Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2008 Matvælaráðuneytið

Nr. 24/2008 - Stjórnunarráðstafanir um botnfiskveiðar til verndunar viðkvæmra vistkerfa hafsins samþykktar á vettvangi Norðaustur Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC).


Fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

Nr. 24/2008

Stjórnunarráðstafanir um botnfiskveiðar til verndunar viðkvæmra vistkerfa hafsins samþykktar á vettvangi Norðaustur Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC).

 

Á aukaaðalfundi Norðaustur Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC), sem fram fór í Lundúnum dagana 1.-2. júlí sl., náðist samkomulag um stjórnunarráðstafanir um botnfiskveiðar. Stjórnunarráðstöfunum er ætlað að styðja við frekari verndun viðkvæmra vistkerfa á úthafinu á samningssvæði NEAFC og taka þær gildi 1. janúar 2009. Þá er með stjórnunarráðstöfunum komið að fullu til móts við ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna (UNGA 61/105) sem tekur til verndunar viðkvæmra vistkerfa hafsins á úthafinu.

Hinar nýju stjórnunarráðstafanir fela það meðal annars í sér að allar botnfiskveiðar sl. 20 ára á samningssvæði NEAFC verða kortlagðar. Þar sem botnfiskveiðar hafa ekki áður átt sér stað er einungis heimilt að stunda tilraunaveiðar sem fylgja ákveðnum skilyrðum s.s. um eftirlit og töku sýna. Á grunni þeirra upplýsinga sem fást við slíkar veiðar, á svæðum þar sem botnfiskveiðar hafa ekki verið stundaðar áður, er ákveðið hvort botnfiskveiðar á nýju veiðisvæði verða leyfðar eða bannaðar. Þá taka aðildarríkin á sig þá skyldu að skip þeirra stöðvi veiðar tafarlaust komi í ljós að veiðarnar raski viðkvæmum vistkerfum á hafsbotni.  

Sambærilegar stjórnunarráðstafanir hafa verið samþykktar á vettvangi NAFO, systurstofnun NEAFC, í Norðvestanverðu Atlantshafi. Þannig verða samsvarandi stjórnunarráðstafanir um botnfiskveiðar til verndunar viðkvæmra vistkerfa í gildi á öllu norðanverðu Atlantshafi frá og með 1. janúar 2009.

Þá var á fundinum samþykkt samstarfsyfirlýsing milli NEAFC og OSPAR (samningur um vernd Norðaustur Atlantshafsins). Hvor um sig hafa það að markmiði að stuðla að verndun Norðaustur Atlantshafsins, annars vegar á vettvangi fiskveiðistjórnunar og hins vegar gegn mengun hafsins. Samstarfsyfirlýsingunni er ætlað að efla og formfesta samstarf þessara aðila til framtíðar.  

 

 

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu,

3. júlí 2008

 

 

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum