Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ráðherrar ræddu rafræn samskipti og málefni flóttamanna

Ráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins svo og ráðherrar ríkjanna sem aðild eiga að Evrópskra efnahagssvæðinu funduðu nýverið á Kýpur og sótti Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra báða fundina. Annars vegar sat hann fund samgöngu- og fjarskiptaráðherra og hins vegar fund  dómsmálaráherra en til umræðu voru málefni sem snerta Íslendinga.

Rafræn samskipti

Á fyrri fundinum voru rafræn samskipti í samgöngumálum sérstakt þema og og þá hvernig mætti opna upplýsingakerfi hins opinbera sem mest. Ráðherrar gerðu grein fyrir stöðu mála í sínu landi og lagði Ögmundur Jónasson sérstaklega út af sérstöðu Íslands hvað varðar mikilvægi þess að upplýsingar um veður- og náttúrfar skiptu máli. Upplýsingar um veður, úrkomu, ölduhæð skiptu ekki síður máli en tímaáætlanir flutningafyrirtækja, að ekki sé minnst á þegar hamfarir verða eins og Íslendingar hafa rækilega fengið að kynnast og reyndar Evrópumenn líka.  Minntist ráðherra á  ásetning samgönguyfirvalda um að stuðla að sem mestum og bestum rafrænum upplýsingum um samgöngukerfið eins og til dæmis Vegagerðin og Siglingastofnun gera með vefsíðum sínum.

Upplýsingar öllum aðgengilegar

Meðal gestafyrirlesara á fyrri fundinum var Marcus Dapp frá stofnun í Cambridge í Englandi sem ber heitið Open Knowledge Foundation. Stofnunin beitir sér fyrir því að opna á allar upplýsingar sem verða má. Slíkt muni skila sér út í atvinnulífið (sjá vef stofnunarinnar).

Þýskir fyrirlesarar voru þeir Maxim Nohroudi og Tom Kirschbaum frá fyrirtækinu Waymate. Fyrirtækið sérhæfir sig í að hlaða inn í upplýsingabanka öllu sem vitað er um ferðamöguleika í Evrópu. Viðskiptavinurinn hefur síðan samband  á rafrænan máta við upplýsingakerfi Waymate og setur fram óskir. Hugsunin er sú að viðskiptavinurinn stilli upp sínum forgangsóskum. Vill hann ferðast hratt, ódyrt  og tölvan kemur síðan með tillögur um ferðamáta, rúta, lest, flug eða blanda af þessu. Margt annað var rætt á þessari ráðstefnu en áhersla var lögð á hvernig greiða megi götu rafrænnar opinnar stjórnsýslu og upplýsingamiðlunar á sviði samgöngumála.

Flóttamenn, hælisleitendur og netöryggi

Á fundi dómsmálaráherranna var talsvert fjallað um flóttamenn og hælisleitendur og Schengen samstarfið. Fjallað var um glæpi á netinu og um samstarf ríkja varðandi skipulagða glæpastarfsemi og hvernig mætti frysta og leggja hald á illa fenginn auð sem reynt væri að koma í skjól í öðru ríki en því sem glæpirnir höfðu verið framdir. Sum Evrópuríki hafa þegar þróað löggjöf sem gengur langt í þessa veru, svo sem Írland og Bretland. Þá var fjallað um öryggi á netinu; persónuvernd einstaklinga svo og fyrirtækja. Í framhaldi var rætt um reglur sem væru í smíðum en í ljós kom að nokkuð er þar í land. Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB töluðu fyrir auknum valdheimildum til framkvæmdastjórnarinnar að setja regulverk á þessum sviðum en fulltrúar nokkurra ríkja urðu til að gagnrýna framkvæmastjórnina fyrir að vilja færa sig upp á skaftið að því leyti að vilja fá almennar heimildir í stað þess að fá samþykktar tilskipanir sem færu í gegnum þing Evrópusambandsins og  veittu aðildarríkjum meira svigrúm en reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar gerðu.

Sýrland

Á fundinum var upplýst um flóttamannastraum frá átakasvæðum í Sýrlandi. Svíar hafa styrkt Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna um 15 miilljónir evra og Bretar um 20 milljónir. Ríki voru hvött til að láta fé af hendi rakna og reyna að koma í veg fyrir að fólkið hrektist langt frá heimaslóð sem iðulega leiddi til þess að fjölskyldur sundruðust.

Sjá frekari frásögn á vef Ögmundar Jónassonar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira