Hoppa yfir valmynd
2. júní 2008 Matvælaráðuneytið

Nr. 20/2008 - Sjómannadagurinn í 70 ár

123 Fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

Nr. 20/2008

Sjómannadagur í 70 ár

Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flutti hátíðarræðu við setningu hátíðahalda sjómannadagsins í Reykjavík í Hafnarhúsinu í dag.

Ráðherra fjallaði m.a. um ákvörðun sína í fyrra að skerða þorskaflaheimildir um þriðjung og skyldu okkar til að skila takmarkaðri auðlindinni í viðunandi horfi til komandi kynslóða. Enginn geri lítið úr alvarlegum afleiðingum niðurskurðarins. Störfum fækki og tekjur fólks lækki. Fyrirtæki þurfi að breyta rekstri sínum og takast á við sömu skuldir með minni aflaheimildir til að vinna úr. „En enn sem fyrr sýndu stjórnendur og annað starfsfólk í sjávarútvegi þá ótrúlegu útsjónarsemi sem hefur verið aðalsmerki þessarar atvinnugreinar. Menn hafa fundið leiðir til að búa til meiri tekjur úr minni heimildum, m.a. með hjálp þeirrar stórkostlegu tækni sem einkennir fiskvinnslu og fiskveiðar okkar. Hækkun afurðaverðs í þorski og lækkun gengis íslensku krónunnar hefur vegið á móti þeirri tekjuminnkun sem þorksaflaskerðingin hefur valdið atvinnugreininni og gert mönnum auðveldara en ella, að sigla í gegn um þennan mikla brimskafl. Á erlendum mörkuðum er þessi ákvörðun tekin til marks um að við Íslendingar séum sú ábyrga auðlindanýtingarþjóð sem orð hefur farið af. Enginn vafi er á því að þetta hefur skilað okkur árangri í markaðsstarfi og á sinn þátt í því að tryggja orðstí okkar um komandi ár.“

Ráðherra minnti á að í fyrra hafi verið tekin ákvörðun um veiðireglu í þorski sem fylgt verði á næsta fiskveiðiári. Miðað verði við 20% veiðihlutfall af viðmiðunarstofni auk sveiflujöfnunar, en jafnframt að aflamark í þorski verði þó aldrei lægra á komandi fiskveiðiári en 130 þúsund tonn. „Þannig var stefnan mörkuð í fyrra til lengri tíma. Það er í samræmi við óskir manna í sjávarútvegi, sem kallað hafa eftir því að dregið yrði úr óvissu og menn vissu sem mest og best um leikreglurnar sem ynnið yrði eftir á komandi árum.“

Um viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sagði Einar Kristinn: „Þegar þessi mál eru rædd er afar mikilvægt að undirstrika að sjávarútvegur okkar er undirstöðuatvinnugrein sem verður að lúta sömu hagræðingarkröfum og aðrar atvinnugreinar. Ella verður hann einfaldlega undir og laðar ekki til sín það fólk sem hann þarf á að halda. Víða um heim má einmitt sjá dæmi um sjávarútveg sem orðið hefur þeim örlögum að bráð. Sjávarútveg sem ekki hefur verið álitin alvöru atvinnugrein og er því ekki áhugaverður sem vettvangur lífsstarfs.

Við þurfum að tryggja að okkar sjávarútvegur verði alltaf eftirsóttur starfsvettvangur, hvort sem er til sjós eða lands. Þar þurfum við á okkar besta fólki að halda. Slíkt mun hins vegar ekki verða, ætli menn að sækja fyrirmyndir að skipulagi hans til landa sem glutrað hafa niður sóknarfærum á þessu sviði. Við eigum eingöngu að horfa til þeirra landa sem hafa náð bestum árangri í leit að fyrirmyndum. Við getum ekki leyft okkur neitt annað en að keppa að því að vera alltaf í fremstu röð.

Því miður er alltof oft horft framhjá þessum þætti málsins, þegar málefni sjávarútvegsins eru rædd. Við getum aldrei liðið það að sjávarútvegurinn okkar verði fátæktariðnaður, sem menn hafa ekki áhuga á að stunda. Slík dæmi þekkjum við hins vegar víða um lönd og álfur, þar sem auðlindanýtingin hefur orðið skammtímahugsuninni að bráð eða þar sem sóknin í sjávarfangið hefur ekki lotið almennu skipulagi sem stuðlað hefur að hámarksafrakstri. Það eru víti til að varast.“

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu

1. júní 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum