Hoppa yfir valmynd
26. maí 2008 Matvælaráðuneytið

Nr. 19/2008 - 13. fundur sjávarútvegsráðherra við Norður-Atlantshafið

Fundur sjávarútvegsráðherra Norður-Atlandshafsins
Fundur_sjavarutvegsradherra_Nordur-Atlantshafsins

Fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

Nr. 19/2008

13. fundur sjávarútvegsráðherra við Norður-Atlantshafið

Á árlegum fundi sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsins, sem haldinn var á Möltu 22.-24. maí, var fagnað þeim árangri sem náðst hefur í baráttunni gegn ólöglegum- og óábyrgum fiskveiðum. Hinsvegar sé ljóst að grípa þurfi til enn frekari og víðtækari aðgerða í baráttunni sem ekki sé lokið.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra tók þátt í fundinum og auk Íslendinga sóttu fundinn, Norðmenn, Grænlendingar, Færeyingar Kanadamenn, Rússar og fulltrúar Evrópusambandsins sem jafnframt buðu til fundarins í ár en framkvæmdastjóri sjávarútvegs – og hafmála hjá Evrópusambandinu, Joe Borg, kemur frá Möltu.

Aðalefni fundarins voru aðgerðir gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum. Það sem af er árinu hefur ekki orðið vart við veiðar sjóræningjaskipa á Reykjaneshrygg en það er annað árið í röð sem þeirra hefur ekki orðið vart. Veiðar þessara skipa hafa verið viðvarandi vandamál undanfarin ár en veiði þeirra var metin umtalsverð, eða á bilinu 15 – 20 þúsund tonn á ári.

Aðgerðir sem gripið hefur verið til, einkum á vettvangi svæðabundinna fiskveiðistjórnunarstofnana NEAFC (Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndin) og NAFO (Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunin), hafa þannig skilað umtalsverðum árangri. Fela þær m.a. í sér að banna skipum sem stundað hafa ólöglegar veiðar að koma til hafnar aðildarríkjanna auk þess sem eftirlit með löndun afla hefur verið hert. Mikilsvert er að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur með áframhaldandi samvinnu og árvekni. Þá kom fram á fundinum að umferð og athafnir sjóræningjaskipa hafi mögulega að nokkru leiti færst til annarra hafsvæða, einkum við Afríku og í Asíu. Þess vegna sé brýnt að horfa til vandans í enn víðari samhengi og mikilvægt að efla samstarf og samvinnu við önnur ríki einkum í Afríku og Asíu.

Sjávarútvegsráðherra Íslands lagði sérstaka áherslu á að á vettvangi Fiskimálanefndar FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnunar S.Þ.) verði áfram unnið við að meta og þróa viðmið til að leggja dóm á hvernig ríki framfylgja skyldum sínum gagnvart skipum sem sigla undir fána þeirra. Uppfylli fánaríki ekki þessi viðmið verði hugsanlega heimilt að grípa til aðgerða gegn viðkomandi skipum á úthafinu. Fundurinn samþykkti að ríkin beiti sér fyrir að þessi mikilvæga vinna haldi áfram.

Einnig lýsti fundurinn yfir mikilvægi þess að samkomulag náist í næsta mánuði um samræmdar alþjóðlegar hafnríkisreglur sem unnið er að á vettvangi FAO. Lúta reglurnar að samræmdum alþjóðlegum hafnríkisreglum, sem miða m.a. að því að koma í veg fyrir löndun afla af ólöglegum uppruna.

Sjávarútvegsráðherra Íslands lagði ríka áherslu á að til að sporna enn frekar við ólöglegum veiðum og viðskiptum með ólöglegan afla, vinni ríkin sérstaklega að því að þeirra eigin skip fari í einu og öllu eftir settum reglum um veiðar og tilkynningar um afla hvort sem er innan lögögu eða á úthafinu.

Jafnframt voru ráðherrarnir sammála um að leitað verði frekari leiða til að sporna við viðskiptum með afla af ólöglegum uppruna, en mikilsvert sé að þær leiðir sem farnar verði í þeim efnum torveldi ekki viðskipti með löglega veiddan afla.

Að lokum var annars vegar rætt stuttlega um loftlagsbreytingar og mögulegar afleiðingar þeirra á vistkerfi hafsins og fiskveiðar í Norður-Atlantshafi. Hins vegar var rætt um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins og var í þeim efnum sérstaklega rætt um stækkandi selastofna og áhrif þeirra á fiskistofna.

Ályktun fundarins á ensku má sjá hér.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu

26. maí 2008

Fundur sjávarútvegsráðherra Norður-Atlandshafsins

Á myndinni eru:
Loyola Hearn, sjávarútvegs- og hafráðherra Kanada, Tórbjörn Jacobsen, sjávarútvegs- og landbúnaðrráðherra Færeyja, Einar Kristinn Guðfinnson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Helga Petersen, sjávarútvegsráðherra Noregs, Joe Borg framkvæmdastjóri sjávarútvegs- og hafmála ESB, Alexander Okahanov fulltrúi Rússlands og Finn Karlsen, sjávarútvegsráðherra Grænlands.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum