Hoppa yfir valmynd
30. júní 2008 Matvælaráðuneytið

Nr. 22/2008 - sumarfundur matvælaráðherra Norðurlandanna

matvælaraðhr norðurlandanna 2008
matvælaraðhr norðurlandanna 2008

Fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

Nr. 22/2008

 

Sumarfundur matvælaráðherra Norðurlandanna

 

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sótti í síðustu viku sumarfund matvælaráðherra Norðurlandanna sem lauk í Växjö í Svíþjóð á föstudag. Þar var m.a. rætt um rekjanleika og umhverfismerkingar á afurðum sem unnar eru úr fiski sem veiddur er á sjálfbæran hátt. Miklar umræður hafa átt sér stað í Svíþjóð þar sem náttúrverndarsamtök hafa gefið út bæklinga þar sem lagst er gegn kaupum á þorski. Í framhaldi af þessu hafa veitingahús og opinber mötuneyti hætt kaupum á þorskafurðum þó að stór hluti þeirra sé unnin úr fiski sem veiddur er úr stofnum sem nýttir eru á sjálfbæran hátt. Einnig var rætt um umhverfismerkingar og þá staðreynd að þær geta verið misáreiðanlegar.

 

Ráðherrarnir voru sammála um rétt neytenda til að geta treyst því að fiskafurðir sem þeir kaupa séu unnar úr stofnum sem nýttir eru á sjálfbæran hátt og hvöttu til merkinga og rekjanleika í þessum efnum. Í því sambandi nefndi Einar K. Guðfinnsson þá vinnu sem fer fram á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar S.þ. vegna umhverfismerkinga og Norðurlandaþjóðirnar hafa verið virkir þátttakendur í.  Áframhaldandi vinna á þessu sviði sé mjög mikilvæg fyrir þær þjóðir sem byggja afkomu sína á útflutningi fiskafurða. Ráðherra benti einnig á að því fylgdi mikil ábyrgð þegar náttúruverndarsamtök hvettu kaupendur til að sniðganga fisktegundir á grunni ófullnægjandi upplýsinga. Gera verði skýran greinarmun á mismunandi stofnum og stjórnunarráðstöfunum á hinum ýmsu hafsvæðum.

 

Þá var lögð fram yfirlýsing af hálfu ráðherrana um sjálfbæra nýtingu sela, þar sem lýst var áhyggjum af fyrirhuguðu banni Evrópusambandsins við viðskiptum með selskinn og hvatt til að Evrópusambandið gætti jafnvægis í verndun og nýtingu selastofna.

 

Einnig var töluvert rætt um áhrif loftslagsbreytinga á frumframleiðslugreinarnar og matvælaframleiðslu á Norðurlöndum.

 

Á vef Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar, norden.org, má finna allar samþykktir og ályktanir sem gerðar voru á fundinum í Växjö. Næsti sumarfundur matvælaráðherra Norðurlandanna verður haldinn á Ísafirði að ári.

 

matvælaraðhr norðurlandanna 2008

Björt Samuelsen umhverfisráðherra Færeyja, Lars Peder Brekk landbúnaðarráðherra Noregs, Halldór Ásgrímsson framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, Thórbjörn Jacobsen sjávarútvegsráðherra Færeyja, Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sirkka-Liisa Anttila landbúnaðarráðherra Finnlands, Eskil Erlandsson landbúnaðarráðherra Svíþjóðar, Eva Kjer Hansen matvælaráðherra Danmerkur, Jörgen S. Söndergaard fulltrúi landstjórnar Grænlands og Jan-Erik Mattsson fulltrúi Álandseyja.

 

Reykjavík

29. júní 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum