Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 18. febrúar 2010


Mál nr. 90/2008         Aðlögun eiginnafns:          Kristiana verði Kristjana

 

Hinn 18. febrúar 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 90/2008:

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um að breytt verði rithætti eiginnafns úr Kristiana í Kristjana er samþykkt.

 

 

 

Mál nr. 27/2009                    Eiginnafn:     Franzisca

 

Hinn 18. febrúar 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 27/2009:

Með tölvubréfi, sem barst mannanafnanefnd 7. mars 2009, var lögð fram beiðni um að nafnið Franzisca yrði samþykkt sem ritháttarafbrigði nafnsins Fransiska á sama hátt og Franziska sem nú þegar er samþykktur ritháttur.

Mál þetta var tekið fyrir á fundum mannanafnanefndar 1. og 14. apríl 2009 en afgreiðslu þess þá frestað til frekari skoðunar og gagnaöflunar. Það er nú tekið til úrskurðar.

Mannanafnanefnd hefur áður úrskurðað um beiðni sama aðila um viðurkenningu á umbeðnu nafni eða rithætti þess. Á fundi miðvikudaginn 23. apríl 2008 (úrskurður nr. 25/2008) var slíkri beiðni hafnað. Í þeim úrskurði segir m.a. svo:

„Eiginnafnið Franzisca (kvk.) brýtur í bág við íslenskt málkerfi. Það getur ekki talist ritað í samræmi við ritreglur íslensks máls þar sem bókstafirnir ‘z’ og ‘c’ teljast ekki til íslenska stafrófsins þótt þeir komi fyrir í nokkrum mannanöfnum sem hafa unnið sér hefð. Nú þegar eru tvær gerðir þessa nafns á mannanafnaskrá, Fransiska og Franziska. Samkvæmt gögnum Þjóðskrár er engin núlifandi íslensk kona, sem uppfyllir skilyrði ofangreindra vinnulagsreglna, skráð með eiginnafnið Franzisca. Því telst ekki vera hefð fyrir þessum rithætti. Eiginnafnið Franzisca uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 og því er ekki mögulegt að fallast á það.“

Í úrskurðarorði tilvitnaðs úrskurðar kemur enn fremur fram að bæði sé hafnað beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Franzisca (kvk.).

Sú beiðni, sem hér er til umfjöllunar, beinist sérstaklega að rithætti nafnsins Franzisca. Þrátt fyrir að mannanafnanefnd hafi þegar tekið beina afstöðu til þess atriðis í fyrri úrskurði frá 23. apríl 2008 má líta svo á að rökstuðningur nefndarinnar um þann þátt hafi ekki verið svo skýr sem æskilegt væri. Er því fallist á að taka að nýju til umfjöllunar erindi aðila um þann þátt málsins. Hins vegar verður ekki talið að fyrir hendi séu skilyrði til endurupptöku fyrri úrskurðar að öðru leyti.

Samkvæmt 20. gr. laga um mannanöfn, nr. 45/1996 er heimilt að breyta ritun nafns í þjóðskrá án þess að um sé að ræða eiginlega nafnbreytingu. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem síðan varð að mannanafnalögum koma fram þær skýringar á þessu að breytingar sem geti fallið undir greinina séu m.a.: „breyting á rithætti eiginnafns eða millinafns í samræmi við úrskurði mannanafnanefndar um heimila rithætti nafna (t.d. Esther í stað Ester eða öfugt)“.

Mannanafnanefnd tekur undir það með beiðanda í máli þessu að rithátturinn Franzisca væri í reynd ákveðin ritmynd af sama nafni, Fransiska. Sú ástæða eins og sér dugir þó ekki til. Ritmynd eiginnafns verður ávallt með sjálfstæðum hætti að fullnægja skilyrðum 5. gr. mannanafnalaga, líkt og það sem má nefna „aðalnafnið“ sem í þessu tilviki teldist vera Fransiska.

Eins og rakið var í áður tilvitnuðum úrskurði mannanafnanefndar frá 23. apríl 2008 er rithátturinn Franzisca ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Kemur þá til skoðunar hvort hefð sé fyrir þessum rithætti nafnsins.

Við mat á því hvort ritháttur sé hefðaður hefur mannanafnanefnd litið til vinnulagsreglna frá árinu 2006, sem einnig koma fram í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga sem síðan varð að lögum um mannanöfn. Mannanafnanefnd hefur ekki vikið frá þessum vinnulagsreglum nema í þeim sérstöku tilvikum að nafn hafi einnig verið til í íslensku fornmáli. Þá hefur einnig verið fallist á nöfn, eða rithætti, sem teljast hafa unnið sér svonefnda menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi í þessum skilningi ef það kemur fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Lög nr. 45/1996, um mannanöfn, gera ráð fyrir því að ekki sé heimilt að víkja frá því að nafn sé ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema sá ritháttur sem um er að ræða styðjist við hefð. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá er engin núlifandi kona sem fullnægir skilyrðum vinnulagsreglnanna skráð með eiginnafnið Franzisca. Tvær konur hafa verið skráðar hér á landi með þetta nafn eða ritmynd þess. Önnur flutti til landsins um 1940 og hin var skírð þessu nafni hér á landi um svipað leyti.

Hugtakið hefð í lögum um mannanöfn hefur ekki fastmótaða merkingu. Eigi að síður telur mannanafnanefnd ljóst að umrætt hugtak hlýtur að vísa til tiltölulega rótgróins siðar eða venju. Vinnulagsreglur þær sem mannanafnanefnd styðst við ganga langt í því að koma til móts við rétt manna til að ákveða nafn sitt, án takmarkana af hálfu hins opinbera. Lög um mannanöfn áskilja hins vegar að til að fallist verði á rithátt eiginnafna sem ekki eru í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þurfi hann að vera hefðaður. Í ljósi þess telur mannanafnanefnd ekki fært að fallast á þá beiðni sem hér er til umfjöllunar.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um ritháttinn Franzisca (kvk.) er hafnað.

 

 

 

Mál nr. 12/2010                    Eiginnafn / millinafn / ættarnafn: Fálki

 

Hinn 18. febrúar 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 12/2010.

 

Til þess að hægt sé að samþykkja að taka nýtt millinafn á mannanafnaskrá þurfa öll skilyrði 6. gr. laga nr. 45/1996 að vera uppfyllt. Þar segir m.a. að millinafn skuli dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli, en má þó ekki hafa nefnifallsendingu.

 

Þar sem nafnið Fálki (kk.) hefur nefnifallsendingu uppfyllir það ekki skilyrði 6. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn. Því er ekki mögulegt að fallast á það sem millinafn.

 

Hins vegar fullnægir nafnið Fálki (kk.) öllum skilyrðum 5. gr. laga  um mannanöfn fyrir skráningu sem eiginnafn. Það tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Fálka.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um ættarnafnið Fálki er hafnað. Beiðni um millinafnið Fálki er hafnað. Beiðni um eiginnafnið Fálki (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

Mál nr. 14/2010                    Eiginnafn:     Deníel

 

Hinn 18. febrúar 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 14/2010:

Eiginnafnið Deníel (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Deníels, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Deníel (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn