Hoppa yfir valmynd
7. maí 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Undanþágunefnd grunnskóla 2012 - Dreifibréf til skólastjórnenda

Sent skólastjórum grunnskóla, skólaskrifstofum og sveitarfélögum.

Undanþágunefnd grunnskóla metur umsóknir skólastjóra um heimild til að lausráða starfsmann, sem ekki hefur leyfi mennta- og menningarmálaráðherra til að nota starfsheitið grunnskólakennari og til að starfa sem slíkur hér á landi við grunnskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla, sbr. 1. gr. laga nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og  reglugerð um störf og starfshætti undanþágunefndar grunnskóla nr. 440/2010

Umsóknareyðublað um heimild til að ráða leiðbeinanda er aðgengilegt á vef ráðuneytisins
Þar er einnig hægt að nálgast ítarlegri upplýsingar um störf nefndarinnar.

Til að afgreiðsla umsókna gangi fljótt og vel er nauðsynlegt að þar til gerð eyðublöð séu vandlega útfyllt og að þær upplýsingar og þau fylgigögn sem beðið er um fylgi með umsókn. Nefndin áskilur sér rétt til synja afgreiðslu á ófullnægjandi umsóknum.

Fylgigögn sem fylgja þurfa umsókn eru:


1. Afrit af auglýsingum þar sem tilgreindar eru dagsetningar á birtingu auglýsinga.
2. Afrit menntunargagna.

Tekið skal fram að fylgigögn verða ekki endursend, sbr. lög um Þjóðskjalasafn nr. 66/1985.

Auglýsingar:

Öll störf þarf að auglýsa a.m.k. tvisvar í dagblaði á landsvísu eða á sérstöku vefsvæði um laus störf hjá hlutaðeigandi sveitarfélagi. Vefauglýsing telst endurtekin sé auglýsingafrestur framlengdur um a.m.k. 14 daga.

a)  Þegar um er að ræða undanþágubeiðni til að endurráða einstakling sem er í námi til kennsluréttinda. Slíkri umsókn skal fylgja staðfesting á að viðkomandi sé í námi og áætlun um námsframvindu. Í þessu tilviki nægir að auglýsa einu sinni.

b)  Þegar um er að ræða kennslu og ráðningu sérfræðings án leyfisbréfs sem nemur 240 mínútum á viku eða minna.  Skólastjóra er ekki skylt að leita til undanþágunefndar sé um að ræða kennslu sem nemur 240 mínútum á viku eða minna, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 87/2008. Samkvæmt  greininni  er skólastjóra heimilt að ráða sérfræðing tímabundið að hámarki eitt skólaár í senn til að kenna sérgrein sína, enda sé aðeins um að ræða kennslu sem nemur 240 mínútum eða minna á viku.  Hér er einkum átt við þegar um kennslustörf er að ræða sem menntun og sérhæfing fastra kennara dugir ekki til, svo sem vegna mjög sérhæfðrar eða óvenjulegrar kennslu miðað við viðkomandi skólastig, t.d. kennslu í ákveðnum valgreinum á unglingastigi, kennslu í afmörkuðum þáttum lífsleikni og ýmis tilfallandi verkefni.

Nefndin vill vekja athygli á eftirfarandi:

  1. Í  kjarasamningi Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara og Launanefndar sveitarfélaga er fjallað um auglýsingu starfa í gr. 14.1. Þar segir m.a.: „Öll störf skulu auglýst laus til umsóknar á opinberum vettvangi. Skal það gert með 14 daga fyrirvara að jafnaði. Þó er ekki skylt að auglýsa afleysingastörf, svo sem vegna fæðingarorlofs, námsleyfis eða veikinda, eða störf þar sem ráðning skal standa 12 mánuði eða skemur eða tímavinnustörf.”
    Hafi skólastjóri ekki tök á að ráða einstakling með leyfisbréf til kennslu á grunnskólastigi til að sinna afleysingastörfum ber að auglýsa stöðuna.
  2. Undanþágunefnd tekur til afgreiðslu eingöngu umsóknir er varða kennslustörf, ekki umsóknir er varða stuðningsstörf.
  3. Þegar um er að ræða umsókn vegna kennslu í skólaíþróttum ber að tilgreina hvort um sé að ræða sund og/eða íþróttakennslu.
  4. Fáist heimild frá undanþágunefnd til að lausráða starfsmann gildir sú heimild aldrei lengur en til eins árs í senn. Að ekki má endurráða slíkan starfsmann án undangenginnar auglýsingar.
  5. Mælst er til þess að starfsmaður sem sinna á kennslustarfi sé ekki settur á launaskrá fyrr en undanþáguheimild liggur fyrir.

Í undanþágunefnd grunnskóla eiga sæti Sigríður Lára Ásbergsdóttir, deildarstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti og er hún formaður nefndarinnar, Rósa Ingvarsdóttir, kennari, fulltrúi Kennarasambands Íslands, Guðmundur B. Kristmundsson, fulltrúi Samstarfsnefndar háskólastigsins og Sólveig B. Gunnarsdóttir, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Starfsmaður og jafnframt varaformaður er Erla Ósk Guðjónsdóttir, stjórnarráðsfulltrúi í ráðuneytinu, netfang: [email protected]

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum