Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 1/2010. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 22. janúar 2010

í máli nr. 1/2010:

Celsus ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með kæru, dags. 31. desember 2009 sem barst 4. janúar 2010,  kærði Celsus ehf. ákvörðun Ríkiskaupa um val á tilboðum í útboðinu 14651: Plástrar, bindi, grisjur og fleira. Endanlegar kröfur kæranda eru orðaðar með eftirfarandi hætti:

 “Aðalkröfur:

1. Að innkaupaferli vegna hinnar kærðu ákvörðunar verði stöðvað þar til skorið hefur verið úr kæru.

 

2. Að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kærða verði gert að auglýsa útboð nr. 14651 að nýju.

 

Varakrafa:

Að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.

 

Í öllum tilvikum er þess krafist að kærunefnd útboðsmála ákveði að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæru þessa uppi að skaðlausu samkvæmt mati nefndarinnar eða framlögðu málskostnaðaryfirliti.“

 

Kæran var ekki í samræmi við 2. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 þar sem í henni var ekki með skýrum hætti að finna kröfur kæranda. Kæranda var gefinn frestur til að bæta úr annmörkum kærunnar. Hinn 18. janúar 2010 barst kærunefnd útboðsmála greinargerð með kærunni.

 

Kærða var gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir vali á tilboði. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á gerð samnings. Með símtali við starfsmann nefndarinnar, dags. 19. janúar 2010, bárust athugasemdir kærða vegna stöðvunarkröfunnar.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva gerð samnings.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

I.

Í apríl 2009 auglýsti kærði útboð nr. 14651: Plástrar, bindi, grisjur og fleira. Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu. Með tölvupósti, dags. 4. desember 2009, tilkynnti kærði um val á tilboðum í hinu kærða útboði. Með tölvupósti, dags. 15. desember 2009, tilkynnti kærði að tilboð hefðu verið endanlega samþykkt.

 

II.

Kærandi telur að fagnefndin sem valdi tilboð hafi ekki gert ráð fyrir breytingum sem gerðar voru á útboðsgögnum í innkaupaferlinu. Með breytingunni hafi verið heimilaðar aðrar „antibacterial umbúðir“ í tilteknum vöruflokkum en í upphaflegum útboðsgögnum var eingöngu beðið um silfurumbúðir. Kærandi segir að fullyrðing kærða í eftirfarandi rökstuðningi um að sumar tegundir sára þurfi silfur sé röng. Þvert á móti megi alls ekki nota silfur á sumar tegundir sára. Kærandi telur að það efni sem hann býður, „sorbact“, sé fullnægjandi og því hafi kærða borið að taka tilboði kæranda samhliða þeim tilboðum þar sem notast var við silfur. Kærandi segir að auk þess hafi kærði ranglega litið svo á að kærandi hafi eingögnu boðið í einn útboðslið en hið rétta sé að kærandi hafi boðið í fjóra útboðsliði. Þá telur kærandi að mat á gæðum og tæknilegum eiginleikum hafi verið rangt og auk þess stigagjöf fyrir verð á vörum.

 

III.

Kærði segir að tilkynning um val tilboða í útboðinu hafi verið tilkynnt öllum þátttakendum hinn 4. desember 2009.  Kærði segir að hinn 15. desember 2009 hafi verið tilkynnt um endanlega samþykkt tilboða og því sé kominn á bindandi samningur.

 

IV.

Í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, segir að þegar innkaupaferli ljúki með vali kaupanda á tilboði skuli líða a.m.k. tíu dagar frá því að ákvörðun um val tilboðs er tilkynnt þar til tilboð er endanlega samþykkt. Eftir að bindandi samningur skv. 76. gr. laganna er kominn á verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna.

Frá því að ákvörðun um val tilboða í hinu kærða útboði var tilkynnt og þangað til tilboð voru endanlega samþykkt liðu tíu dagar. Í þeim innkaupum sem mál þetta lýtur að hefur þannig komist á bindandi samningur samkvæmt 76. gr. laga nr. 84/2007 og þegar af þeirri ástæðu er kærunefnd útboðsmála ekki heimilt, lögum samkvæmt, að stöðva samningsgerðina.

 

           

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Celsus ehf., um að samningsgerð í kjölfar útboðsins 14651: Plástrar, bindi, grisjur og fleira verði stöðvuð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, er hafnað.

 

 

                                                               Reykjavík, 22. janúar 2010.

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Stanley Pálsson

                                                              

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,                      2010.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn