Hoppa yfir valmynd
2. desember 2011 Matvælaráðuneytið

Samanburður á áhrifum „stóra frumvarpsins“ og fjórföldunar á veiðigjaldi á rekstur og efnahag íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja

Að beiðni efnahags- og viðskiptaráðherra hefur Stefán B. Gunnlaugsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri, gert samanburð á áhrifum frumvarps samkvæmt þingskjali nr. 1475 (sem oftast er kallað „stóra frumvarpið) og áhrifum fjórföldunar á veiðigjaldi á rekstur og efnahags íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Stefán var áður starfsmaður starfshóps sem sjávarútvegsráðherra fól að fara yfir áhrif „stóra frumvarpsins“. Greinargerð hans er því framhald af þeirri vinnu og snýr að samanburði við mjög mikla hækkun veiðigjalds, þ.e. úr 9,5% af reiknuðu EBITDA útgerðar í 38%. Með þeirri hækkun nemur veiðigjaldið um 12,2 milljörðum króna á ári, en „stóra frumvarpið“ gerir ráð fyrir að það tvöfaldist, þ.e. hækki í 6,1 milljarð króna.

Samkvæmt rannsókninni hefur „stóra frumvarpið“ margvísleg og mjög neikvæð áhrif á rekstur og efnahag íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Hækkun veiðigjalds, flutningur kvóta í potta, algjört bann við veðsetningu og fleiri atriði frumvarpsins draga mjög úr hagkvæmni sjávarútvegsfyrirtækja. Fyrirtækin eru mörg skuldug og mega mörg ekki við verulega verra rekstrarumhverfi. Þetta á sérstaklega við um fyrirtæki í krókaaflamarkskerfinu en þau eru mörg mjög skuldug.

Niðurstaðan er að fjórföldun veiðigjaldsins hefur svipuð eða minni áhrif á framlegð og eiginfjárstöðu í 20 stærstu fyrirtækjunum í aflamarkskerfinu en „stóra frumvarpið“. Þau fyrirtæki sem eru aðeins í útgerð, en ekki í vinnslu, eiga þó erfiðara með að taka á sig mikla hækkun veiðigjalds. Fyrirtæki í krókaaflamarkskerfinu eru yfirleitt ekki með fiskvinnslu og njóta því ekki þeirrar framlegðar sem hún gefur. Því þola þau illa hækkun á veiðigjaldi og jafnframt eru mörg þeirra illa rekin og mikið skuldsett.

Efnahagsleg áhrif frumvarpsins eru mun meiri en áhrif fjórföldunar veiðigjalds. Áætla má að frumvarpið lækki virði aflaheimilda um rúmlega 50%. Fjórföldun veiðigjalds gæti hins vegar lækkað virði þeirra um rúmlega 30%.

12. grein „stóra frumvarpsins“ snýr að jöfnun á aðstöðu. Með henni yrði skerðingum vegna núverandi potta sem hafa verið vegna strandveiða, byggðakvóta, línuívilnunar og skeljar- og rækjubóta dreift jafnt á öll fyrirtæki í aflamarkskerfinu. Í pottunum hafa eingöngu verið þorskur, ýsa, ufsi og steinbítur. Því hefur aflahlutdeild þeirra fyrirtækja, sem hlutfallslega eru með mikla hlutdeild í þessum tegundum, verið skert meira en annarra vegna þessara potta. Almennt standa þau fyrirtæki sem fá auknar aflaheimildir vegna 12. greinarinnar verr en þau fyrirtæki sem tapa aflaheimildum vegna hennar. Öll fyrirtæki í krókaaflamarkskerfinu fá aukinn kvóta vegna 12. greinarinnar. Þannig þola verst stöddu fyrirtækin betur mikla hækkun á veiðigjaldi ef 12. greinin er lögfest samhliða því.

Greinargerð Stefáns B. Gunnlaugssonar

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum