Hoppa yfir valmynd
27. júní 2008 Innviðaráðuneytið

Leggur til breytta skipan stofnana samgöngumála

Ríkisendurskoun leggur til í stjórnsýsluúttekt á samgönguframkvæmdum að skipan stofnana samgöngumála verði breytt. Lagt er til að settar verði á fót þrjár stofnanir, ein á sviði stjórnsýslu, önnur verði framkvæmdastofnun og sú þriðja ríkisfyrirtæki á sviði.samgöngumála.

Kristján L. Möller samgönguráðherra óskaði í fyrrasumar eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Vegagerðinni og Siglingastofnun Íslands. Samgönguráðherra segir skýrslu Ríkisendurskoðunar viðamikla og næsta skref sé að meta niðurstöður hennar og tillögur. Segir hann tillögur um breytta skipan áhugaverðar og að slíkar hugmyndir hafi verið til umræðu innan ráðuneytisins.

Markmið úttektarinnar var að svara eftirfarandi spurningum:

  1. Stuðla skipulag og stjórnun Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar að því að þessar stofnanir sinni verkefnum sínum með skilvirkum og árangursríkum hætti?
  1. Stuðla aðferðir og vinnubrögð þessara stofnana að hagkvæmum og árangursríkum framkvæmdum?
  1. Er líklegt að auka megi hagkvæmni og árangur framkvæmda í samgöngumálum með breyttu skipulagi og verkaskiptingu milli stjórnsýslueininga?

Meginniðurstöður Ríkisendurskoðunar eru þær að skipurit Vegagerðarinnar sé í grundvallaratriðum rökrétt þótt dæmi séu um að skipulag á svæðum sé óþarflega flókið og boðleiðir langar. Rekstur hafi að jafnaði verið innan fjárheimilda með undantekningu á endurbótum á ferju sem farið hafi verið út í án skýrra fjárheimilda. Lögð hafi verið áhersla á uppbyggingu gæðakerfis en innleiðing þess gengið hægar fyrir sig en æskilegt væri.

Þá segir að skipurit Siglingastofnunar sé skýrt og fyllilega sé unnið eftir því. Rekstur hafi verið innan fjárheimilda undanfarin ár og kostnaðarþróun í samræmi við þróun verkefna og starfsmannafjölda. Framtíðarsýn og meginmarkmið séu skýr og hluti starfseminnar sé gæðavottaður. Finna megi að því að ekki sé unnið nógu mikið með niðurstöður eftirlits Siglingastofnunar með einkareknum skoðunarstofum og talið brýnt að bæta úr því.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir að samgönguáætlun sé breytt of mikið og of ört og komi það niður á markvissum undirbúningi framkvæmda. Segir að ekki sé haldið nægjanlega vel utan um kostnaðaráætlanir á öllum undirbúningsstigum vegaframkvæmda, frá skilgreiningu til verkhönnunar. Einnig sé hlutfall þeirra verka, þar sem heildarverktakakostnaður sé hærri en upphaflega hafi verið samið um, nokkuð hátt. Við hafnarframkvæmdir sé frávik kostnaðar frá áætlunum að jafnaði innan eðlilegra marka og sama máli gegni um flugvallarframkvæmdir.

Tillögur Ríkisendurskoðunar um breytta skipan stofnana á sviði samgangna eru eftirfarandi:

Stjórnsýslustofnun á sviði samgöngumála verði falið að annast alla stjórnsýslu. Taki hún við stjórnsýsluverkefnum Vegagerðar og Siglingastofnunar auk verkefna Flugmálastjórnar og Umferðarstofu.

Framkvæmdastofnun á sviði samgöngumála annist allar framkvæmdir, meðal annars að móta og undirbúa samgönguáætlun og sjá um framkvæmd hennar eftir samþykkt hennar á Alþingi. Stofnunin taki við verkefnum frá Siglingastofnun, Vegagerðinni, Flugstoðum og samgönguráðuneyti.

Ríkisfyrirtæki á sviði samgöngumála verði falinn rekstur og viðhald samgöngumannvirkja og búnaði sem þeim tengist svo sem vita og upplýsingakerfa sem stýri umferð flugvéla og skipa. Taki fyrirtækið við verkefnum frá Siglingastofnun, Vegagerðinni og Flugstoðum.

Skýrsluna er að finna á vef Ríkisendurskoðunar (PDF).

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum