Hoppa yfir valmynd
14. maí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nýr valkostur fyrir stjórnendur í opinberum rekstri

Í gær undirrituðu Gunnar Helgi Kristinsson deildarforseti stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Magnús Guðmundsson formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana samráðs og samstarfssamning vegna nýrrar námsleiðar við stjórnmálafræðideild HÍ, Diplóma í opinberri stjórnsýslu fyrir stjórnendur í opinberum rekstri (Executive Diploma in Public Administration).

Nýr valkostur: Undirritun samnings

Efri röð frá vinstri: Gunnar Björnsson skrifstofustjóri, Gunnar Helgi Kristinsson
deildarforseti við HÍ, Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra
sveitarfélaga, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Magnús Guðmundsson
formaður Félags forstöðumanna og Guðmundur H. Guðmundsson sérfræðingur í
fjármálaráðuneytinu. Neðri röð: Margrét S. Björnsdóttir forstöðumaður Stofnunar
stjórnsýslufræða og stjórnmála, Anna Björnsdóttir frá Sambandi Íslenskra
sveitarfélaga, Ágústa H. Gústafsdóttir sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu og
Inga Rún Ólafsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Aðstæður í íslensku samfélagi hafa aukið kröfur til ríkis og sveitarfélaga um skilvirkni, bætta þjónustu með lægri tilkostnaði og vandaða málsmeðferð. Þetta gerir auknar kröfur til allra þeirra er þar starfa, ekki síst stjórnenda. Áhugi hefur verið á að auka möguleika núverandi og verðandi stjórnenda á fræðslu um stjórnun sem taki fullt tillit til starfsumhverfis stjórnenda í opinberum rekstri.

Náminu er ætlað að ýta undir forystu um skilvirkni, vandaðri vinnubrögð og betri þjónustu hins opinbera.

Námið verður hluti af meistaranámsframboði stjórnmálafræðideildar, lýtur þeim inntökuskilyrðum og námskröfum sem þar eru gerðar og endar með diplómaskírteini. Kjósi nemendur að halda áfram námi og ljúka meistaragráðu MPA, fá þeir diplómanámið að fullu metið. Væntanlegir nemendur greiða skráningargjald HÍ, sem fyrir veturinn 2009-2010 er kr. 45.000.-, auk bókakostnaðar.

Það er von þeirra sem að náminu standa, að þetta skref verði bæði stjórnendum hins opinbera og þeim er njóta þjónustu þeirra til heilla.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum