sjávar í N-Atlantshafi

Einar K Guðfinnsson og Al Gore mynd Finnur Justinussen
Einar K Guðfinnsson og Al Gore mynd Finnur Justinussen

Fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

Nr. 17/2008

Alþjóðleg ráðstefna í Færeyjum um áhrif loftslagsbreytinga á lífríki sjávar í N-Atlantshafi

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fjallaði um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og mikilvægi verðmætasköpunar á grundvelli hennar á alþjóðlegri ráðstefnu í Færeyjum um áhrif loftslagsbreytinga á lífríki sjávar í Norður-Atlantshafi og þann vanda sem þær skapa fyrir lönd á svæðinu. Liðlega þrjú hundruð manns víðs vegar að úr heiminum taka þátt í ráðstefnunni, þeirra á meðal Al Gore fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og Nóbelsverðlaunahafi sem flutti aðalerindi ráðstefnunnar.

Ráðherra greindi frá hvernig skynsamleg, hófsöm og ábyrg nýting sjávarauðlindarinnar ásamt fullum yfirráðum yfir 200 mílna efnahagslögsögu hafi skipt algjörum sköpum fyrir íslenskt samfélag. Sjávarútvegurinn hafi verið og sé burðarás efnahagslífsins. Því sé óhjákvæmilegt að hann lúti lögmálum markaðarins og hvorki geti né eigi að þiggja ríkisframlög, ólíkt því sem gerist í mörgum samkeppnislöndum Íslendinga. Sjálfbær nýtings fiskistofna sé lykilatriði. Við reiðum okkur á auðlindina og höfum byggt afkomu okkar á henni. Þess vegna hefur verið ljóst frá upphafi að það skiptir öllu máli fyrir okkur að standa þannig að nýtingu hennar að henni verði skilað í að minnsta kosti jafngóðu ásigkomulagi til afkomenda okkar og hún var í þegar við tókum við henni. Í þvi felast hagmunir okkar. Það má því kannski segja að við séum knúin áfram af hagmunum í þá átt að ganga vel um auðlindina, þótt sannarlega séu um það skiptar skoðanir hvernig staðið skuli að því.

Samspilið í lífríkinu sé flókið og erfitt að henda reiður á því. Ekki sé útilokað að hlýnun sjávar undanfarin ár hafi haft áhrif á þorskstofninn við Ísland og einnig verði að huga vel að ýmsum öðrum þáttum svo sem áhrifum af vexti og viðgangi hvalastofna. Það er til dæmis alveg ljóst að vöxtur hvalastofna hér við Norður-Atlantshaf hefur haft neikvæð áhrif á stærð ýmissa fiskistofna og hvalurinn er í beinni samkeppni við manninn þegar kemur að nýtingu fiskistofnanna. Þess vegna teljum við nýtingu hvala vera óhjákvæmilegan þátt í því að nýta auðlindir hafsins með sem bestum og skynsamlegustum hætti.“

 

Þrátt fyrir nauðsyn markaðsdrifins sjávarútvegs dró ráðherra ekki dul á að greinin hafi jafnframt miklu byggðalegu hlutverki að gegna, sem ekki megi gera lítið úr. Það má hins vegar ekki verða til þess að draga úr hvatanum til þess að hagræða og ná betri árangri fyrir sjávarútveginn í heild. Leiðin felst hins vegar í þvi að taka til hliðar tiltekinn hluta fiskveiðiréttarins og nýta hann undir öðrum formerkjum, án þess þó að takmarka almennt möguleikann til hagræðingar í greininni. Enginn vafi er á því að þessi leið er farsælli en sú að leggja endalausar byrðar á sjávarútveginn í heild, í nafni félagslegra sjónarmiða af einhverju tagi. Þá leið hafa ýmsar þjóðir farið með hörmulegum árangri, eins og mörg dæmi sanna, því miður.

 

Til að sem bestur árangur náist þurfi að skilgreina fiskveiðiréttinn. Aðalatriðið er að rétturinn sé einstaklingsbundinn. Það hvetur til hagræðingar og að menn búi til úr auðlindinni eins mikil verðmæti og kostur er. Þannig verða menn líka að hugsa til framtíðar, því sá sem fær réttinn til auðlindanýtingarinnar vill auðvitað standa á þann veg að henni að það skapi honum og þá um leið þjóðarbúinu varanleg verðmæti til lengri tíma. [...] Auðlind, hversu ríkuleg sem hún er, verður ekki að áþreifanlegu verðmætum nema menn nýti hana með skynsamlegum hætti. Dæmi um þetta, víðsvegar að úr heiminum, blasa hvarvetna við. Þess vegna verðum við ávallt að hafa í huga þetta tvennt; ábyrga nýtingu auðlindar og skipulag sem leiðir til minni kostnaðar og stuðlar að auknum tekjum.

 Sjá ræðu ráðherra

Einar K Guðfinnsson og Al Gore mynd Finnur Justinussen

 Einar K. Guðfinnsson og Al Gore, myndina tók Finnur Justinussen.

 

Sjá fleiri myndir af ráðstefnunni

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu

7. apríl 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum