Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menntamálaráðherra heimsótti Fjölbrautaskóla Vesturlands í boði deildarstjóra verknámsdeilda

Hópurinn skoðaði fyrst og fremst verknámsdeildir skólans og  fékk góða leiðsögn skólameistara, Harðar Helgasonar auk þess sem deildarstjórar málm- raf- og tréiðnadeilda fræddu gestina nánar um námið sem þar fer fram.

Ráðherra og nemendur
radherra-og-nemendur

Föstudaginn 26. nóvember heimsótti Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra Fjölbrautaskóla Vesturlands í boði deildarstjóra verknámsdeilda. Með ráðherra fóru eftirtaldir starfsmenn ráðuneytisins: Berglind Rós Magnúsdóttir ráðgjafi, Elías Jón Guðjónsson aðstoðarmaður ráðherra, Stefán Baldursson skrifstofustjóri mats- og greiningarsviðs, Marta Guðrún Skúladóttir sérfræðingur á fjármálasviði og Ólafur Sigurðsson sérfræðingur í framhaldsskóladeild.

Hópurinn skoðaði fyrst og fremst verknámsdeildir skólans og  fékk góða leiðsögn skólameistara, Harðar Helgasonar, auk þess sem deildarstjórar málm,- raf- og tréiðnadeilda fræddu gestina nánar um námið sem þar fer fram. Einnig var litið við í raungreinastofum þar sem deildarstjóri raungreina veitti leiðsögn. Þá gaf ráðherra sér tíma tíma til að spjalla við nemendur sem urðu á vegi þeirra, m.a. nokkra úr íslensku 103 sem undirbjuggu leikþátt úr Laxdælu.

Móttökur voru höfðinglegar og voru bornar fram nýbakaðar vöfflur með rjúkandi kaffi í kennslustofu tréiðngreina ásamt fleiru góðgæti. Ferðin var afar ánægjuleg og er hópurinn margs vísari um metnaðarfullt skólastarf í Fjölbrautaskóla Vesturlands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum