Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 17/2011. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 5. júlí 2011

í máli nr. 17/2011:

Hálsafell ehf.

gegn

Vegagerðinni

Með bréfi, dags. 23. júní 2011, kærði Hálsafell ehf. ákvörðun Vegagerðarinnar um að hafna tilboði kæranda í útboðinu „Ólafsfjarðarvegur (82), snjóflóðavarnir við Sauðanes“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi þegar í stað umrætt innkaupaferli á grundvelli ofangreinds útboðs í samræmi við 1. mgr. 96. gr. OIL þar til endanlega hefur verið skorið úr öllum kröfum kæranda.

 

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun Ríkiskaupa þess efnis að hafna tilboði kæranda í útboðinu, sbr. heimild í 1. málslið 1. mgr. 97. gr. OIL.

 

Fallist kærunefnd útboðsmála ekki á framangreindar kröfur gerir kærandi eftirfarandi kröfur:

 

að nefndin beini því til Ríkiskaupa að bjóða umrædd innkaup út að nýju sbr. 1. mgr. 97. gr. OIL.

 

að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda sbr. 2. mgr. 97. gr. OIL.

 

Í öllum tilfellum krefst kærandi þess að nefndin ákveði að varnaraðili greiði kæranda kostnað hans við að hafa kæruna uppi sbr. 3. mgr. 97. gr. OIL.“

 

Kærða var kynnt kæran og önnur gögn kæranda og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á innkaupaferli. Með bréfi, dags. 29. júní 2011, krafðist kærði þess að öllum kröfum kæranda í málinu yrði hafnað.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva hið kærða innkaupaferli.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

I.

Í maí 2011 auglýsti kærði útboðið „Ólafsfjarðarvegur (82) Snjóflóðavarnir við Sauðanes“. Í upphafsorðum útboðslýsingar sagði m.a. að tilboðum skyldi skila á frumriti tilboðsforms. Í kafla 1.6. í útboðslýsingu sagði m.a.:

„Tilboði skal skila á frumriti tilboðsforms í lokuðu umslagi [...]

Með tilboði sínu skal bjóðandi skila inn upplýsingum í samræmi við kröfur í lið 1.8 Hæfi bjóðanda, lið 1.11 Gæðakerfi verktaka og öllum upplýsingum um fjárhagsstöðu og reynslu stjórnenda í samræmi við lið 2.2.2., útfylltum eyðublöðum um verkreynslu bjóðanda og yfirstjórnenda ásamt reynslu í notkun gæðastjórnunarkerfa.“

 

Í kafla 1.8. sem bar heitið „Hæfi bjóðanda“ sagði m.a.:

            „Bjóðandi skal uppfylla eftirfarandi reynslukröfur:

·        Bjóðandi skal á sl. 5 árum hafa unnið við a.m.k. eitt verkefni svipaðs eðlis fyrir verkkaupa eða annan aðila.

·        Yfirstjórnendur skulu hafa á sl. 5 árum stjórnað a.m.k. einu verki svipaðs eðlis fyrir verkkaupa eða annan aðila.

·        Gerð er krafa um að bjóðandi vinni samkvæmt skilgreindu gæðastjórnunarkerfi og skal hann eða stjórnendur verksins hafa unnið með gæðastjórnunarkerfi í að minnsta kosti einu verki og skila gögnum þar að lútandi.

                                                                                                                     

Bjóðandi skal uppfylla eftirfarandi fjárhagskröfur:

·        Eigið fé bjóðanda skal vera jákvætt

·        Bjóðandi skal vera í skilum með opinber gjöld eða standa við greiðsluáætlun eða greiðsluuppgjör við innheimtumenn.

·        Bjóðandi skal vera í skilum með lífeyrissjóðsiðgjöld starfsmanna sinna.“

 

Ef einhver af eftirfarandi atriðum eiga við bjóðanda verður tilboði hans vísað frá:

·        Bú bjóðanda er undir gjaldþrotaskiptum, hefur verið slitið eða óskað hefur verið eftir gjaldþrotaskiptum á búi hans.

·        Bjóðandi hefur fengið heimild til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða óskað eftir slíkri heimild.

·        Bjóðandi hefur sýnt alvarlega vanrækslu í starfi sem kaupanda er unnt að sýna fram á.

·        Bjóðandi hefur gefið rangar upplýsingar um fjárhagslega og tæknilega getu sína eða hefur ekki lagt slíkar upplýsingar fram.

·        Verkkaupi mun kanna viðskiptasögu stjórnenda og helstu eigenda. Leiði sú könnun í ljós að þeir hafi orðið gjaldþrota eða komist í sambærilega aðstöðu síðastliðin fimm ár, verður bjóðanda vísað frá, enda eigi í hlut sams konar rekstareining, með sömu eða nær sömu eigendur í sömu eða nær sömu atvinnu­starfsemi, á sama markaði en með aðra kennitölu.“

 

Í kafla 1.11 sem bar heitið „Gæðakerfi verktaka“ sagði m.a.:

„Gerð er krafa um að verktaki vinni samkvæmt skilgreindu gæðastjórnunarkerfi og skal hann eða stjórnendur verksins hafa unnið með gæðastjórnunarkerfi í að minnsta kosti einu verki og skilað gögnum þar að lútandi.

 

Gæðastjórnunarkerfið skal taka mið af ÍST EN ISO 900 staðlinum.

 

Gæðastjórnunarkerfið skal hafa að markmiði að allar aðgerðir séu kerfisbundnar og auðraktar. Það skal innifela skipulagða skjalavistun og handbók sem er viðhaldið.

 

Bjóðandi skal leggja fram með tilboði lýsingu á/yfirlit yfir það gæðastjórnunarkerfi sem hann vinnur með, ásamt upplýsingum um verk þar sem gæðastjórnunarkerfið hefur verið notað.

 

Eftirfarandi atriði skulu koma fram í lýsingu/yfirliti:

·        Hlutverk og starfssvið fyrirtækisins, stjórnskipulag þess og ábyrgðarskipting.

·        Gæðastefna.

·        Lýsing á/verklagsreglna um meðferð samningsgagna (verkfyrirmæla/teikninga og dreifingu þeirra)

·        Verklagsregla um vistun og geymslu skjala.

·        Verklagsregla um útgáfustýringu skjala.

·        Verklagsregla(ur) um meðferð frábirgða og umbætur.

            Verktaki með vottað gæðastjórnunarkerfi fyrir viðkomandi starfsemi getur skilað vottunarskírteini í stað lýsingar/yfirlits.“

 

Hinn 14. júní 2011 hafnaði kærði tilboði kæranda með eftirfarandi rökstuðningi:

„Með tilboði yðar vantaði allar upplýsingar um hæfi bjóðenda, fjárhagsstöðu, skil á opinberum gjöldum og í lífeyrissjóði ásamt upplýsingum um gæðakerfi, sem skilyrt er að fylgi tilboði samkvæmt gr. 1.6 [...]“

 

II.

Kærandi segist hafa skilað gögnum sem sýni fram á öll þau skilyrði sem útboðsgögn áskildu að væru til staðar. Hann segir að kaupandi hafi ekki að öllu leyti sett hæfiskröfur fram með skýrum hætti en engu að síður hafi kærandi sýnt fram á að öllum skilyrðunum sé fullnægt.

 

III.

Kærði segir að óhjákvæmilegt hafi verið að hafna tilboði kæranda enda hafi það verið ógilt. Kærði segir að ársreikning ársins 2010 hafi vantað með tilboði kæranda en einungis útprentun af hálfkláruðum reikningi hafi fylgt tilboðinu. Þá hafi ársreikningur 2009 verið samantekinn og því vantað í hann upplýsingar um veltu fyrirtækisins. Í þriðja lagi hafi lýsing á gæðakerfi verið ófullnægjandi og þannig ekki uppfyllt grein 1.11 í útboðslýsingu.

            Kærði segir að kærandi hafi ekki fyllt út lið 2 í tilboðsskrá þar sem fram áttu að koma upplýsingar um verkreynslu, þ.e. heiti verks, upphæð verksamnings og verklokaár. Kærandi hafi heldur ekki fyllt út lið 3 í tilboðsskrá þar sem fram áttu að koma upplýsingar um reynslu í notkun gæðastjórnunarkerfis, þ.e. heiti verks, upphæð verksamnings og verklokaár. Kærði segir að greinargerð kæranda um fyrirtæki sitt hafi falið í sér hluta umbeðinna upplýsinga en í hana hafi vantað lýsingu á gæðakerfi eins og áskilið hafi verið.

                    

IV.

Tilboðum í hinu kærða útboði bar að skila á tilboðsformum sem voru hluti útboðsgagna. Kærandi fyllti ekki út 2. hluta tilboðsformsins sem bar heitið „Verkreynsla“ þar sem tilgreina átti sambærileg verk sem viðkomandi bjóðandi hefði unnið á síðastliðnum fimm árum ásamt upplýsingum um samningsupphæð, verkkaupa og verklokaár. Kærandi fyllti heldur ekki út 3. hluta tilboðsformsins sem bar heitið „Reynsla í notkun gæðastjórnunarkerfis“ þar sem skrá átti verk sem unnin hefðu verið með skilgreindu gæðastjórnunarkerfi, tilgreind með heiti, upphæð verksamnings, verkkaupa og verklokaári. Kærunefnd útboðsmála hefur kynnt sér þau gögn sem kærandi skilaði inn með tilboði sínu og ekki verður séð að í þeim komi fram þær upplýsingar sem gerðar voru að skilyrði að fylgdu tilboðum.

            Af framangreindum ástæðum telur kærunefnd útboðsmála ekki verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup, og því sé ekki rétt að stöðva samningsgerð í kjölfar hins kærða útboðs þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Hálsafells ehf., um að stöðvað verði útboð kærða, Vegagerðarinnar, „Ólafsfjarðarvegur (82) snjóflóðavarnir við Sauðanes“, er hafnað.

 

                                               Reykjavík, 5. júlí 2011.

                                               Páll Sigurðsson

                                               Auður Finnbogadóttir

                                               Stanley Pálsson

                                                              

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,                 júlí 2011.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn