Hoppa yfir valmynd
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mörg sveitarfélög glíma við niðurskurð og hagræðingaraðgerðir

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur gefið út skýrslu fyrir árið 2010 en þar er að finna helstu upplýsingar um starfsemi EFS. Þar kemur fram að heildarskuldir A-hluta starfsemi sveitarfélaga hækkuðu úr 105% af heildartekjum á árinu 2007 í 153% árið 2009 eða um 53%. Segir í inngangi skýrslunnar að mörg sveitarfélög glími nú við niðurskurð í rekstrargjöldum og nauðsynlega hagræðingu í rekstri til að ná jöfnuði í afkomu.

Þá kemur fram í inngangi skýrslunnar að miklar fjárfestingar nokkurra stórra sveitarfélaga og veruleg skuldsetning á undanförnum árum eigi mikinn þátt í vanda vegna endurfjármögnunar lána hjá erlendum lánastofnunum. Skuldir í erlendum gjaldmiðlum vega þungt hjá nokkrum sveitarfélögum ekki síður en hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Þá segir einnig í inngangi skýrslunnar:

,,Nefndin hefur vakið athygli á nokkrum þáttum í rekstri og fjárhagsstöðu sveitarfélaga þegar afkoma og/eða fjárhagsstaða stefnir fjármálum sveitarfélags í óvissu að mati nefndarinnar. Í júní 2010 gerði nefndin öllum kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum grein fyrir viðmiðunum sínum varðandi heildarskuldir sveitarfélaga og framlegð frá rekstri. Viðmið þessi notar nefndin fyrst og fremst við fyrstu skoðun á ársreikningum til að varpa ljósi á þau sveitarfélög sem talin er ástæða til að skoða frekar eða afla frekari upplýsinga hjá. Einnig lítur nefndin til annarra þátta og lykiltalna svo sem peningalegrar stöðu, veltufjár frá rekstri o.fl.

Nefndin hefur lagt áherslu á að mjög skuldsett sveitarfélög reyni með öllum tiltækum ráðum að lækka skuldir sínar því fjármagnskostnaður skerðir mjög ráðstöfunarfé frá rekstri en hversu mikil skerðingin er ræðst af skuldastöðunni. Lækkun skulda ætti að vera eitt af megin markmiðum þessara sveitarfélaga á næstu misserum og árum.

Í september 2010 var birt skýrsla samráðsnefndar ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál þar sem fjallað er m.a. ítarlega um fjármál sveitarfélaga, áætlanagerð, reikningsskil og annað sem varðar fjármál þeirra. Á síðustu mánuðum hefur síðan verið unnið að gerð frumvarps að nýjum sveitarstjórnarlögum og hafa drög að frumvarpinu legið fyrir til kynningar. Þar er gert ráð fyrir verulegum breytingum á ákvæðum sveitarstjórnarlaga um fjármál sveitarfélaga og eftirlit með fjármálum þeirra. Þar er m.a. kveðið á um svo nefnda skuldareglu sem ætlað er að takmarka heimildir sveitarstjórna til að stofna til skulda og skuldbindinga og heimild sveitarfélaga til að taka á sig ábyrgð er einnig takmörkuð. Einnig er gerð krafa um að rekstur sveitarfélaga sé í jafnvægi.”

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira