Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Innritun nýnema í framhaldsskóla fyrir haustið 2011 er lokið

Umsóknarfresti nemenda í 10. bekk um nám í framhaldsskóla lauk fimmtudaginn 9. júní síðastliðinn.
  • Helstu atriði:

  • Allir umsækjendur úr 10. bekk fá skólavist í framhaldsskólum í haust.
  • Nýnemar fá almennt skólavist í þeim skólum sem þeir helst kjósa.
  • Betur gekk að útvega nýnemum skólavist en undanfarin ár.

Umsóknarfresti nemenda í 10. bekk um nám í framhaldsskóla lauk fimmtudaginn 9. júní síðastliðinn. Þá höfðu 4205 nemendur sótt um skólavist eða rúm 96% þeirra sem stunduðu nám í 10. bekk á nýliðnu skólaári sem er sama hlutfall og árið áður. Búið er að tryggja öllum þessum nýnemum skólavist í 31 framhaldsskóla.

Betur gekk nú að útvega nýnemum skólavist í framhaldsskólum en áður. Rúmlega 98% umsækjenda fengu inni í öðrum þeirra skóla er þeir sóttu um en tæplega 97% í fyrra. Mestu munar að þar af fengu nú tæp 87% nýnema inni í skóla er þeir völdu númer eitt en hlutfall þeirra í fyrra var mun lægra eða rúm 82%.

Fyrirkomulag innritunar nýnema var breytt umtalsvert árið 2010. Að þessu sinni var framkvæmdin byggð á þeirri reynslu sem þá fékkst. Forinnritun var flýtt og fór hún fram í mars. Niðurstöður hennar eru nýttar til leiðsagnar fyrir umsækjendur, skóla og menntayfirvöld. Umsækjendur gátu nú, eins og í fyrra, valið einn aðalskóla og annan til vara. Þá var framhaldsskólum áfram gert að líta sérstaklega til með nemendum í grunnskólum í þeirra nágrenni og veita umsækjendum þaðan forgang að skólavist í að lágmarki 40% lausra nýnemaplássa. Þetta hlutfall var 45% árið 2010.

Breytingar á fyrirkomulagi innritunar nýnema hafa að leiðarljósi að tryggja rétt nýnema til skólavistar í framhaldsskólum í anda laga um grunn- og framhaldsskóla frá 2008. Markmiðið er að auðvelda nemendum að flytjast úr grunnskólum í framhaldsskóla og finna þar nám við hæfi. Það hefur m.a. verið gert með betri upplýsingum til umsækjenda á vefnum, forinnritun 10. bekkinga, auknu samráði við ráðgjafa grunn- og framhaldsskóla og fjölbreyttara námframboði í framhaldsskólum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn