Hoppa yfir valmynd
14. október 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Álit, að því er tekur til heimildar stjórnenda framhaldsskóla að setja það skilyrði fyrir inngöngu á skóladansleik að nemendur (nýnemar, 15-16 ára) blási í áfengismæla hjá starfsmönnum skólans og sýni með því að þeir séu ekki undir áhrifum áfengis

Vísað er til erindis til embættis ríkislögreglustjóra, sem framsent var mennta- og menningarmálaráðuneytinu með bréfi, mótt. 4. nóvember 2009. Í erindinu er spurt hvort stjórnendum skólans sé heimilt að setja það skilyrði fyrir inngöngu á skóladansleiki að nemendur blási í áfengismæla hjá starfsmönnum skólans og sýni með því að þeir séu ekki undir áhrifum áfengis.  Með bréfi, dags. 9. desember 2009, var óskað eftir umsögn Persónuverndar um erindið, sem barst 4. janúar 2010.

Í 33. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, er fjallað um skólareglur og meðferð mála. Þar er kveðið á um að í skólanámskrá hvers skóla skulu vera reglur þar sem gerð er grein fyrir réttindum og skyldum nemenda. Skólareglur skulu m.a. geyma ákvæði um hegðun og umgengni, viðurlög vegna brota á skólareglum og reglur um meðferð ágreiningsmála og um beitingu viðurlaga. Þá er kveðið á um það í grein 7.8 í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla að öll meðferð og neysla áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð í húsakynnum skóla. Framhaldsskólar skulu móta stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum og birta í skólanámskrám sínum.

XXX hefur sett sér reglur um skóladansleiki á vegum skólans. Þar kemur m.a. fram að engar vínveitingar eru leyfðar né meðferð áfengis og annarra vímuefna. Þá er nemendum sem koma undir áhrifum áfengis ekki hleypt inn á dansleiki skólans. Þurfi starfsmenn að hafa afskipti af nemanda sem er undir áhrifum á skóladansleik muni félags- og forvarnafulltrúi taka mál hans til meðferðar svo skjótt sem auðið er. Beita má viðvörun og takmörkun á þátttöku nemanda í félagslífi skólans. Samkvæmt þessum ákvæðum er ljóst að nemendur sem ekki virða fortakslaust bann við notkun áfengis og annarra vímuefna á skóladansleikjum fyrirgera rétti sínum til þátttöku og geta auk þess átt von á frekari viðurlögum vegna slíkra brota. Reglur skólans um skóladansleiki eru að mati ráðuneytisins málefnalegar og í samræmi við lög um framhaldsskóla og aðalnámskrá framhaldsskóla.

Hins vegar gera framangreind ákvæði laganna, aðalnámskrár og skólareglna ekki ráð fyrir því að meina megi nemendum þátttöku í skóladansleikjum af þeirri ástæðu einni að þeir fallist ekki á að blása í áfengismæla hjá starfsmönnum skólans. Með því kynnu nemendur að vera útilokaðir frá skóladansleikjum af þeirri ástæðu einvörðungu að neita að undirgangast slíka mælingu, án þess að hafa í reynd brotið gegn fortakslausu banni við áfengis- og vímuefnanotkun. Ákvörðun sem tekin væri um að synja nemendum um inngöngu á þeim forsendum þyrfti því samkvæmt framansögðu ekki að grundvallast á þeim forsendum eingöngu að þeir væru undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna og því væri óvíst hvort slík ákvörðun þjónaði sannanlega því lögmæta markmiði sem að væri stefnt með framangreindum reglum. Þá skal jafnframt horft til þess hvort slíkar mælingar taki jöfnum höndum til þeirra sem kynnu að vera undir áhrifum áfengis og/eða annarra vímuefna en mæling í þessum tilgangi þjónar ekki fyllilega tilætluðum árangri nema hún taki til allra þeirra nemenda sem kunna að brjóta gegn hinu afdráttarlausa banni, ekki aðeins þeirra sem hafa neytt áfengis. Þá telur ráðuneytið vandséð að nauðsynlegs meðalhófs sé gætt með slíku afdráttarlausu skilyrði um að nemendur blási í áfengismæli en fái ella ekki inngöngu. Hins vegar kæmi til greina að mati ráðuneytisins að starfsmenn skólans byðu upp á áfengismælingar, t.d. þeim nemendum sem að mati starfsmanna skólans eru taldir virða bannið að vettugi. Þeim nemendum stæði þá til boða að afsanna grunsemdir um áfengisneyslu með því að blása í áfengismæli og hljóta þar með inngöngu á skóladansleiki á vegum skólans.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum