Hoppa yfir valmynd
6. maí 2008 Dómsmálaráðuneytið

Ný landhelgisgæsluáætlun fyrir árin 2008-2010

Landhelgisgæsla Íslands og dóms- og kirkjumálaráðuneytið kynntu í dag nýja landhelgisgæsluáætlun fyrir árin 2008-2010.
Landhelgisgæsluáætlun 2008-2010
Ný landhelgisgæsluáætlun fyrir árin 2008-2010.

Landhelgisgæsla Íslands og dóms- og kirkjumálaráðuneytið kynntu í dag nýja landhelgisgæsluáætlun fyrir árin 2008-2010. Í henni eru mörkuð spor sem munu gjörbreyta möguleikum Landhelgisgæslunnar til að sinna hlutverki sínu jafnt til björgunar, gæslu landhelginnar og mengunarvarna. Þá tekur áætlunin á þeirri breyttu heimsmynd sem við blasir í löggæslumálum á starfssvæði Landhelgisgæslunnar og leggur þannig aukna áherslu á varnir gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi sem og landamæraeftirlit.

Í landhelgisgæsluáætlun 2008-2010 er fjallað ítarlega um markmið og áherslur í starfsemi Landhelgisgæslunnar. Á þessum tíma mun tækjakostur hennar eflast til mikilla muna með nýrri flugvél og nýju varðskipi sem eru búin fullkomnasta tækjabúnaði. Auk þess hefur verið gengið frá samkomulagi milli Íslands og Noregs um útboð á þremur nýjum björgunarþyrlum sem afhentar verða á árunum 2011-2014. Með þessum nýja búnaði verður Landhelgisgæslan betur í stakk búin til að sinna hlutverki sínu, hvort heldur horft er til gæslu landhelginnar, björgunar eða mengunarvarna. Þá tekur áætlunin á því hvernig nota megi enn frekar þá tækni sem felst í fjareftirlitskerfum til að afla vitneskju um alla skipaumferð innan efnahagslögsögunnar og þannig gera eftirlitið markvissara.

Í ljósi stóraukinnar umferðar skipa um Norður-Atlantshaf í nágrenni Íslands með olíu, gas og önnur mengandi efni eykst hætta á mengunarslysum í íslensku efnahagslögsögunni. Auk þess kalla skipulögð glæpastarfsemi og aukin hætta á hryðjuverkum á hert eftirlit og aukna öryggisgæslu. Samkvæmt áætluninni verður lögð ríkari áhersla á þessa þætti í starfseminni en verið hefur.

Landhelgisgæslan gegnir lykilhlutverki af Íslands hálfu við þátttöku í alþjóðlegu samstarfi um öryggi á N-Atlantshafi. Til að styrkja þetta samstarf hefur verið ritað undir samstarfssamning við Dani um leit og björgun auk þess sem Ísland á aðild að samkomulagi Bandaríkjanna, Stóra-Bretlands og Kanada um leit og björgun á N-Atlantshafi. Við brotthvarf varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli haustið 2006 tókst Landhelgisgæslan á hendur aukna ábyrgð varðandi öryggismál og sinnir nú allri leitar- og björgunarstarfsemi þyrlna í landinu.

Starfsemi Landhelgisgæslunnar er afar umfangsmikil og eru starfsmenn hennar nú um 170. Fyrir utan öryggis- og löggæslu á N-Atlantshafi fer Landhelgisgæslan með yfirstjórn leitar- og björgunarþjónustu innan íslenskrar efnahagslögsögu og á nærliggjandi alþjóðlegum hafsvæðum. Þá sinnir Landhelgisgæslan mengunareftirliti á hafinu, sjómælingum, sjókortagerð, sprengjueyðingu og kemur að björgun og sjúkraflutningum á landi. Auk þess vinnur Landhelgisgæslan í nánu samstarfi við nágrannaþjóðirnar um að halda uppi öryggis- og löggæslu á N-Atlantshafi. Í áætluninni er enn meiri áhersla en áður lögð á það samstarf og Landhelgisgæslunni ekki síst ætlað það hlutverk að vera í fararbroddi á því sviði og nýta þar þann tækjakost og þá sérfræðiþekkingu sem hún býr yfir.

Með þessari áætlun er lagður grunnur að öflugri starfsemi Landhelgisgæslu Íslands næstu ár í samræmi við nýjar kröfur. Samhliða því sem allur tækjakostur Landhelgisgæslunnar tekur stakkaskiptum er nauðsynlegt að móta stefnu um skynsamlega og markvissa nýtingu þessara tækja í höndum vel þjálfaðra starfsmanna og tryggja nægilegt fjármagn með samþykki fjárveitingavaldsins.

Í áætluninni er lagt á ráðin um þjálfun starfsmanna til að nýta hin nýju tæki. Þar er einnig að finna hugmyndir um hvernig þau skulu nýtt. Að þessu leyti er áætlunin nauðsynlegur grundvöllur umræðna um inntak langtímaáætlunar fyrir fjárlagagerð. Rekstrarlegar ákvarðanir samkvæmt áætluninni munu taka mið af þeim fjármunum, sem hverju sinni er varið til starfsemi Landhelgisgæslunnar.

Fjárveitingar ráða því, hve úthaldsdagar varðskipa og flugvélar verða margir. Þá ræðst einnig af fjárveitingum, hve viðbragðstími áhafna á flugvél og þyrlum er langur, eða hvort þyrlur verða að staðaldri með bækistöð eða -stöðvar utan Reykjavíkur.

Sjá landhelgisgæsluáætlun hér (pdf-format)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum