Hoppa yfir valmynd
14. maí 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samkeppniseftirlitið valin ríkisstofnun til fyrirmyndar 2008

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 7/2008

Í dag afhenti Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, Samkeppniseftirlitinu viðurkenningu sem ríkisstofnun til fyrirmyndar 2008. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri, veitti viðurkenningunni viðtöku fyrir hönd stofnunarinnar. Einnig afhenti ráðherrann Kvennasviði Landsspítala háskólasjúkrahúss og Geislavörnum ríkisins hvatningarviðurkenningar.

Í janúar skipaði fjármálaráðherra nefnd til þess að velja ríkisstofnun sem skarað hefur fram úr og verið til fyrirmyndar í starfi sínu. Í nefndinni voru Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnsýslufræðingur, og Birna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Glitnis. Með nefndinni störfuðu Angantýr Einarsson, skrifstofustjóri og Arnar Þór Másson stjórnmálafræðingur í fjármálaráðuneytinu.

Óskað var eftir tilnefningum frá ráðuneytum auk þess sem ríkisstofnanir gátu sjálfar óskað eftir þátttöku. Alls tóku 15 stofnanir þátt að þessu sinni. Horft var til stefnumótunar, framtíðarsýnar og markmiðssetningar stofnana við ákvörðun um valið. Einnig var horft til stjórnunaraðferða og hvernig stjórnendur og starfsmenn fylgja eftir að settum markmiðum sé náð. Skoðað var hvaða aðferðum stofnanir beita við að þróast og bæta árangur sinn í síbreytilegu umhverfi, auka nýjungar í þjónustu við notendur og bæta liðsheild innan stofnananna. Jafnframt lagði nefndin áherslu á að starfsemi ríkisstofnunar til fyrirmyndar væri árangursrík, skilvirk og að stjórnendur legðu áherslu á að gera betur.

Í niðurstöðum nefndarinnar segir um vinningshafann:

Fá því að ný samkeppnislög tóku gildi árið 2005 hefur uppbygging Samkeppniseftirlitsins verið markviss. Stofnunin starfar eftir skýrri stefnu og markmiðum og leggur mikinn metnað í að hrinda þeim í framkvæmd með gagnsæjum ferlum sem endurskoðaðir eru reglulega. Skipulag stofnunarinnar er verkefnamiðað og byggist á jafningjastjórnun þar sem starfsfólk er virkjað til ábyrgðar. Árangur starfseminnar kemur m.a. fram í bættri aldurssamsetningu mála og auknum málshraða á undanförnum árum. Vel er haldið á starfsmannamálum innan stofnunarinnar og með markvissum starfs- og launasamtölum er lagður grunnur að frammistöðumati sem tekur mið af ábyrgð og árangri. Þá er lögð áhersla á hagkvæmni við nýtingu fjármuna sem kemur m.a. fram í virku tímaskráningarkerfi. Stjórnendur stofnunarinnar hafa skýra sýn á framtíð hennar og þann árangur sem ætlunin er að ná á næstu árum. Augljóst er að mikið og metnaðarfullt starf fer fram hjá Samkeppniseftirlitinu og eru stjórnendur meðvitaðir um stöðu stofnunarinnar í samfélaginu. Nefndin telur að aðrar ríkisstofnanir gætu tekið sér stofnunina til fyrirmyndar á mörgum sviðum.

Þetta er í sjöunda sinn sem ríkisstofnun til fyrimyndar er valin. Umferðastofa varð fyrir valinu 2006, ÁTVR 2004, Orkustofnun 2002, Landgræðsla ríkisins 2000, Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Reykjanesi 1998 og Kvennaskólinn í Reykjavík 1996.

Fyrirmyndarstofnun 2008Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra, Páll Gunnar Pálsson forstjóri og
Gylfi Magnússon stjórnarformaður


Fjármálaráðuneytinu, 14. maí 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum