Hoppa yfir valmynd
6. júní 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðstoð við þolendur náttúruhamfara

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, setti í dag að tillögu stjórnar Íbúðalánasjóðs reglur til að aðstoða þolendur náttúruhamfara með frestun eða skuldbreytingu á lánum sjóðsins.

Reglurnar eru settar í kjölfar Suðurlandsskjálftans til að styðja við bakið á þeim sem urðu fyrir tjóni af völdum hans og koma í veg fyrir greiðsluerfiðleika þeirra. Skilyrði fyrir heimildinni er að tjón á íbúð viðkomandi af völdum náttúruhamfara hafi verið tilkynnt til vátryggjanda eða Viðlagatryggingar Íslands.

Umsóknir skulu sendar Íbúðalánasjóði sem tekur ákvörðun um fyrirgreiðslu á grundvelli reglugerðarinnar og afgreiðir umsóknir. Með umsókn skal fylgja staðfesting frá vátryggingafélagi eða viðlagatryggingu um að tjón umsækjanda á íbúð hans hafi verið tilkynnt.

Íbúðalánasjóður veitir þeim sem ráðast í viðgerðir eða endurbyggingu íbúðarhúsnæðis heimild til að fá tryggingarfé til ráðstöfunar gegn bankaábyrgð fyrir fjárhæð áhvílandi lána sjóðsins meðan á viðgerð eða endurbyggingu stendur.

Jafnframt getur Íbúðalánasjóður heimilað eigendum íbúða sem hafa skemmst að flytja lán sjóðsins yfir á aðra íbúð í sinni eigu samkvæmt reglum sjóðsins um lánveitingar.

Um aðstoð vegna náttúruhamfara að öðru leyti en kveðið er á um í reglum þessum gilda ákvæði reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, eftir því sem við getur átt.

Nánari upplýsingar eru veittar hjá Íbúðalánasjóði kl. 8–16.00 virka daga í síma 569 6900.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum