Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Drög að lagabreytingu um greiðslu á bótum til þolenda afbrota til umsagnar

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69 10. mars 1995, með síðari breytingum eru nú til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu. Með því er meðal annars leitast við að bæta stöðu þolenda kynferðisbrota með því að hækka hámarksgreiðslu miskabóta á grundvelli laganna. Frestur til að senda umsagnir er til föstudagsins 2. mars og skulu þær berast á netfangið [email protected].

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota nr. 69/1995. Nú eru liðin ríflega 15 ár frá því lögin tóku gildi og við framkvæmd þeirra hefur margt komið fram sem betur mætti fara, auk þess sem bætur í sakamálum hafa farið hækkandi á liðnum árum vegna verðlagsþróunar og ýmissa áherslubreytinga í réttarfari. Markmiðið með breytingunum nú má einkum rekja til sanngirnissjónarmiða. Í fyrsta lagi er leitast við að bæta stöðu þolenda kynferðisbrota með því að hækka hámarksgreiðslu á miskabótum en stór hluti þeirra sem verður fyrir kynferðisbrotum og fær greiddar miskabætur á grundvelli laganna fær verulegan hluta tjóns síns ekki bættan vegna þeirra takmarkana sem eru á fjárhæðum bóta. Í öðru lagi er lögð áhersla á að bæta fremur meira tjón heldur en það sem minna er.

Breytingarnar eru eftirfarandi:

  • Lagt er til að hámarkbætur fyrir líkamstjón, þar með talið fyrir varanlegar afleiðingar fyrir andlega og líkamlega heilsu tjónþola, verði hækkaðar í kr. 5.000.000 og hámarksbætur fyrir miska verði hækkaðar í kr. 3.000.000.
  • Lagt er til að hámark fyrir greiðslu útfararkostnaðar verði kr. 1.500.000.
  • Lagt er til að ekki verði greiddar bætur fyrir varanlegan miska nema hann sé að lágmarki 5% og ekki verði greiddar bætur fyrir varanlega örorku nema hún sé að lágmarki 15%.
  • Eigi ríkissjóður endurkröfu á hendur tjónþola á grundvelli 19. gr. laganna, er lagt til að hún skuli dregin frá ákvarðaðri fjárhæð bóta til hans. Skal það þó aðeins gert ef brot þau sem tjónþoli framdi séu ófyrnd samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga. Bótanefnd verði heimilt að veita undanþágu frá þessu ef veigamikil rök mæla með því. Skal þá meðal annars horft til aldurs tjónþola og félagslegra aðstæðna.
  • Lagt er til að ráðherra verði veitt heimild til að setja leiðbeiningar um greiðslu á kostnaði vegna vinnu lögmanns.
  • Lagt er til að tekin verði upp sú nýjung að bótanefnd geti falið innheimtuaðila í umboði brotaþola að annast innheimtu þess sem ekki fæst greitt úr ríkissjóði. Lagt er til að þetta eigi þó aðeins við um kröfur sem ákveðnar hafa verið með dómi og falla undir 1. mgr. 11. gr. laganna og eru ekki fyrndar.

Ítrekað er að umsagnarfrestur er til 2. mars.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira