Hoppa yfir valmynd
16. maí 2008 Matvælaráðuneytið

Málþing um lífrænan landbúnað

Malting 16 maí2008
Malting 16 maí2008

Málþing um lífrænan landbúnað

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávarpaði gesti á málþing um lífrænan landbúnað sem Landbúnaðarháskóli Íslands hélt í Norræna húsinu í dag.

Í ræðu sinni fjallaði ráðherra m.a. um styrki til lífrænnar framleiðslu og sagði: „Vissulega hafa styrkir til lífrænnar framleiðslu verið lægri hér en í nágrannalöndum og það endurspeglar líklega umfang framleiðslunnar hingað til hér á landi. Menn verða að hafa í huga að framleiðslan mun alltaf hafa tilhneigingu til þess að endurspegla þörfina sem kemur fram á markaðnum. Ýmislegt bendir til þess að vaxandi eftirspurn sé nú eftir lífrænum vörum. Því má þess vænta að íslenskir bændur bregðist við og freisti þess að uppfylla slíka aukna eftirspurn. Á það hefur og verið bent að verðþróun ýmissa aðfanga ýti ennfremur undir áhuga manna á framleiðslu á lífrænum afurðum. Ákvarðanir um slíkt hvíla þó á herðum bænda sjálfra sem hljóta að vega og meta þær á grundvelli afkomu sinnar og hagkvæmni þess að breyta um kúrs. Slíkt verður ekki gert með valdboðum, heldur er hér um að ræða niðurstöðu sem framleiðendur búvara komast sjálfir að út frá þeim forsendum sem þeir gefa sér.

Þessi málefni eru nú til umfjöllunar í endurskoðun búnaðarlagasamningsins. Ég hef óskað eftir því að menn fari yfir það hvort forsendur hafi breyst varðandi stuðning við lífræna framleiðslu og mun ég taka tillit til þeirra sjónarmiða sem bændur setja þar fram.“

Á málþinginu var reynt að varpa ljósi á ýmsar hliðar lífræns landbúnaðar og m.a. leitast við að svara eftirfarandi spurningum: Eru lífrænar afurðir hollari en aðrar? Valda framleiðsluaðferðirnar minni skaða á umhverfinu en ef um hefðbundinn landbúnað væri að ræða? Nær lífrænn landbúnaður betur að uppfylla óskir neytenda hvað varðar dýravelferð? Er lífrænn landbúnaður valkostur á Íslandi?

Ávarp ráðherra

Myndir

 

Malting 16 maí2008

 

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 16. maí 2008

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum