Hoppa yfir valmynd
2. júní 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skýrsla starfshóps um heildarstefnumótun skattlagningar eldsneytis og ökutækja

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 9/2008

Starfshópur fjármálaráðherra hefur skilað af sér skýrslu um heildarstefnumótun skattlagningar eldsneytis og ökutækja.

Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis og umhverfisráðuneytis og átti starfshópurinn samráðsfundi við 29 hagsmunaaðila. Í skipunarbréfi starfshópsins kemur fram að starfshópurinn eigi að gera tillögur um samræmda skattlagningu ökutækja og eldsneytis sem hafi þau markmið að leiðarljósi að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda, aukinnar notkunar innlendra orkugjafa, fjármagna uppbyggingu og viðhald vegakerfisins og þjóna áfram sem almenn tekjuöflun fyrir ríkissjóð.

Í skýrslu starfshópsins er velt upp mismunandi valkostum og lagðar fram tillögur sem miða að því að reyna að ná fram þessum markmiðum. Eru tillögur starfshópsins hugsaðar sem grunnur fyrir frekari ákvarðanatöku, þannig að á grunni þeirra verði unnt að vinna frumvörp til laga. Bent er á að ýmsar tímabundnar undanþágur fyrir vistvæn ökutæki og orkugjafa renna út um næstu áramót.

Hugmyndir starfshópsins eru unnar út frá fjórum núgildandi stoðum í skattlagningu ökutækja og eldsneytis, en það eru stofngjald (vörugjald af ökutækjum), árgjald (bifreiðagjald), eldsneytisgjald (vörugjöld af eldsneyti og olíugjald) og notkunargjald (kílómetragjald). Ný og samræmd skattlagning ökutækja og eldsneytis nær til allra þessara þátta.

Ísland er með hæstu skráða CO2 meðaltalslosun fólksbíla af öllum löndum á hinu evrópska efnahagssvæði og þrátt fyrir að meðaltalslosunin hafi lækkað á síðustu árum hefur heildarlosun aukist. Að óbreyttu er Ísland langt frá að geta uppfyllt þau langtímamarkmið sem sett hafa verið um losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Til að bregðast við þessari þróun ber að mati starfshópsins að grípa til ráðstafana sem eru í samræmi við alvarleika málsins.

Að mati starfshópsins nást markmið starfshópsins best fram á samræmdan og einfaldan hátt með því að tengja skattlagningu í öllum framangreindum flokkum við losun á koltvísýringi (CO2). Er það í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað á síðustu árum meðal nágrannaþjóða okkar. Samræmd skattlagning í þá veru felur í sér upptöku losunargjalda á ökutæki, í stað vörugjalds og bifreiðagjalds, og upptöku kolefnisskatts á jarðefnaeldsneyti. Samantekið eru tillögur starfshópsins eftirfarandi:

Stofngjald
Í stað vörugjalda á ökutæki komi losunargjald sem miðist við skráða CO2 losun í grömmum á hvern ekinn kílómeter. Er losunargjaldið lagt á í bilum eftir því hver skráð losun CO2 af viðkomandi ökutæki er. Endanleg uppstilling og útfærsla gjaldsins er háð ákvörðun um hverjar tekjur ríkissjóðs eigi að vera af þessum tekjuþætti og hvernig heildarsamspili skattlagningar ökutækja og eldsneytis er stillt upp. Í tillögu starfshópsins er gjaldinu þannig stillt upp að meðalfólksbíll, með meðallosun CO2, komi svipað eða betur út úr hinu nýja kerfi. Ökutæki sem losa minna af CO2 koma hins vegar betur út úr kerfisbreytingunni en ökutæki sem losa meira koma verr út. Samkvæmt tillögu starfshópsins verða undanþágur frá vörugjaldi af ökutækjum, sem í dag eru 35, einfaldaðar og þeim fækkað. Áætlað tekjutap ríkissjóðs við þessa tillögu er um 1.200 m.kr.

Árgjald
Bifreiðagjald verði lagt á á grundvelli skráðrar CO2 losunar ökutækis í stað þyngdar. Sömu forsendur og sjónarmið eiga hér við, varðandi uppstillingu og útfærslu gjaldsins, og um ofangreint losunargjald. Áætlað tekjutap ríkissjóðs við þessa tillögu er um 500 m.kr.

Kolefnisskattur á eldsneyti
Nýr skattur, kolefnisskattur, verði lagður á jarðefnaeldsneyti og miðast hann við markaðsverð fyrir losun á tonn af CO2. Tillögur starfshópsins miða að því að heildarskatttekjur ríkissjóðs verði því sem næst óbreyttar við kerfisbreytinguna og var því miðað við að tekjur af kolefnisskatti verði nálægt 1.700 m.kr. Þar sem markaðsverð fyrir losun á tonni af CO2 er í evrum hefur styrking evrunnar á síðustu vikum haft í för með sér að í skýrslunni, eins og hún er í dag, eru áætlaðar tekjur ríkisins af kolefnisskattinum meiri en 1.700 m.kr. miðað við þær forsendur. Lagt er til að kolefnisskatturinn verði lagður á allt jarðefnaeldsneyti að undanskildu eldsneyti á flugvélar og skip og kemur því einhver tekjuauki vegna sölu á litaðri dísilolíu til viðbótar.

Notkunargjald
Kílómetragjald á ökutæki yfir 10 tonn verði óbreytt en verði innheimt með GPS tækni um leið og sú tækni er orðinn áreiðanlegur grundvöllur skattheimtu.

Í heild gera tillögur starfshópsins ráð fyrir tekjutilfærslu í skattlagningu af ökutækjum yfir á eldsneyti. Í tillögum starfshópsins er gengið út frá því að heildarskatttekjur ríkissjóðs verði því sem næst óbreyttar við kerfisbreytinguna.

Tillögur starfshópsins eru í samræmi við þau markmið sem starfshópnum voru sett og er um samræmda og einfalda skattlagningu að ræða, eftir því sem kostur er á með hliðsjón af þeim fjölmörgu frávikum sem innbyggð eru í dag í skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Samkvæmt tillögunum er grunnur skattlagningarinnar með sameiginlega þræði heilt í gegnum skattkerfið, ólíkt því sem verið hefur. Að auki gera tillögurnar ekki upp á milli ólíkra tæknilausna varðandi vistvæn ökutæki eða vistvæna orkugjafa. Starfshópurinn mælir með því að í síðasta lagi að fimm árum liðnum verði endurskoðað hvernig til hafi tekist við að ná fram umræddum markmiðum og skattlagningin stillt af á nýjan leik miðað við sett markmið.

Reykjavík 2. júní 2008

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum