Hoppa yfir valmynd
20. júní 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðgerðum á húsnæðismarkaði hrint í framkvæmd

Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra setti í dag þrjár reglugerðir á grundvelli laga um húsnæðismál sem fela í sér framkvæmd á hluta þeirra aðgerða á húsnæðismarkaði sem ríkisstjórnin kynnti í gær. Hámarkslán Íbúðalánasjóðs hækka úr 18 milljónum í 20 milljónir króna. Þá er brunabótamat afnumið sem viðmið fyrir lánveitingum Íbúðalánasjóðs en þess í stað verður miðað við allt að 80% af kaupverði eigna. Reglugerðirnar taka gildi á morgun 21. júní.

Með setningu reglugerðar um breytingu á reglugerð um lánshlutfall og fjárhæð ÍLS-veðbréfa nr. 540/2006 eru hámarkslán Íbúðalánasjóðs hækkuð úr 18 milljónum króna í 20 milljónir.

Með setningu reglugerða um breytingu á reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf nr. 522/2004 og breytingu á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs nr. 458/1999 er brunabótamatsviðmið lánveitinga Íbúðalánasjóðs afnumið en þess í stað verður miðað við allt að 80% af kaupverði eigna. Þessi breyting miðar ekki síst að því að auðvelda fólki kaup á minni eignum, einkum á höfuðborgarsvæðinu þar sem brunabótamat er oft á tíðum um 50% af markaðsverði eigna og því erfitt að fjármagna kaup á litlum íbúðum með lánum frá Íbúðalánasjóði.

Reglugerðirnar taka gildi á morgun, 21. júní og munu breytingarnar einnig ná til umsókna sem nú liggja fyrir hjá Íbúðalánasjóði en hafa ekki verið afgreiddar fyrir gildistöku reglugerðanna.

Skjal fyrir Acrobat ReaderReglugerð um breytingu á reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004

http://www.ibudalanasjodur.is/Uploads/document/Regluger%C3%B0ir/B_nr_574_2008_522_2004.pdf

Skjal fyrir Acrobat ReaderReglugerð um breytingu á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs, nr. 458/1999

http://www.ibudalanasjodur.is/Uploads/document/Regluger%C3%B0ir/B_nr_576_2008.pdf

Skjal fyrir Acrobat ReaderReglugerð um breytingu á reglugerð um lánshlutfall og fjárhæð ÍLS-veðbréfa, nr. 540/2006

http://www.ibudalanasjodur.is/Uploads/document/Regluger%C3%B0ir/B_nr_575_2008_540_2006.pdf



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum