Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2009 Forsætisráðuneytið

Ræða forsætisráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands

Góðir ársfundargestir

Við komum hér saman á hefðbundnum ársfundi Seðlabanka Íslands á einum mestu umbrotatímum í efnahagsmálum íslensku þjóðarinnar frá upphafi. Uppsveiflan var öflug og sterk og margir hófu sig hátt á loft með henni en niðursveiflan sem henni fylgir varð þeim mun dýpri.

Já, uppsveiflan hreif marga með sér og niðursveiflan bitnar nú harkalega á almenningi í landinu. Hún bitnar á fólki sem hafði ekki aðstæður til þess að kynna sér þróun mála og átti sér einskis ills von. Niðursveiflan bitnar nú á fólki sem treysti og fólki sem trúði öðrum fyrir fjármunum sínum, eignum, sparnaði og lífeyri.

Þetta fólk situr nú eftir með sárt ennið og spyr hverjum sé um að kenna. Hver hefði getað varað við og hver hefði átt að vara við? Hver hefði átt að bregðast við, hvernig, hvenær og hve hratt? Þetta fólk spyr hverjum það geti treyst.

Ágætu ársfundargestir.

Traust er lykilorð, ekki einungis í þeim efnahagsþrengingum sem við göngum nú í gegnum og á fjármálamarkaði heldur á öllum sviðum samfélagsins og innan stjórnkerfisins. Traust er grundvöllur allra okkar samskipta og traust er grundvöllur heilbrigðs samfélags frá degi til dags.

Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur haft rúma tvo mánuði til að byggja hér upp traust og hefja endurreisn efnahagslífsins. Traust, sem nauðsynlegt var að byggja upp innanlands og í alþjóðasamfélaginu, og endurreisn efnhagslífsins sem er grundvöllur vinnu og velferðar og þar með framtíðar okkar allra. Endurunnið traust mun leggja grunn að sparnaði landsmanna, heilbrigðum fjármálamarkaði og hlutabréfamarkaði og atvinnuuppbyggingu hér á landi í framtíðinni.

Margt hefur gerst á þessum stutta tíma og jákvæð teikn eru á lofti. Verðbólgan er á hraðri niðurleið og vextir fara lækkandi, vöruskiptajöfnuður er hagstæður og atvinnuleysistölur nú í fyrsta sinn í langan tíma lægri en spár hafa gert ráð fyrir.

Verði rétt á málum haldið og stjórnin styrk og traust getum við Íslendingar orðið á meðal þeirra þjóða sem ná sér fyrst uppúr öldudal fjármálakreppunnar, en til þess að svo geti orðið verða stjórnvöld að halda fast um taumana. Okkur má ekki bera af leið þó á móti blási um stund.

Þegar í upphafi ársins 2010 er gert ráð fyrir að verðbólgan verði einungis 2,5% og við slíkar aðstæður ættu vextir að vera orðnir lægri en við höfum lengi séð. Það mun skipta sköpum fyrir heimilin í landinu og atvinnulífið, þessar mikilvægustu stoðir í samfélagi okkar.

Við ættum að fara að sjá fyrstu hagvaxtarsprotana og vonir um hratt minnkandi atvinnuleysi árið 2010. Til þess að við náum árangri í baráttunni gegn atvinnuleysinu þurfa þó allir að leggjast á eitt og vinna þarf af festu og áræðni eftir efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Góðir áheyrendur

Þrátt fyrir erfiða stöðu í efnahagsmálum þjóðarinnar og heimsins alls er mikilvægt að hafa í huga að þetta eru tímabundnir erfiðleikar sem íslenska þjóðin getur vel staðið af sér. Hrakspár um þjóðargjaldþrot eða afsal auðlinda þjóðarinnar eru tilefnislausar, verði haldið áfram á þeirri braut sem nú hefur verið mörkuð í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og vinaþjóðir Íslands.

Hið eina sem gæti komið okkur í slíka stöðu eru óábyrgar tillögur um að hægt sé að leysa vandann með því að hafna samstarfi við alþjóðasamfélagið og hlaupast á burt frá skuldbindingum okkar. Ef eithvað ógnar framtíð Íslands um þessar mundir eru það slík villuljós.

Þrátt fyrir að skuldir ríkissjóðs hafi aukist í kjölfar bankahrunsins verður stærstur hluti þeirra gagnvart innlendum aðilum í íslenskum krónum. Heildarskuldir ríkissjóðs verða líklega nærri 1.100 milljörðum í árslok 2009. Á móti þessum skuldum koma að sjálfsögðu verulegar eignir. Eignarhlutir ríkissjóðs í fyrirtækjum er metinn á 580 milljarða við árslok 2009. Auk þess mun ríkissjóður eiga um 355 milljarða í kröfum og handbæru fé.

Hrein staða ríkissjóðs verður því aðeins neikvæð um 150 milljarða við árslok 2009 ef áætlunin gengur eftir, sem er um 10% af landsframleiðslu. Vert að hafa í huga að brúttó skuldirnar verða háar vegna ICESAVE til skamms tíma og vaxtagreiðslur því háar. Hins vegar liggur nú fyrir, og gaman að geta sagt frá því hér í dag, að eignir Kaupþings eru nægilegar til þess að gera upp við þýska innistæðueigendur. Mikilvægum áfanga í uppgjöri og sátt gagnvart aþjóðasamfélaginu er þar með náð.

Ágætu ársfundargestir.

Sú efnahagsstefna sem íslensk stjórnvöld starfa eftir er skýr og aðgengileg og mótuð í nánu samstarfi við Alþjóðgjaldeyrissjóðinn og engin leynd hvílir yfir henni. Sú áætlun sem unnið er eftir er öll aðgengileg og á að vera það á hverjum tíma. Þar eru engin leyniákvæði sem varða auðlindir okkar eða hagsmuni að öðru leyti. Allt er uppi á borðinu og þannig á það að vera. Mikilvægir áfangar hafa náðst í efnahagsáætluninni á undanförnum vikum og enn frekari stór skref verða stigin á næstu vikum.

Mark Flanagan, sem tók við sem formaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart Íslandi eftir að ný ríkisstjórn tók við, sagði á ráðstefnu Íslensk –ameríska viðskiptaráðsins í New York að hann hefði hvergi í störfum sínum fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn mætt viðlíka fagmennsku eins og hjá stjórnvöldum á Íslandi. Þessi ummæli hljóta að vera okkur hvatning og árétting um að við séum á réttri braut.

Nauðsynleg skref hafa verið stigin með breytingum á Seðlabankanum, nýrri peningastefnunefnd og breytingum hjá Fjármálaeftirlitinu. Mikilvæg skref hafa verið stigin í endurskipulagningu bankakerfisins, m.a. með bættum samskiptum við erlenda kröfuhafa og upplýsingagjöf til nýju bankanna. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að ráða erlenda fjármálaráðgjafa til að starfa með sérfræðingum okkar hefur hraðað þessu verki verulega; sem brýna nauðsyn bar til.

Mikilvægum áfanga í endurreisn bankanna var náð í vikunni þegar lokið var bráðabirgðaverðmati á eignum sem fluttar voru út úr gömlu bönkunum til að mynda efnahag Nýja Kaupþings banka, Nýja Landsbankans og Íslandsbanka. Nú er unnið að lokafrágangi matsins og þess vænst að fullnaðarútgáfa þess liggi fyrir í næstu viku.

Niðurstöðurnar verða nýttar í viðræðum við erlenda kröfuhafa og við höfum ráðið sérstakan ráðgjafa, Hawkpoint, okkur til aðstoðar í því mikilvæga verkefni. Ég legg ríka áherslu á að samningar á milli ríkisins, sem eiganda nýju bankanna, og skilanefndanna, sem fulltrúa kröfuhafa, verði lokið sem allra fyrst.

Nú verður kappkostað að ljúka endurfjármögnun bankanna svo þeir geti einbeitt sér að því að styðja atvinnulífið í landinu og leggja sitt af mörkum í þeirri endurreisn sem hafin er. Jákvætt er að matið og yfirmatið muni liggja fyrir á þeim tíma sem reiknað hafði verið með. Í maímánuði verður unnið á fullri ferð við endurfjármögnun bankanna og búið svo um hnútana að þeir geti starfað með eðlilegum hætti. Ég vænti þess að þessu starfi verði lokið innan nokkurra vikna.

Ágæta samkoma

Án trausts fjármálakerfis getur hagkerfið ekki vaxið á ný og skapað atvinnutækifæri sem eru nauðsynleg til þess að viðhalda velferðarþjóðfélagi okkar. Við finnum öll hve mikilvægt er að það sé fyrir hendi við þær aðstæður sem við göngum nú í gegnum. Vinna og velferð verða að haldast í hendur og það er ríkisins að skapa heilbrigða umgjörð og jafnvægi til þess að þessir þættir vaxi og dafni.

Nauðsynlegt er að ákvarðanir um stefnu peningamála séu vandaðar og byggðar á yfirvegun og faglegum forsendum. Þær verða að grundvallast á kenningum hagfræðinnar, rannsóknum og reynslu og vera hafnar yfir allan vafa um hugsanlegan hagsmunaárekstur.

Það er einlæg trú mín að þær skipulagsbreytingar sem gerðar voru á Seðlabankanum í mars hafi verið bankanum til mikils framdráttar. Með styrkri og faglegri stjórn bankans og peningastefnunefnd skipaðri sérfræðingum er trúverðugleiki bankans tryggður; trúverðugleiki sem er forsenda þess að peningastefnan skili tilætluðum árangri og veiti þá kjölfestu sem hagkerfið þarf svo nauðsynlega á að halda. Fagmennskan er ekki síður mikilvæg og því grundvallaratriði að til verksins fáist okkar fremsta fólk og eftir atvikum leitað til erlendra sérfræðinga.

Þær vaxtalækkanir sem peningastefnunefndin hefur tekið hafa verið byggðar á framangreindum forsendum þótt ég hefði vissulega, eins og margir aðrir, viljað sjá þær örari og meiri en raun ber vitni. En hér verðum við stjórnmálamennirnir, aðilar vinnumarkaðarins og almenningur að treysta sérfræðingunum og sérfræðingarnir verða að fá svigrúm og njóta traust til þess að taka faglegar ákvarðanir með langtímahagsmuni okkar að leiðarljósi.

Góðir gestir

Við fórum of hratt upp og nú þurfum við að gæta að hverju skrefi. Óþolinmæði, áhættusækni og græðgi innan banka- og fjármálakerfisins réði of lengi för og menn hlustuðu ekki á varnaðarorð erlendra sérfræðinga. Nú verðum við að hlusta á trausta og reynda sérfræðinga, innanlands sem utan. Hver ákvörðun sem við tökum nú og hvert skref sem við stígum þarf að byggja á yfirveguðu mati þeirra sem best til þekkja.

Veiking krónunnar undanfarnar vikur hefur valdið mörgum áhyggjum. Á meðan fyrirtæki og almenningur eru með stærstan hluta skulda sinna í erlendri mynt eða verðryggðum lánum skiptir gríðarlega miklu máli að stöðugleiki náist á gjaldeyrismarkaði. Stöðugleiki næst ekki nema allir leggist á eitt og virði hagsmuni heildarinnar. Það er því ófyrirgefanlegt þegar fyrirtæki og einstaklingar fara á svig við þær reglur og þau gjaldeyrishöft sem við höfum neyðst til þess að setja varðandi viðskipti með gjaldeyri. Hér verðum við að treysta mati sérfræðinga á sama hátt og varðandi vaxtalækkunarferlið.

Forsenda þess að hægt sé að komast út úr gjaldeyrishöftunum er að auka tiltrú á hagkerfinu bæði erlendis og hér á landi. Væntingar um stöðugleika og skjótan viðsnúning hagkerfsins myndi flýta fyrir afnámi haftanna. Það er líka grundvallaratriði að farið sé eftir efnahagsáætluninni sem unnin er í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem fulltrúa alþjóðasamfélagsins. Í því sambandi myndi til dæmis skipta máli ákvörðun Íslendinga um að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Það er áhyggjuefni að háar fjárhæðir sem eru í eigu innlendra og erlendra aðila, til til að mynda í jöklabréfum, geti ógnað stöðugleika gjaldmiðils okkar. Mikilvægt er að þessu aðilum sé gefið tækifæri til þess að selja þessar eignir sínar og komast úr krónunni með skipulögðum og markvissum hætti. Hér leikur Seðlabankinn lykilhlutverk og ég er sannfærð að bankinn mun leysa þetta úrlausnarefni á næstunni í náinni samvinnu við sérfræðinga ráðuneytanna og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Það er neyðarúrræði að þurfa að þrengja reglur um gjaldeyrisviðskipti en það var nauðsynlegt og óumflýjanlegt. Skjót og fumlaus vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru þegar farin að skila árangri og nú eru hagfræðilegar forsendur fyrir styrkingu krónunnar. Þeir sem fara á svig við höftin eru þó aðeins að framlengja þau enn frekar og vinna gegn hagsmunum heimila og flestra fyrirtækja – einmitt þegar við þurfum að snúa saman bökum og hugsa um hagsmuni í víðari skilningi en gert hefur verið undanfarin ár.

Ágætu ársfundargestir.

Hér inni sitja margir sem sátu ársfund Seðlabanka Íslands fyrir ári síðan og hlýddu þá sem fyrr á ágætar ræður. Ræður þar sem fullyrt var að íslenskt bankakerfi og íslensk efnhagsmál stæðu traustum fótum þótt farið væri að blása. Ræður þar sem fjallað var um rógsherferðir og atlögu að íslenskum bönkum og íslenska ríkinu sem lyktaði óþægilega af því að “óprúttnir miðlarar” hafi ákveðið að gera úrslitatilraun til að brjóta niður íslenskt fjármálakerfi. Rætt var um að til álita hlyti að koma að gera alþjóðlega opinbera rannsókn á slíku “tilræði við heilbrigð fjármálakerfi”, eins og komist var að orði.

Þessi orð sem mælt voru fyrir ári síðan sýna hve mikilvægt það er að skella ekki skollaeyrum við röddum innlendra og erlendra sérfræðinga heldur hlusta á þá. Við hefðum betur hlustað og brugðist við. Þegar skýrsla finnska sérfræðingsins Kaarlo Jännäris, um reglur og eftirlit með fjármálafyrirtækjum, var afhent stjórnvöldum skipaði ég þegar starfshóp sem hefur yfirfarið hana. Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að hrinda þegar eftirfarandi tillögum sem fram komu í skýrslunni í framkvæmd.

Í fyrsta lagi verði þegar á vegum forsætisráðuneytisins undirbúnar tillögur um að sameina verkefni og eftir atvikum fækka þeim ráðuneytum sem hafa með löggjöf á sviði fjármálamarkaðar að gera.

Í öðru lagi verði sem fyrst eftir kosningar sett á fót nefnd sem kanni nánar kosti og galla þess að auka samstarf milli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins og eða sameina þessar tvær stofnanir. Í því starfi verði meðal annars metið hvernig megi stuðla að því að þessar stofnanir beiti eftirlitsheimildum sínum af fullum krafti. Þá verði því beint til viðskiptaráðherra að leggja sem allra fyrst fyrir ríkisstjórn frumvarp um breytingar á lögum um innistæðutryggingar, þar sem brugðist verði við afleiðingum bankahrunsins á stöðu núverandi sjóðs og þeim breytingum sem orðið hafa á regluumhverfi innistæðutrygginga í Evrópu fram til þessa. Jafnframt taki viðkomandi ráðuneyti virkan þátt í umræðum á Evrópuvísu um frekari endurskoðun innistæðutryggingakerfisins. Hér megum við engan tíma missa, hver vika og hver mánuður er mikilvægur. Hlutirnir gengu of hægt fyrstu mánuðina eftir hrunið en nú þurfum við að vinna hraðar og koma hlutunum í verk.

Ágætu ársfundargestir.

Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að eitt af forgangsverkefnum næstu ríkisstjórnar á að vera umsókn um aðild að Evrópusambandinu og upptaka Evru. Niðurstaða aðildarviðræðna mun leiða í ljós svart á hvítu þau tækifæri sem felast í aðild að Evrópusambandinu. Þá niðurstöðu eigum við óhrædd að leggja í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Innganga í Evrópusambandið og upptaka Evru væru að mínu mati mikilvæg skref í átt til aukins trúverðugleika og þess stöðugleika sem nauðsynlegur er fyrir arðbært atvinnulíf og enduruppbyggingu fjárhags heimilanna. Aðild að Evrópusambandinu væri á engan hátt lausn allra okkar vandamála heldur mikilvægt skref á þeirri vegferð sem við erum nú á. Evrópusambandsaðild myndi gefa stjórnvöldum aukið efnahagslegt aðhald og setja skýr markmið með Maastricht skilmálunum. Þessi áhrif komu bersýnilega í ljós á sænskum fjármálamarkaði eftir að Svíar ákváðu að ganga í Evrópusambandið.

Fyrir liggur að þjóðir sem ekki hafa tekið upp Evru, svo sem Danir, hafa notið aðstoðar Seðlabanka Evrópu og að bankinn hefur aðstoðað aðrar þjóðir svo sem Ungverja í þeirra erfiðu aðstæðum. Ég vil að samhliða aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði leitað samninga um hvort og þá hvernig Seðlabanki Evrópu gæti komið að því að halda hér gengi stöðugu til skemmri tíma, eða þar til unnt væri að taka upp Evru hér á landi. Í Evrópuskýrslunni sem kynnt var fyrr í dag eru kostir og gallar þessara leiða reifaðar. Ljóst er að hvers kyns samvinna við Seðlabanka Evrópu myndi auka trúverðugleika Seðlabanka íslands og gera honum auðveldara að ná fram markmiðum sínum um stöðugleika.

Ég vil lýsa sérstakri ánægju með það sem Seðlabankastjóri greindi frá í erindi sínu hér áðan, að fyrirhugað sé að hefja innan Seðlabankans skoðun á áhrifum evrópskrar efnahagssamvinnu og myntbandalags á efnhagsumhverfi okkar Íslendinga. Slík skoðun yrði mikilvægt innlegg inn í faglega umræðu um þessi mál.

Góðir áheyrendur

Upptaka evrunnar kemur í veg fyrir gjaldeyriskreppur sem alltaf er hætta á með minnsta fljótandi gjaldmiðil heims. Aukinn stöðugleiki ýtir undir fjárfestingar fyrirtækja og hagvöxt til framtíðar. Stöðugleikinn gerir einstaklingum einnig kleift að fjárfesta í sjálfum sér. Aðeins með auknum stöðugleika geta einstaklingar og fyrirtæki lagt grundvöll að framtíðaráformum og fylgt þeim eftir að festu og einurð. Aðeins með auknum stöðugleika getum við tryggt hagvöxt og hagsæld fyrir alla til framtíðar.

Sjálfstæði og styrkur þjóðarinnar er á engan hátt samofinn sjálfstæðum gjaldmiðli. Krónan tryggir ekki sjálfstæði okkar til framtíðar, heldur ofurselur okkur duttlungum alþjóðlegra fjármálamarkaða. Þetta eru kraftar sem við megum okkur lítils gegn þrátt fyrir að Seðlabankinn sé skipaður jafnhæfu fólki og raun ber vitni. Það er þó ljóst að við tökum ekki upp evruna á einni nóttu. Fram að þeim tíma þurfum við að veita krónunni þá bestu umgjörð sem möguleg er og var skipun peningastefnunefndarinnar mikilvægt skref á þeirri vegferð.

Ég tel jafnframt ljóst að við verðum að endurskoða peningastefnuna hér á landi í ljósi breyttra aðstæðna og þeirra efnahagsþrenginga sem við göngum nú í gegnum.

Það er vafalítið margt sem má betur fara, ekki síst í ljósi atburða undanfarinna mánuða. Ég hef því ákveðið að fela nýrri peningastefnunefnd Seðlabankans að fara yfir kosti og galla þess að breyta peningastefnunni og gera tillögu til stjórnvalda með hliðsjón af því mati. Jafnframt tel ég rétt að Seðlabankinn leggi mat á hvernig við getum stigið mikilvæg skref til þess að koma okkur út úr verðtryggingunni.

Eitt meginviðfangsefni stjórnvalda á næstu mánuðum og misserum er að endurheimta traust. Ég hef átt þess kost frá því að ég tók við embætti forsætisráðherra að ræða við forsætisráðherra margra vinaþjóða okkar. Ég finn fyrir miklum vilja þeirra til þess að vinna með Íslendingum að endurreisn og uppbyggingu. Afar mikilvægt er að okkur takist að leysa ICESAVE-málið og ná hagstæðum samningum við erlend ríki sem hyggjast veita okkur lánafyrirgreiðslu. Niðurstaðan hefur áhrif á skuldastöðu þjóðarbúsins og fólksins í landinu til frambúðar. Þetta er því eitt af stærstu viðfangsefnum okkar stjórnmálamanna, viðfangsefni sem því miður var áður of lengi frestað og ýtt á undan sér. Á því hefur orðið mikil breytingu, þessi mál hafa nú verið tekin markvissum og traustum tökum.

Ágætu ársfundargestir.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka frábæru starfsfólki Seðlabankans fyrir vel unnin störf við erfiðar aðstæður og á erfiðum tímum. Mikilvægt er að efnahagsstefna stjórnvalda sé framkvæmd í nánu samstarfi ráðuneyta og Seðlabanka og fyrir allra augliti. Þannig finnst mér að það hafi verið síðan nýr bankastjóri og aðstoðarbankastjóri komu að bankanum. Aukið samráð og samstarf ógnar á engan hátt sjálfstæði Seðlabanka en tryggir að allir leggist saman á árar í þeim ólgusjó sem við erum nú í.

Í næsta mánuði mun sérstök matsnefnd velja úr öflugum hópi umsækjenda um stöður seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra og afar mikilvægt er að vel takist þar til og að faglega verði að málum staðið. Frá því má ekki hvika. Það er grundvöllur trausts og það er grundvöllur þeirrar endurreisnar sem nú er hafin, grundvöllur alls þess sem á eftir fer.

Þakka ykkur fyrir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum