Hoppa yfir valmynd
7. desember 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ritgerðasamkeppni um Jón Sigurðsson fyrir 8. bekk grunnskóla

Á næsta ári, 17. júní 2011, verða liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar forseta. Afmælisnefnd skipuð af Alþingi hefur af því tilefni ákveðið, í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið, að efna til ritgerðasamkeppni fyrir nemendur í 8. bekk grunnskóla.

Til skólastjóra grunnskóla

Á næsta ári, 17. júní 2011, verða liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar forseta. Afmælisnefnd skipuð af Alþingi hefur af því tilefni ákveðið, í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið, að efna til ritgerðasamkeppni fyrir nemendur í 8. bekk grunnskóla í febrúar nk.  Gert er ráð fyrir því að ritgerðir verði í formi sendibréfs. Varðveist hafa rúmlega 600 sendibréf til Jóns og  mun hann ekki hafa skrifað færri bréf sjálfur. Gaman og fróðlegt getur því verið að bera saman bréf sem ungt fólk skrifar nú og berast strax til viðtakenda og þau sem Jón forseti skrifaði.

Hugmyndin er sú að nemendur skrifi Jóni stutt bréf og ávarpi hann „Kæri Jón”, segi frá áhugasviði sínu og hvað þau hafa daglega fyrir stafni og reyni með því að setja sig inn í þann samskiptahátt sem Jón og samtíðarmenn hans notuðu mest.

Skólar eru beðnir að senda ritgerðir nemenda til afmælisnefndarinnar fyrir mánaðamótin febrúar/mars, merkt: Afmælisnefnd, b.t. Sigrúnar Ólafsdóttur, fulltrúa, forsætisráðuneytinu, Stjórnarráðshúsinu, við Lækjartorg, 150 Reykjavík.

Dómnefnd, sem í eiga sæti Samtök móðurmálskennara auk skipuleggjenda, fer yfir ritgerðirnar og velur úr þeim þær ritgerðir sem hljóta viðurkenningu. Viðurkenningarnar verða sendar skólunum.  Dómnefnd velur síðan 10 bréf sem hljóta sérstök bókaverðlaun. Þau verðlaun verða tilkynnt sérstaklega og send verðlaunahöfum. Stefnt er að því að það verði fyrir páska 2011. Allar niðurstöður verða birtar á vefnum http://www.jonsigurdsson.is/ og heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytis. Einnig verða sérstakar upplýsingar um ritgerðasamkeppnina á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins, www. menntamalaraduneyti.is  Nánari leiðbeiningar og samkeppnisreglur verða sendar til allra grunnskóla í janúar og birtar á vef ráðuneytisins. Enn fremur er talsvert efni á vefnum http://www.jonsigurdsson.is/ sem hægt er að styðjast við og meira efni á eftir að birtast á vefnum. Tengiliður ráðuneytisins við verkefnið er Erna Árnadóttir, deildarsérfræðingur, [email protected]

Ég vil að lokum leyfa mér að hvetja skóla, starfsfólk og nemendur til að taka virkan þátt í þessu verðuga verkefni og skapa þannig ný tækifæri fyrir nemendur til þess að kynnast Jóni forseta og starfi hans og með því að senda honum línu.

Katrín Jakobsdóttir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum