Hoppa yfir valmynd
6. október 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 17/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 6. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 17/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 26. október 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 21. október 2010 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Umsókn kæranda var samþykkt, en með vísan til námsloka hennar voru greiðslur atvinnuleysistrygginga felldar niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 22. janúar 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 1. september 2010. Samkvæmt þeim gögnum sem fylgdu umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafði hún verið skráð í nám við Kvikmyndaskóla Íslands á vorönn 2010. Kærandi var ekki skráð í nám við skólann á haustönn 2010, án þess þó að hafa lokið námi sínu. Vinnumálastofnun óskaði í kjölfarið eftir skriflegum skýringum kæranda á ástæðum þess að hún hafi hætt námi sínu við skólann.

Vinnumálastofnun tók mál kæranda fyrir á fundi stofnunarinnar þann 21. október 2010. Það var mat stofnunarinnar að skýringar kæranda á ástæðum námsloka teldust ekki gildar í skilningi 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og með bréfi, dags. 26. október 2010, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að samþykkja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur, en með vísan til námsloka hennar var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Ákvörðunin um niðurfellingu bótaréttar var tekin á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 22. janúar 2011, bendir kærandi á að Kvikmyndaskóli Íslands sé einkarekinn skóli og hver önn við skólann kosti 600.000 kr. Þá segir kærandi að hún hafi skráð sig í skólann með það í huga að leggja fyrir sig handritsgerð, en hún hafi séð þegar líða tók á önnina að ekki væru miklir atvinnumöguleikar í þeirri grein. Taldi kærandi að það væri ekki þess virði að leggja á sig dýrt nám sem ekki stóð undir væntingum og sem að öllum líkindum myndi ekki leiða til vinnu að tveggja ára námi loknu. Kærandi bendir einnig á að efnahagsleg kreppa á Íslandi hafi lagst hart á listamenn og sér í lagi kvikmyndaiðnaðinn. Þá segir kærandi að hún hafi ekki talið að hún gæti lagt það á sig að stofna til námslána vegna náms sem að öllum líkindum gæfi ekki vinnu að námi loknu, en hún hafi ekki haft efni á því að greiða fyrir námið með öðrum hætti.

Kærandi telur ljóst að í því árferði sem ríki á Íslandi í dag eigi yfirvöld ekki að hvetja til þess að einstaklingar stofni til skulda vegna náms sem ekki sé öruggt að leiði til atvinnu að námi loknu. Sé það mat kæranda að um gilda ástæðu sé að ræða fyrir því að hún hafi hætt námi við Kvikmyndaskóla Íslands í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og hún óski eftir því að tekið verði tillit til framangreindra ástæðna við mat á því hvort hún verði látin sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga vegna námsloka.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 23. maí 2011, vísar Vinnumálastofnun til 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar kemur fram að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum en hefur hætt námi án gildra ástæðna, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum.

Vinnumálastofnun vísar til athugasemda við 55. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar, en þar komi skýrt fram að eðlilegt sé að þeir sem hætti námi án þess að hafa til þess gildar ástæður, sæti sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Orðalagið „gildar ástæðurhafi verið skýrt þröngt sem þýði í raun og veru að fá tilvik falli þar undir.

Vinnumálastofnun vísar til þess að kærandi hafi verið skráð í nám við Kvikmyndaskóla Íslands á vorönn 2010. Í vottorði frá skólanum komi fram að kærandi hafi hafið nám við skólann í janúar 2010 og lokið þeirri önn. Hafi kærandi ekki lokið námi sínu við skólann. Vinnumálastofnun vísar til þeirra skýringa sem kærandi hafi fært fram varðandi námslok sín. Lúti skýringar kæranda aðallega að fjárhagsástæðum. Segi meðal annars í kæru að hún hafi ekki haldið áfram námi sínu sökum þess að námið hafi ekki staðið undir væntingum hennar. Skólagjöld hafi verið mjög há og kærandi hafi ekki talið sig geta stofnað til námslánaskulda vegna námsins og hún hafi ekki getað staðið undir kostnaði af skólagjöldum á annan hátt.

Vinnumálastofnun áréttar að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem misst hafi störf sín tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Gera verði þá kröfu til þeirra sem segi upp starfi sínu eða hætti námi að þeir hafi til þess gildar ástæður, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að stunda nám eða gegna launuðu starfi.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda á því hvers vegna hún hafi hætt námi teljist ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Telji Vinnumálastofnun að kæranda hafi átt að vera ljóst er hún skráði sig í nám við Kvikmyndaskóla Íslands hver kostnaðurinn væri af því námi. Telji stofnunin að það sé ekki að sjá að forsendur fyrir áframhaldandi námi við skólann hafi breyst á þeim tíma. Þá vísar Vinnumálastofnun til niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 181/2010 þar sem sambærilegt álitaefni hafi farið fyrir nefndina. Telji Vinnumálastofnun að kærandi skuli sæta biðtíma skv. 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Það var niðurstaða Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta skuli fyrst hefjast þegar umsækjandi hafi verið skráður hjá Vinnumálastofnun án atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, að því gættu að hún á sama tíma uppfylli öll almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. maí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. júní 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Málið lýtur að túlkun á 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. a-lið 18. gr. laga nr. 134/2009, en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.“

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur hættir námi, sbr. c-lið 3. gr. laganna, og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í athugasemdum við 55. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, segir að þeir sem hætta námi án þess að hafa til þess gildar ástæður þurfi að sæta sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Vísað er til umfjöllunar um 54. gr. í því sambandi. Þar kemur fram að erfiðleikum sé bundið að skilgreina nákvæmlega gildar ástæður í lögum og reglugerðum og því þurfi að meta hvert tilvik fyrir sig. Orðalagið „gildar ástæður“ hefur verið skýrt þröngt sem þýðir að fá tilvik falla þar undir. Af framangreindu er ljóst að ef ekki liggja fyrir veigamiklar ástæður fyrir því að námi er hætt, þarf umsækjandi um atvinnuleysisbætur að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Kærandi hefur fært fram þau rök að hún hafi hætti námi við Kvikmyndaskóla Íslands því námið hafi verið kostnaðarsamt og ekki staðið undir væntingum hennar, auk þess sem hún hafi talið óvíst að námið myndi leiða til atvinnutækifæra. Verður ekki fallist á þau rök kæranda að um forsendubrest sé að ræða sem geti almennt talist til gildra ástæðna í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að þær ástæður sem kærandi hefur fært fram séu ekki gildar í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ber því að láta kæranda sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. október 2010 í máli í máli A um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum