Hoppa yfir valmynd
27. október 2010 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Trúarbragðafræðsla í leik- og grunnskólum  í ljósi 2. gr. 1. samningsviðauka  Mannréttindasáttmála Evrópu - Álit unnið fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið

Í eftirfarandi áliti er tekin afstaða til álitaefna er varða lagaumgjörð og útfærslu á námi í trúarbragðafræði (Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði). Einnig er fjallað um samskipti skóla og kirkju og tengd álitaefni.

Það álit sem hér er birt á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis var unnið af Dóru Guðmundsdóttur, Cand.Jur, LL.M, að beiðni ráðuneytisins.  Álitið er ekki sett fram sem skoðun ráðuneytisins á þeim álitaefnum sem þar eru til umfjöllunar, heldur sem fræðileg og hlutlæg úttekt framangreinds fræðimanns.  Við gerð álitsins var horft til þess hvaða leiðbeiningar mætti draga af niðurstöðu dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Folgerø gegn Noregi  og þeirra krafna sem felast í þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins á þessu sviði.

Í eftirfarandi áliti er tekin afstaða til álitaefna er varða lagaumgjörð og útfærslu á námi í trúarbragðafræði (Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði).  Einnig er fjallað um samskipti skóla og kirkju og tengd álitaefni.  Horft er til þess hvaða kröfur þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins gera um framkvæmdina hér á landi, einkum með hliðsjón af 2. gr. 1. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), eins og Mannréttindadómstóllinn hefur túlkað ákvæðið, og hvaða leiðbeiningar megi draga af niðurstöðu dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli  Folgerø gegn Noregi.

Í álitinu er komist að þeirri niðurstöðu að lögmætt sé að kenna trúarbragðafræði sem hluta af námsefni opinberra skóla og það, út af fyrir sig, brjóti ekki gegn þjóðréttarlegum skuldbindingum á þessu sviði. Mannréttindadómstóllinn hefur túlkað 2. gr. 1 samningsviðauka MSE þannig að hún komi ekki í veg fyrir að ríki miðli í gegnum kennslu upplýsingum og þekkingu á  málefnum sem eru trúarleg eða heimspekileg.  Ríkjum er einnig eftirlátið svigrúm til að útfæra skipulag og kennslu í þessum efnum, þ.e. ríki hafa nokkuð rúmt svigrúm til að meta hvernig kennslu í trúarbragðafræðum er best háttað í skólum.  Gerð námskrár fellur í meginatriðum innan valdmarka aðildarríkjanna, bæði að því er varðar skipulag námsins og að því er varðar virkni þess og hagkvæmni. Við útfærslu og kennslu í trúarbragðafræðum verður að gæta að öðrum réttindum sem varin eru, einkum að því að réttur barna og foreldra til virðingar fyrir trú- og skoðanafrelsi þeirra sé virtur, að því er varðar efni kennslunnar og framkvæmd hennar.  Standa skal vörð um fjölhyggju í menntakerfinu vegna mikilvægis þess fyrir lýðræðissamfélagið að tekið sé mið af sjónarmiðum allra hópa samfélagsins.

Telji foreldrar að tiltekið námsefni eða þátttaka í atburðum og athöfnum fari gegn trúar- eða lífsskoðunum sínum geta þeir sótt um undanþágu fyrir börn sín frá skólaskyldu í slíkum tilvikum.  Þá þurfa upplýsingar um skipulag kennslu, nákvæm námstilhögun og námsefni að hafa verið kynntar foreldrum svo þeir geti átt þess kost að sækja um undanþágu telji þeir það nauðsynlegt.  Verður þá að gæta þess að umsókn um undanþágur verði ekki of íþyngjandi fyrir forelda og skulu þeir ekki krafðir skýringa eða yfirlýsinga um trúar- eða lífsskoðanir sínar til stuðnings undanþágubeiðni.  Skólar skulu þá bjóða börnum önnur úrræði, svo ekki verði með slíkri undanþágu gengið nærri rétti þeirra til menntunar, og gæta þess ennfremur að börn verði ekki fyrir óþægindum eða aðkasti af þessu tilefni.  Hér skal þó tekið fram að eftir því sem útfærsla og fyrirkomulag námsins er meira í anda hlutleysis og fjölhyggju er minni þörf á að veita undanþágur frá námi.

Mat á hæfilegri áherslu á kristna trú í námskrá fellur innan valdsviðs ríkisins, einkum með hliðsjón af þýðingu kristinnar trúar í sögu og hefðum ríkisins.  Alltaf þarf þó að gæta þess að kennsluefninu sé miðlað með gagnrýnum og hlutlægum hætti og í anda fjölhyggju.  Má telja það felast í sjónarmiðinu um fjölhyggju að skoðunum annarra sé lýst með hlutlægum og jafngildum hætti og eigin skoðunum. Auk þess verður að gera þá kröfu að þeir foreldrar sem ekki aðhyllast þær skoðanir sem kenndar eru geti, án skýringa, óskað eftir því að börn þeirra taki ekki þátt í kennslu eða athöfnum sem viðkomandi telur ekki samræmast eigin skoðunum eða trúarbrögðum.

Með hliðsjón af þeim meginsjónarmiðum sem Mannréttindadómstóll Evrópu leggur til grundvallar við túlkun á 2. gr. 1. samningsviðauka MSE, og niðurstöðu dómstólsins í Folgerø, verður að telja að markmið laga nr. 91/2008, um hlutverk grunnskóla, eins og það kemur fram í lögunum og skýringum í frumvarpi með þeim, sé í samræmi við þau meginsjónarmið sem felast í 2. gr. 1. samningsviðauka MSE.  Kemur þetta fram í 2. gr. laganna, m.a. að hlutverk grunnskóla sé að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi í þróun sem og því markmiði að stuðla að víðsýni nemenda, sbr. 2. mgr. 2. gr.  Með hliðsjón af niðurstöðu meirihluta Mannréttindadómstólsins í Folgerø verður ekki talið að vísun til kristinnar arfleifðar íslenskrar menningar og þeirra grunngilda sem talin eru felast í  kristnu siðgæði í ákvæði um starfshætti grunnskóla feli í sér brot á ákvæðinu, eitt og sér.  Hvað varðar leikskóla má telja eðlilegt að taka mið af sömu sjónarmiðum þegar starfshættir og stefnumótun leikskóla er ákveðin.

Hefur Mannréttindadómstóll Evrópu lagt áherslu á að það leiði af 2. málsl. 2. gr. 1. samningsviðauka MSE að við framkvæmd menntastefnu og kennslu gæti ríkið að því að upplýsingum og þekkingu sem námskrár taka til sé miðlað með hlutlægum og gagnrýnum hætti og er óheimilt að stefna að innrætingu skoðana.  Réttmætt er að leggja áherslu á kennslu í þjóðtrú landsins, jafnvel þannig að meiri fræðsla fari fram í þeim trúarbrögðum en öðrum og á það jafnt við um kynningu á sögu, kenningum og helgihaldi.  Hefur ríkið svigrúm til að meta hæfilega áherslu á menntun í þeim trúarbrögðum.  Verður því að telja vettvangsheimsóknir, t.d. í kirkju, rúmast innan þess svigrúms, en gæta skal að því að ekki sé hlutfallslegt ósamræmi í því hversu oft á skólaári eða skólastigi farið er í kirkju annars vegar og á aðra helgistaði eða heimsóknir hins vegar.  Hvað varðar heimsóknir presta á skólatíma, þá skal gerð krafa um að slíkar heimsóknir falli að skipulagi náms í aðalnámskrá og skólanámskrá, séu kynntar foreldrum fyrirfram og að gætt sé að hlutfallslegu jafnvægi heimsókna presta eða annarra fulltrúa kirkjunnar annars vegar og sambærilegra heimsókna annarra trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga hins vegar.  Þá skal þess gætt að kennsla sé hlutlæg og gagnrýnin, í anda fjölhyggju, og trúar- og lífsskoðanir foreldra sem aðhyllast aðra trú eða skoðanir séu virtar.

Trúarbragðafræðsla í leik- og grunnskólum  í ljósi 2. gr. 1. samningsviðauka  Mannréttindasáttmála Evrópu.
Álit unnið fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira