Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir, 28. apríl 2010

Mál nr. 27/2010 Eiginnafn: Marzellíus

Hinn 28. apríl kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 27/2010:

Mál þetta var tekið fyrir á fundi mannanafnanefndar 12. nóvember 2008 og var nafnbeiðninni þá hafnað. Óskað er eftir því að málið verði tekið fyrir að nýju.

Umsækjandi mótmælir því sem fram kemur í umræddum úrskurði að nafnið Marzellíus geti ekki talist ritað í samræmi við ritreglur íslensks máls þar sem bókstafurinn z teljist ekki til íslenska stafrófsins þótt hann komi fyrir í nokkrum mannanöfnum sem hafi unnið sér hefð. Umsækjandi bendir því til stuðnings á að í auglýsingu um íslenska stafsetningu, nr. 132/1974, segi í e-lið 3. gr. 2. kafla (Um z og afnám hennar): „Í sérnöfnum, erlendum að uppruna, má rita z, t.d. Zóphanías, Zakarías, Zimsen o.s.frv.“ Umsækjandi telur að umrædd auglýsing um íslenska stafsetningu sé rök fyrir því að samþykkja megi ritháttinn Marzellíus.

Því er til að svara að ekki er hægt að túlka e-lið 3. gr. 2 kafla ofangreindar auglýsingar þannig að z sé rituð að vild í öllum sérnöfnum, erlendum að uppruna. Nöfnin sem þarna eru talin upp, Zóphanías, Zakarías og Zimsen, eru einungis dæmi um nöfn, erlend að uppruna, sem hefð er að rita með z. Þessi ritháttur hefur með öðrum orðum öðlast hefð í íslensku máli, í þessum tilteknu nöfnum.

Eins og leiðir af gildandi lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, er hægt að fallast á rithátt nafns sem ekki fullnægir ritreglum íslensks máls, ef hann telst hefðaður. Í úrskurðum mannanafnanefndar um rithætti með bókstöfum sem ekki eru í íslensku stafrófi (s.s. w, c, z) hefur í samræmi við þetta verið tekin til þess afstaða hvort hefð viðkomandi ritháttar sé fyrir hendi. Er þá miðað við það hvort viðkomandi nafn sé eða hafi verið notað af nægilegum fjölda manna til að teljast hefðað, ekki er um það að ræða að tiltekinn bókstafur öðlist hefð. Þannig eru nöfn á borð við Walter og Zóphanías á mannanafnaskrá vegna þess að fyrir þessum ritháttum hefur verði talin hefð. Á hinn bóginn hefur t.d. nöfnunum Werner, Veronica og Zíta verið hafnað á grundvelli þess að þau séu ekki hefðuð.

Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum. Þessar reglur taka mið af því hvort tiltekið nafn teljist hefðað, en ber einnig að beita í þessu máli um rithátt nafns:

1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3. Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

4. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár telst ekki vera hefð fyrir rithættinum Marzellíus. Einn núlifandi karl er skráður með eiginnafnið Marzellíus sem uppfyllir skilyrði ofangreindra vinnulagsreglna og er hann fæddur árið 1959 en á þeim tíma var bókstafurinn z enn notaður í íslensku stafrófi. Eiginnafnið Marzellíus kemur ekki fyrir í „Skrá um eiginheiti karla fæddra á Íslandi samkvæmt manntalinu 1. desember 1910“ og ekki heldur í eldri manntölum. Nafnið telst því ekki hefðað skv. vinnulagsreglunum en þeim er nauðsynlegt að fylgja svo að jafnræðis sé gætt. Þar sem eiginnafnið Marzellíus telst ekki hefðað uppfyllir það ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 og því er ekki mögulegt að fallast á það.

Í bréfi umsækjanda kemur fram að drengur sem er fæddur árið 2006 beri nafnið Marzelíus. Var drengnum gefið eiginnafnið Marsellíus við skírn árið 2006 en með leyfisbréfi útgefnu í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu var orðið við ósk foreldranna um að taka upp nafnið Marzelíus sem millinafn. Það kemur því til álita hvort heimila beri eiginnafnið Marzellíus á grundvelli jafnræðisreglu.

Af þessu tilefni vill mannanafnanefnd taka fram að umrætt leyfi, dags. 8. september 2006, þar sem dómsmálaráðuneytið féllst á að tiltekinn einstaklingur fengi að taka upp millinafnið Marzelíus, byggðist á sérstakri undanþáguheimild skv. 3. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996, þar sem afi viðkomandi einstaklings hafði borið nafnið. Hér eru skilyrði til að beita þeirri undanþágu ekki fyrir hendi. Umrædd tvö mál eru því ekki sambærileg. Með vísan til þess getur ofangreint leyfi dómsmálaráðuneytisins frá 8. september 2006 ekki haft áhrif á niðurstöðu þessa máls.

Þá vill mannanafnanefnd taka fram að ekki skiptir máli hvort um er að ræða eiginnafn eða millinafn þegar úrskurðað er um hvort leyfa á rithátt sem samræmist ekki íslenskri stafsetningu. Skv. 4. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn skal millinafn ritað í samræmi almennar ritreglur íslensks máls. Á það við hvort sem um sérstakt millinafn skv. 3. mgr. 6. gr. eða almennt millinafn skv. 2. mgr. 6. gr. er að ræða. Millinafnið Marzelíus hefði mannanafnanefnd ekki getað samþykkt frekar en eiginnafnið Marzelíus. Mannanafnanefnd telur því ljóst að þarna hafi dómsmálaráðuneytið veitt leyfi fyrir nafnbreytingu sem ekki var í samræmi við lög um mannanöfn nr. 45/1996.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Marzellíus (kk.) er hafnað.

Mál nr. 28/2010 Eiginnafn: Ellís

Hinn 28. apríl kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 28/2010:

Eiginnafnið Ellís (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Ellísar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Ellís (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

Mál nr. 33/2010 Millinafn: Grindvík

Hinn 28. apríl kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 33/2010:

Millinafnið Grindvík er dregið af íslenskum orðstofnum, hefur ekki nefnifallsendingu og hefur hvorki unnið sér hefð sem eiginnafn kvenna né sem eiginnafn karla. Nafnið er ekki heldur ættarnafn í skilningi 7. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Millinafnið Grindvík uppfyllir þannig ákvæði 6. gr. fyrrnefndra laga.

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Grindvík er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn