Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 2/2009. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 23. janúar 2009

í máli nr. 2/2009:

Hf. Eimskipafélag Íslands

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi, dags. 9. janúar 2008, kærir Hf. Eimskipafélag Íslands ákvörðun Ríkiskaupa um val á samningsaðilum í útboði nr. 14585 – Flutningur á áfengi og tóbaki innanlands fyrir ÁTVR.

Kærandi krefst þess að:

1.      Kærunefnd útboðsmála úrskurði að stöðva skuli samningsgerð kærða við væntanlega samningsaðila þar til leyst hefur verið úr kæru þessari.

2.      Kærunefnd útboðsmála ógildi útboð nr. 14585 – Flutningur á áfengi og tóbaki innanlands fyrir ÁTVR, og leggi fyrir kærða að bjóða flutninginn út að nýju.

Kærandi áskilur sér jafnframt rétt til þess að koma að frekari kröfum síðar, þar á meðal að kærunefnd útboðsmála ógildi ákvörðun kærða um að ganga til samninga við væntanlega samningsaðila og að kærunefndin tjái sig um bótaskyldu kærða og grundvöll skaðabóta. Þá áskilur kærandi sér rétt til þess að krefjast áframhaldandi stöðvunar á samningsgerð þar til kærunefndin hefur skorið úr slíkum kærum.

Þá krefst kærandi að kærða verði gert að greiða kostnað kæranda við að hafa kæruna uppi að skaðlausu samkvæmt mati nefndarinnar eða framlögðu málskostnaðaryfirliti.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið. Endanlega verður leyst úr efnisatriðum kærunnar síðar.

I.

Kærði, fyrir hönd Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR), óskaði í september 2008 eftir tilboðum í flutning á áfengi, tóbaki og öðrum vörum innanlands, frá Reykjavík til vínbúða utan höfuðborgarsvæðisins. Áætlað var að flytja 8.770 tonn á ári og á 36 flutningaleiðum. Heimilt var að bjóða í einstaka leiðir. Tilboð voru opnuð 18. nóvember 2008.

Í ákvæði 1.2.3 í útboðslýsingu kom fram að við mat á tilboðum yrðu samningsaðilar metnir eftir ákveðnu stigakerfi. Flest stig gæfi verð eða 85 stig. Þannig fengi lægsta verð samkvæmt gildu tilboði hæstu einkunn. Þjónustugeta veitti síðan samtals 15 stig, sem skiptist í breidd í framboði umboðinna flutningaleiða (5 stig), tíðni ferða (5 stig) og vörumeðhöndlun (5 stig).

 

Kærandi skilaði inn tilboði í útboðið. Þegar tilboð voru opnuð kom í ljós að Tómas ehf. og Aflgröfur ehf. áttu hagstæðasta tilboðið í allar flutningsleiðirnar nema eina. Niðurstaða kærða um val á tilboðum var síðan tilkynnt bjóðendum með tölvupósti 31. desember 2008. Samkvæmt því hafði kærandi hlotið hæsta stigaskor í fimm tilvikum og því væntanlegur samningsaðili kærða. Þá höfðu Tómas ehf. og Aflgröfur ehf. fengið hæsta stigaskor á fjórum flutningaleiðum en aðrir bjóðendur á öðrum flutningaleiðum.

Telur kærandi að þar sem hagkvæmasta boðinu hafi ekki verið tekið hafi kærða borið skylda til þess að hafna öllum tilboðum í þær flutningsleiðir sem kærði kýs ekki að taka og bjóða þann hluta akstursins út að nýju.

II.

Fyrir kærunefnd útboðsmála liggur að taka afstöðu til kæru Tómasar ehf. og Aflgrafna ehf. vegna höfnunar kærða á tilboði þeirra. Með ákvörðun nefndarinnar nr. 1/2009 frá 23. janúar 2009 var ekki talið tilefni til að stöðva samningsgerð kærða í kjölfar ofangreinds útboðs þar til endanlega verður skorið úr kærunni.

Eins og mál þetta er lagt fyrir nefndina verður úrlausn þess nátengd niðurstöðu fyrrgreinds máls um kæru Tómasar ehf. og Aflgrafna ehf. Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup getur kærunefnd útboðsmála stöðvað innkaupaferli þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru telji nefndin að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum. Kærunefnd útboðsmála hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu næg efni til að stöðva samningsgerð í því máli. Að því virtu og miðað við fyrirliggjandi gögn í máli þessu virðast ekki verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup við mat á tilboðum og telur nefndin því ekki rétt að stöðva samningsgerð í kjölfar hins kærða útboðs þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru þessari, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007.

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu kæranda Hf. Eimskipafélags Íslands um að stöðva samningsgerð í kjölfar útboðs Ríkiskaupa nr. 14585 – Flutningur á áfengi og tóbaki innanlands fyrir ÁTVR.

                                                           

Reykjavík, 23. janúar 2009.

                                                Páll Sigurðsson

                                                Sigfús Jónsson

Stanley Pálsson

 

 

                                                              

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 23. janúar 2009.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn