Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 20/2008. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 9. febrúar 2009

í máli nr. 20/2008:

Logaland ehf.

gegn

Ríkiskaupum

          

Með ódagsettri kæru, sem móttekin var af kærunefnd útboðsmála hinn 27. nóvember 2008, kærði Logaland ehf. ákvörðun Ríkiskaupa „þess efnis að veita félaginu ekki upplýsingar um rétt/leiðrétt tilboðsverð samkeppnisaðila þess, Fastus ehf. [...] í útboði nr. 14451 á blóðflokkunarvélum fyrir Blóðbankann þegar þess var óskað“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„Af hálfu Logalands er gerð sú krafa að kærunefnd útboðsmála felli nefnda ákvörðun úr gildi og mæli svo fyrir að Ríkiskaup skuli afhenda Logalandi þegar í stað upplýsingar um rétt eða leiðrétt tilboðsverð samkeppnisaðila félagsins í nefndu útboði. Þá er þess krafist að kærunefndin ákveði að Ríkiskaup greiði Logalandi ehf. hæfilega fjárhæð vegna kostnaðar félagsins við að hafa kæruna uppi.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir vali á tilboði. Með bréfi, dags. 17. desember 2008, krafðist kærði þess að hafnað yrði kröfu kæranda og að kæranda yrði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð. Kærandi sendi athugasemdir við greinargerð kærða með ódagsettu bréfi sem móttekið var af kærunefnd útboðsmála hinn 9. janúar 2009.

 

I.

Í júní 2008 auglýsti kærði eftir tilboðum í blóðflokkunarvélar, handvirk tæki til blóðflokkunar og skimunar á blóðflokkunarmótefnum ásamt hvarfefnum. Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu og tilboð voru opnuð hinn 28. ágúst 2008. Þegar kærandi taldi sig hafa komist að raun um að villa væri í tilboði annars bjóðanda, Fastus ehf., sendi hann tölvupóst á kærða, dags. 20. október 2008, og óskaði eftir að verða sendar „réttar heildartilboðsfjárhæðir“. Með tölvupósti, dags. 22. október 2008, svaraði kærði erindi kæranda með eftirfarandi hætti:

„Því miður getum við ekki gefið upplýsingar um tilboð á meðan unnið er úr þeim. Verð sem samið er um verður tilkynnt þegar niðurstöður um val á tilboði liggja fyrir.“

Kærandi áréttaði erindi sitt með tölvupósti, dags. 24. október 2008. Með tölvupósti, dags. 30. október 2008, áréttaði kærði synjun um að veita frekari upplýsingar en veittar hefðu verið við opnun tilboða. Hinn 11. desember 2008 fengu allir bjóðendur, þ. á m. kærandi, afhent endurskoðuð tilboð.

 

II.

Kærandi telur að neitun kærða á að veita umbeðnar upplýsingar sé andstæð jafnræðis­reglu 14. gr. laga nr. 84/2007. Þá segir kærandi að rangar upplýsingar, sem lesnar séu upp við opnun tilboða geti haft úrslitaáhrif á afstöðu bjóðenda til samkeppnisstöðu sinnar og þar með á niðurstöðu útboðs.

 

III.

Kærði segir að ef honum bæri stöðugt að upplýsa um allar villur eða einstaka annmarka á tilboðum almennt legði það aukna skyldu á kaupendur á tilboðstíma og ekki yrði séð að slík kvöð ætti sér lagastoð. Kærði segir að þær upplýsingar sem veittar hafi verið á opnunarfundi tilboða hafi verið í samræmi við 69. gr. laga um opinber innkaup. Eftir opnun tilboða séu samskipti við bjóðendur takmörkuð og vísar kærði þar til 34.-50. gr. tilskipunar 18/2004/EB.

 

IV.

Í 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, segir að kæra skuli borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Af ummælum í athugasemdum við 94. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 84/2007 er ljóst að löggjafinn hefur ætlast til þess að kærufrestur verði túlkaður þröngt og upphaf hans miðað við fyrsta mögulega tímamark. Kærandi fékk vitneskju um þá ákvörðun sem hann taldi brjóta gegn rétti sínum með tölvupósti, dags. 22. október 2008. Þegar kæra barst kærunefnd útboðsmála 28. nóvember 2008 var fjögurra vikna kærufrestur liðinn. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa máli þessu frá kærunefnd útboðsmála.

Kærði hefur krafist þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað til ríkissjóðs. Samkvæmt seinni málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 getur kærunefnd útboðsmála úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað sem rennur í ríkissjóð ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa. Kærunefnd útboðsmála telur skilyrðum ákvæðisins ekki fullnægt og verður því að hafna kröfunni.

 

Úrskurðarorð:

Kæru Logalands ehf. er vísað frá kærunefnd útboðsmála.

 

Kröfu kærða, Ríkiskaupa, um að kærandi, Logaland ehf., greiði málskostnað í ríkissjóð, er hafnað.

 

 

                                                               Reykjavík, 9. febrúar 2009.

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Sigfús Jónsson

                                                               Stanley Pálsson

                                                              

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 9. febrúar 2009.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn