Hoppa yfir valmynd
9. maí 2008 Dómsmálaráðuneytið

Dóms- og kirkjumálaráðherra ræðir Evrópumál á lagadegi 2008

Lagadagur 2008 er haldinn í dag að frumkvæði Lögfræðingafélags Íslands, Lögmannafélags Íslands og Dómarafélags Íslands. Við upphaf umræðna á deginum flutti Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra ávarp, sem hann nefndi Í krafti lögmætis. Þar fjallaði hann einkum þróun Evrópuréttar með vísan til aðildar Íslands að evrópska efnahagssvæðinu og Schengensamstarfinu. Ráðherrann vakti máls á aðdraganda þess, að Ísland samdi um aðild að þessum samningum við Evrópusambandið og sagði:

„Aðdragandinn var að sjálfsögðu sá, að á stjórnmálavettvangi höfðu flokkar sammælst um nauðsyn þess, að Ísland gerði þessa samninga, og síðan var gengið til þess verks að kanna, hvernig tryggja bæri lögmæti þess. Í þeim umræðum öllum kom fram, að yrði stigið skrefi lengra á braut Evrópusamstarfsins þyrfti enn að huga að stjórnarskránni. Og henni þyrfti örugglega að breyta, ef ákvörðun yrði tekin um að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Þegar þetta er rifjað upp á líðandi stundu, er allt í einu talið, að minnist einhver á breytingu á stjórnarskránni jafngildi orðin því, að sá hinn sami vilji aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta er einkennileg túlkun, því að stjórnarskránni þarf ekki að breyta í þessa veru, nema fyrst liggi fyrir vilji þings og þjóðar til inngöngu í Evrópusambandið.

Sé sá vilji ekki fyrir hendi, er óþarft að breyta stjórnarskránni vegna samstarfs við Evrópusambandið, nema menn aðhyllist þá skoðun, að samskipti Íslands við það hafi breyst á þann veg, að brjóti í bága við stjórnarskrána. Virtir lögfræðingar hafa haldið því fram, að EES-samningurinn hafi leitt til yfirþjóðlegra skuldbindinga, aðrir virtir lögfræðingar eru annarrar skoðunar."

Sjá ávarpið í heild hér.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum