Hoppa yfir valmynd
21. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mæðrastyrksnefnd 80 ára

Velmegun Íslendinga má ekki snúast upp í græðgi og ábyrgðarleysi sagði meðal annars í ávarpi Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, í móttöku sem haldin var í tilefni 80 ára afmælis Mæðrastyrksnefndar.

Hrannar Björn Arnarsson, aðstoðarmaður ráðherra, flutti ávarpið fyrir hönd ráðherra í móttökunni sem haldin var af Kvenréttindafélagi íslands, Kvenfélagasambandi Íslands og Bandalagi kvenna í Reykjavík. Í ávarpinu kom fram að Mæðrastyrksnefnd hefði ótvírætt haft veruleg áhrif á mótun íslenska velferðarkerfisins en fyrsta baráttumál hennar undir formennsku Laufeyjar Valdirmarsdóttur var að tryggja öllum einstæðum mæðrum, ekkjum, ógiftum og fráskildum rétt til meðlagsgreiðslna með börnum sínum og mæðralaun sem nægðu til að tryggja afkomu heimilanna. Í ávarpi ráðherra sagði enn fremur:

„Nú er mannsaldur liðinn frá stofnun Mæðrastyrksnefndar. Á þeim tíma hefur okkur tekist að byggja upp gott velferðarkerfi sem við getum verið stolt af. Markmiðið er að öllum sé tryggð velferð og mannsæmandi afkoma án þess að vera kominn upp á góðsemi eða ölmusu. Því miður er veruleikinn ekki í fullu samræmi við markmiðin. Það þekkja þeir sem standa að Mæðrastyrksnefnd og starfa fyrir hana manna best. Árlega leitar fjöldi fólks til nefndarinnar í nauðum vegna þess að endar ná ekki saman. Lengi var stærsti hópurinn einstæðar mæður en seinni ár hafa bæst við karlmenn, bæði einstæðir og með forsjá barna og eins hefur Mæðrastyrksnefnd bent á að áberandi sé hve öryrkjum og eldri borgurum hefur fjölgað í hópi þeirra sem leita aðstoðar hjá henni.

Við megum ekki missa sjónar á markmiðum velferðarkerfisins og við verðum að tryggja framgang þeirra. Það gengur ekki að velmegun okkar Íslendinga snúist upp í græðgi og ábyrgðarleysi þannig að þeir sitji hjá slyppir og snauðir sem vegna aðstæðna sinna geta ekki tekið fullan þátt í lífsgæðakapphlaupinu. Ég vil styrkja stoðir velferðarkerfisins og veit að Mæðrastyrksnefnd og þau félög sem að henni standa eru reiðubúin að leggja þar gott til málanna eins og ævinlega.“

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarp ráðherra við móttöku vegna 80 ára afmælis Mæðrastyrksnefndar



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum