Hoppa yfir valmynd
16. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málþing um heimilislausar konur

Góðir gestir.

Ég þakka þeim sem standa að þessu málþingi fyrir að vekja máls á aðstæðum heimilislausra og ræða leiðir til að sinna þeim. Þetta eru Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða, vímuefnadeild Landspítalans, Rauði kross Íslands Reykjavíkurdeild, Hjálparstarf kirkjunnar og Samhjálp. Ég þakka jafnframt fyrir að fá tækifæri til að segja hér nokkur orð á ráðstefnu þar sem fagfólk sem best þekkir til aðstæðna heimilislausra kvenna miðlar af sinni reynslu því við verðum að taka höndum saman og finna leiðir til að taka á vanda þeirra.

Það er auðvitað þyngra en tárum tekur að við skulum búa við þann raunveruleika í samfélaginu að einhverjir lifi við þær aðstæður að eiga hvergi höfði sínu að halla. Við verðum að sýna í verki að samfélaginu stendur ekki á sama og leyfir ekki uppgjöf og skeytingarleysi gagnvart þeim sem verst eru settir í samfélaginu.

Dæmigerð fyrsta spurning hér í dag í umræðum um heimilislausar konur væri þessi: Hver ber ábyrgð á þessum hópi? Er það heilbrigðiskerfið eða félagslega kerfið, eru það sveitarfélögin eða ríkið? Hvaða stofnanir eða stjórnvöld getum við dregið til ábyrgðar? Það er mál sem við verðum að fara í og útkljá, því heimilislausir mega ekki líða fyrir að opinberir aðilar séu uppteknir af því að velta vandanum hver yfir á annan.

Við eigum frekar að einbeita okkur að því hvaða hópur þetta er og hvernig við getum mætt þörfum hans og hjálpað til sjálfsbjargar. Við eigum að skilgreina þennan hóp og þarfir hans.

En það er of mikið gert af því að á sama tíma að reyna að skilgreina frá okkur ábyrgðina yfir til annarra á grundvelli þess ef okkur þykir of vandasamt og flókið að veita þá aðstoð og þjónustu sem þörf er fyrir og aðrir eigi að borga fyrir hana. Ég legg hins vegar áherslu á að við megum ekki vísa ábyrgð milli stofnana og stjórnvalda þannig að þeir sem málin snúast um sitji eftir án hjálpar og nauðsynlegrar þjónustu. Þeir sem koma að þessum málum verða að vinna náið saman eins og ég veit að er einmitt markmið þeirra sem standa fyrir málþinginu hér í dag.

Það sem gerir heimilislausa að hópi er sú staðreynd að þeir eiga hvergi höfði að halla. Þeir eiga ekki þak yfir höfuðið og engan fastan samastað. Þeir eiga ekki vísan samastað í hinu svokallaða kerfi þar sem þeir falla ekki inn í kerfið og úrræði þess. Vandamál heimilislausra geta verið margvísleg en oftast er um að ræða margþætt, langvarandi félagsleg og heilsufarsleg vandamál. Stundum líka erfiðleikar að takast á við lífið, ábyrgð þess og skyldur. Þetta fólk verður alltof oft utangarðsmenn í þjóðfélagi þar sem ábyrgð og skyldum er vísað yfir á aðra. Áfengis- og fíkniefnaneysla er oft rót vandans hjá mörgum og geðræn vandamál sömuleiðis.

Ef fjárhagsörðugleikar eru ekki hluti af orsökinni er í það minnsta öruggt að fátækt er fylgifiskur ástandsins. Brostin fjölskyldutengsl og afneitun hinna nánustu getur sömuleiðis verið hluti af orsök, og ef ekki orsök þá er nokkuð víst að þeir sem lenda utangarðs glati tengslum við aðra en þá sem eru jafn illa settir og þeir sjálfir. Afbrot geta verið hluti af orsök, og afbrot eru iðulega fylgisfiskur útskúfunar og harðrar lífsbaráttu, fjármögnunar á neyslu og þar fram eftir götunum. Kynferðisleg misnotkun kemur líka of oft við sögu.

Þið þekkið eflaust öll skýrslu samráðshóps um heimilislausa sem starfaði á vegum félagsmálaráðuneytisins og skilaði greinargerð og tillögum til úrbóta í október 2005. Samkvæmt athugun hópsins voru heimilislausir taldir vera 49 um áramótin 2004/2005. Um þessar tölur er deilt. Allir utan tveir voru í Reykjavík og í hópnum voru taldar fimm konur. Deilt hefur verið um hvort þessar tölur gefi rétta mynd af ástandinu eða hvort heimilislausir séu mun fleiri. Geðhjálp telur að yfir 100 geðsjúkir einstaklingar séu á götunni. Samkvæmt þarfagreiningu sem Reykjavíkurdeild Rauða krossins lét gera áður en Konukot var opnað haustið 2004 voru heimilislausar konur taldar vera að minnsta kosti 20 í Reykjavík.

Konukot er eina úrræðið sérstaklega ætlað heimilislausum konum en einnig ber að nefna Dyngjuna, áfangaheimili fyrir konur á öllum aldri sem eru að koma úr áfengis- eða vímuefnameðferð. Þar er rúm fyrir 14 konur sem miðað er við að dvelji þar hið minnsta í þrjá mánuði þótt dvölin verði mun skemmri hjá sumum en margar eru þar í fimm til sex mánuði og allt upp í meira en ár. Þetta úrræði er ekki ætlað sérstaklega heimilislausum konum en forðar án efa mörgum konum frá götunni og gerir þeim kleift að koma undir sig fótunum.

Til mín hafa leitað, eftir að ég varð ráðherra á nýjan leik, konur sem átt hafa afdrep í Konukoti að eigin sögn í þrjú til fjögur ár þótt ekki væri það samfellt. Þær sögðust ekki vera í neyslu en þurfa að deila herbergi á nóttunni með öðrum konum í neyslu. Þótt þær þakki fyrir húsaskjól eru þetta vægast sagt ömurlegar aðstæður. Það er afar brýnt að félagslega kerfið veiti skipulega aðstoð til að virkja konur sem þessar út í lífið á nýjan leik með markvissri endurhæfingu og aðstoð. Þær þurfa félagsleg húsnæðisúrræði og vinnumarkaðstengd úrræði meðan þær eru að vinna sig út úr vandanum.

Fólk, konur í svona aðstöðu eru ekki bara að biðja um húsaskjól, þær eru hrópandi og kallandi eftir hjálp, margþættri sem þær þurfa til að komast út í samfélagið á nýjan leik. Þær þrá endurhæfingu til að geta nálgast börn sín og fjölskyldu á nýjan leik. Þeirra hlutskipti er of oft að vera hrópandi í eyðimörkinni því samfélagið er oft of upptekið í öðru og heyrir ekki ákall þeirra.

Ég skal ekki segja hve heimilislausir eru margir eða hve margar konur eru heimilislausar en auðvitað verðum við að átta okkur á umfangi vandans. Það gildir hins vegar einu hvort heimilislausir eru 50 eða 100, við verðum að sinna þeim sem svo illa er ástatt um.

Margir telja að fjöldi heimilislausra kvenna sé vanmetinn og að vandi þeirra sé duldari en karlanna. Skýringin liggi í því að illa staddar konur selji jafnvel líkama sinn og undirgangist misnotkun og ofbeldi fyrir húsaskjól fremur en að lenda á götunni. Það er skelfilegt ef rétt er en því miður er ástæða til að ætla að þetta eigi við rök að styðjast.

Margar eiga þessar konur börn sem þær hafa misst forsjá yfir og upplifa vegna þess bæði mikla sorg og söknuð en einnig von til þess að geta byggt upp líf sitt og náð tengslum við börn sín á nýjan leik. Það er samfélagsins að hjálpa þeim að láta þessa von verða að veruleika.

Hver manneskja er dýrmæt og opinberir aðilar hafa skyldur til að beita samfélagslegum úrræðum til að hjálpa þeim til sjálfsbjargar sé þess nokkur kostur. Munum líka að það kveikir ekki bara lífsneistann sem dugir til að hjálpa þessum konum til sjálfshjálpar heldur veitir aðstandendum og börnum vonina um leið og við spörum í heilbrigðis- og félagslega kerfinu. Styðja þarf alla viðleitni fólks sem sýnir vilja til að fóta sig í samfélaginu á nýjan leik en þarf til þess tímabundinn stuðning. Það er grundvallaratriði.

Í samræmi við tillögur fyrrnefnds samráðshóps um heimilislausa var stofnað teymi sem heldur yfirsýn yfir stöðu húsnæðislausra á höfuðborgarsvæðinu á hverjum tíma og hefur úrræði til að leysa úr bráðum vanda meðan unnið er að varanlegri lausn. Þar eiga sæti fulltrúar Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Heilsugæslunnar í Reykjavík og lögreglunnar í Reykjavík.

Samráðshópurinn lagði einnig til að stofnuð yrðu tvö heimili fyrir húsnæðislausa með sérhæfðri félags- og heilbrigðisþjónustu í samvinnu Reykjavíkurborgar og félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Samstarfssamningur um þetta var undirritaður í desember 2006 og á grundvelli hans var komið á fót átta manna heimili fyrir heimilislausa karla á Njálsgötu og leggur ráðuneytið 80 milljónir króna til verkefnisins á samningstímanum sem er til ársloka 2009. Ég hef hitt fyrrum heimilislaust fólk sem fengið hefur skjól í þessu húsi, líður mjög vel þar og hvetur til þess að fleiri sambærileg heimili verði reist.

Nú hefur ráðuneytið og Velferðarsvið borgarinnar ákveðið að efna til samstarfs um rekstur á nýju húsnæði með félagslegum stuðningi fyrir allt að 20 einstaklinga og mun ráðuneytið leggja 85 milljónir króna til verkefnisins á næstu þremur árum. Þjónustan er ætluð fólki sem hætt hefur neyslu áfengis- og vímuefna en þarf umtalsverðan stuðning til að ná tökum á lífi sínu. Þarna mun fólk fá húsaskjól, félagslegan stuðning og endurhæfingu þannig að það geti búið sjálfstætt án vímugjafa og tekið virkan þátt í samfélaginu.

Frjáls félagasamtök hafa gegnt mikilvægu hlutverki fyrir heimilislausa og komið á fót margvíslegum úrræðum allt frá því að veita heimilislausum næturskjól, sjá þeim fyrir mat og afdrepi að deginum til þess að reka áfanga- og meðferðarheimili. Flest þessara úrræða eru rekin með aðkomu ríkis eða sveitarfélaga í formi styrkja eða annars konar fyrirgreiðslu. Ég nefni hér sérstaklega kaffistofu Samhjálpar sem hefur líklega verið eini fasti punkturinn í lífi margra umkomulausra Reykvíkinga. Ég met mikils þá mikilvægu samfélagshjálp sem felst í störfum frjálsra félagasamtaka og sjálfboðaliða en legg áherslu á að hið opinbera má ekki víkja sér undan ábyrgð gagnvart þessum hópi fólks sem er eins illa settur og hugsast getur vegna margvíslegra félagslegra vandamála, geðsjúkdóma, ofneyslu vímuefna og svo mætti áfram telja. Úrræði og þjónusta við heimilislausa, hver sem sinnir henni, verður að lúta ákveðnum reglum og sæta eftirliti svo tryggt sé að ekki sé brotið á þessu fólki eða það misnotað í varnarleysi sínu á einn eða annan hátt.

Það er deilt um fjölda heimilislausa og það er deilt um hvernig eigi að skilgreina þennan hóp. Eru heimilislausir einungis þeir sem vita ekki sinn næturstað frá degi til dags og eru á götunni í orðsins fyllstu merkingu? Eða eru heimilislausir einnig þeir sem hafa um árabil dvalið á geðheilbrigðisstofnunum en gætu búið úti í samfélaginu með viðhlítandi stuðningi og eftirfylgni eða fólk sem fær skjól hjá fjölskyldu, vinum eða kunningjum og er alfarið upp á það komið?

Í mínum huga er vandinn tvíþættur og verkefnin í samræmi við það. Í fyrsta lagi er það fólkið sem er á götunni. Það er erfitt að átta sig á aðstæðum og þörfum þessa hóps, hann kemur víða við í kerfinu, svo sem í heilbrigðiskerfinu, félagslega kerfinu, hjá lögreglu, auk þess að leita til trúar- og hjálparsamtaka af ýmsu tagi. Þetta fólk er iðulega ekki fært um að nýta sér skipulega aðstoð, það er handahófskennt hvar það ber niður í kerfinu hverju sinni og eflaust eru einhverjir sem bera sig ekki eftir þeirri aðstoð sem þeir gætu fengið.

Númer eitt er að finna þessu fólki fastan samastað því það er nánast útilokað að veita skipulega aðstoð fólki sem óvíst er hvar heldur sig frá einum degi til annars. Forsenda þess að hægt sé að tryggja fastan samastað fyrir húsnæðislaust fólk er að það verði skráð hjá félagsþjónustum sveitarfélaganna sem umsækjendur félagslegs húsnæðis og umsóknunum viðhaldið.

Í öðru lagi eru það þeir sem um árabil hafa dvalið á geðheilbrigðisstofnunum en ættu með stuðningi að geta búið sjálfstætt, eða þeir sem eru komnir upp á fjölskyldu, ættingja og vini um húsaskjól en þurfa á úrræðum að halda. Í málefnum þessa fólks eru Straumhvörf, fimm ára verkefni félags- og tryggingamálaráðuneytisins, mikilvægt en liður í því er að finna geðfötluðum búsetuúrræði við hæfi. Fé var tryggt til þessa verkefnis með ákvörðun ríkisstjórnarinnar árið 2005 um að verja einum milljarði af söluandvirði Símans og hálfum milljarði að auki úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til stofnkostnaðar vegna búsetuúrræða og stoðþjónustu fyrir geðfatlað fólk á árunum 2006–2010.

Almennar aðgerðir í húsnæðismálum varða kannski ekki beint þann hóp sem er til umræðu hér. Það hlýtur þó að skipta máli og geta haft fyrirbyggjandi áhrif að styðja betur við bak þeirra sem verst eru settir í þeim efnum. Á næstu dögum hefst á mínum vegum víðtæk stefnumótunarvinna í húsnæðismálum þar sem hlutverk hins opinbera í húsnæðismálum verður skýrt og endurskilgreint. Fyrsta skrefið í að auðvelda fólki aðgang að húsnæði á viðráðanlegu verði var stigið með samkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga um hækkun húsaleigubóta í apríl síðastlðinum en bæturnar hafa ekki hækkað frá árinu 2000. Hámarksbætur hækka nú um tæplega 50% eða úr 31.000 krónum í 46.000 krónur.

Í samkomulaginu felst einnig það nýmæli að ríkið komi að greiðslu sérstakra húsaleigubóta og eru sveitarfélög hvött til að taka þær upp. Þær bætur, sem ekki eru lögbundnar, eru greiddar af sumum sveitarfélögum til þeirra sem búa við mjög erfiðara félagslegar aðstæður en eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Sérstöku húsaleigubæturnar gera íbúum þessara sveitarfélaga kleift að leigja húsnæði á almennum markaði. Þær hækka samkvæmt samkomulaginu og geta að húsaleigubótum meðtöldum orðið, að hámarki, 70.000 krónur í stað til dæmis 50.000 krónum áður hjá Reykjavíkurborg.

Nýtum þessi úrræði líka þegar við höfum tækifæri til að leiða heimilislausa inn á veg sjálfshjálpar til virkni í samfélaginu sem ég trúi að allir heimilislausir vilji og geti fái þeir rétta aðstoð og leiðbeiningar.

 

Góðir fundarmenn.

Samfélagið allt ber ábyrgð á því að koma í veg fyrir að fólk lendi á götunni. Þjónusta og úrræði grundvallast á lögum um heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðra svo margir koma að málefnum þessa hóps. Ríki og sveitarfélög þurfa að vinna að þessu saman og oft verður það best gert í samvinnu við félagasamtök sem vinna að málefnum heimilislausra.

Árlega er veitt umtalsverðu fé af fjárlögum til margvíslegrar velferðarþjónustu og svo mun verða áfram. Það er meðal annars hlutverk ráðuneytisins að fylgjast með stöðu þessara mála og styðja við uppbyggingu fjölbreyttra úrræða sem mæta ólíkum þörfum.

Aftur vil ég þakka þeim sem standa að málþinginu hér um heimilislausar konur. Það er algjörlega nauðsynlegt að þeir sem að koma að málefnum þeirra tali saman, samhæfi úrræði og vinni saman til að ná yfirsýn yfir vandamál hópsins og stuðla að uppbyggingu úrræða í samræmi við þá þörf sem fyrir hendi er.

Nú hef ég fyrst og fremst rætt um vanda heimilislausra almennt í erindi mínu. Ég tek fram að ég geri mér grein fyrir því að sérstök úrræði fyrir heimilislausar konur eru bráðnauðsynleg eins og glöggt hefur sýnt sig með rekstri til dæmis Konukots og Dyngjunnar. Konukot hefur einnig dregið fram og varpað skýrara ljósi á þörfina og stuðlað að viðurkenningu á því að þörf sé fyrir sérstök úrræði handa konum sem lifa í þeirri neyð að eiga hvergi höfði að halla.

Ég vil að lokum fullvissa gesti málþingsins um það að félags- og tryggingamálaráðuneytið er mjög meðvitað um vanda þessa hóps og hefur ríkan vilja til þess að koma með öðrum að því að bæta aðstæður þeirra og fyrirbyggja eins og mögulegt er að fólk lendi í þeim skelfilegu aðstæðum sem hér um ræðir.

Ég lýsi málþingið sett og veit að það verður fróðlegt og gagnlegt og skilar okkur nær markmiðunum að bæta stöðu heimilislausra almennt og ekki síst heimilislausra kvenna sem þetta málþing fjallar um.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum