Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Um þjóðlendukröfur ríkisins

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 4/2008

Í tilefni af umfjöllun um þjóðlendukröfur ríkisins á sunnanverðu Mið-Norðurlandi vill fjármálaráðherra koma eftirfarandi á framfæri:

Fullyrðingar í fjölmiðlum undanfarna daga, um að kröfulýsingarnar nú samræmist ekki áðurframkomnum yfirlýsingum ráðherra um kröfugerð í þjóðlendumálum eru rangar.

Við kröfugerð á svæði því sem nú er tekið til meðferðar hefur fjármálaráðherra tekið mið af niðurstöðum óbyggðanefndar og dómstóla í málum sem gengið hafa á undanförnum misserum. Kröfugerðin er í samræmi við þá afstöðu sem ríkið tók með ákvörðunum sínum um síðustu áramót, um að falla frá málshöfðun vegna mála á Norð-Austurlandi, t.d. vegna svokallaðra Smjörfjalla, svo og í Esjumálum. Að mati fjármálaráðherra felur það í sér að kröfugerð á núverandi svæði er mun afmarkaðri en áður hefur verið talin þörf á.

Meginstefna ríkisins við kröfulýsingar er að fylgja merkjalýsingum jarða við ákvörðun marka milli eignarlanda og þjóðlendna, en merkjum flestra jarða á svæðinu er lýst í landamerkjabréfum þeirra.

Svæðið sem nú er til meðferðar nær til stórs hluta hálendis Íslands á sunnanverðu Norðurlandi, þ.e. tekur til afréttarsvæða sem nefnd eru Nýjabæjarafréttur, Hofsafréttur og Eyvindarstaðaheiði. Hæstiréttur Íslands hefur í dómum sínum þegar fjallað um tvö af þessum afréttarsvæðum og hefur hafnað því að svæðin teljist til eignarlanda tiltekinna jarða. Kröfugerð ríkisins nú tekur mið af þeim sjónarmiðum sem á er byggt í þessum dómum Hæstaréttar. Í því felst að ekki er fallist á að slík svæði falli undir beinan eignarrétt. Afréttareign jarða eða sveitarfélaga á umræddum svæðum er hins vegar lítt eða ekki umdeild og kröfugerð ríkisins breytir engu um þau réttindi sem jörðum hafa tilheyrt að þessu leyti á svæðinu.

Fjármálaráðherra gerði á síðasta ári tillögur um breytingar á verklagi við kröfulýsingar af hálfu ríkisins og hafa sumar af þeim þegar komist í framkvæmd. Kröfugerð nú tekur þannig til mun afmarkaðra svæðis en upphaflega var ráðgert og því er farið hægar í sakirnar en  ella hefði orðið. Af því leiðir jafnframt að unnt er við kröfugerð að taka mið af niðurstöðu mála á öðrum svæðum og niðurstöðum dómstóla sem máli skipta.

Rétt er að halda því til haga að við kröfugerð nú var, að mati ríkisins, í öllum tilfellum stuðst við þinglýst landamerki, nema þar sem þinglýsingar ná upp til jökla eða almenninga, enda hefur hæstiréttur ekki fallist á slíkar kröfur fram til þessa.

Kröfugerðin nú tekur fullt tillit til athugasemda sem gerðar voru við meðferð þjóðlendumála af hálfu ríkisins og til samræmis við yfirlýsingar ráðherra að þessu leyti. Eðli þjóðlendumála er hins vegar þannig að ágreiningur getur verið um tiltekin svæði eða afmörkun þjóðlendna í einstaka tilvikum. Slíkt liggur í hlutarins eðli og hefur fjármálaráðherra hvergi sagt að aldrei kæmu upp álitamál í þessum efnum. Þeirri málsmeðferð sem hefst með kröfulýsingum ríkisins er hinsvegar ætlað að greiða úr þeim ágreiningi, í samræmi við lög um þjóðlendur.


Fjármálaráðuneytinu, 7. apríl 2008

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum