Hoppa yfir valmynd
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Efni um rafræna stjórnsýslu á sérstöku vefsvæði

Sjötti fundur stýrihóps um rafræna stjórnsýslu var haldinn í dag en Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skipaði hópinn fyrr í sumar. Verkefni hópsins er að vinna úr tillögum nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins varðandi rafræna stjórnsýslu og lýðræði. Opnað hefur verið nýtt svæði á vef innanríkisráðuneytisins þar sem finna má margvíslegar upplýsingar um verkefnið.

Vefsvæði opnað með efni um rafræna stjórnsýslu
Vefsvæði opnað með efni um rafræna stjórnsýslu

Starfshópurinn hefur einsett sér að hafa alla vinnu hópsins opna og gera hana aðgengilega eins og kostur er. Í því skyni hefur hópurinn sett upp hið nýja vefsvæði. Leiðin á vefsvæðið er af forsíðunni undir fyrirsögnunum áhugavert efni eða aðrir sérvefir. Stefnt er að því að uppfæra vefsvæðið jafnóðum og ný gögn verða til. Með þessu er öllum veittur aðgangur að vinnunni og gefinn kostur á að koma með athugasemdir og tillögur.

Rafræn samskipti voru meðal annars til umræðu á fundinum í dag og voru þeir Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, og Haukur Ingibergsson, forstjóri Þjóðskrár Íslands, gestir á fundinum. Áður hafa verið boðaðir á fundi stýrihópsins fulltrúar frá Landsbanka Íslands, ráðgjafi frá ríkisskattstjóra og framkvæmdarstjóri Auðkennis til þess að ræða rafræn skilríki og Ástríður Jóhannesdóttir frá Þjóðskrá Íslands en hún kynnti drög að reglum um íbúalýðræði og þá vinnu sem lá að baki þeim.

Í sumar hefur farið fram vinna undir forystu formanns stýrihópsins við að kortleggja áskoranir og hindranir í þeim verkefnum sem hópurinn hyggst sjá til að hrint verði í framkvæmd á næstunni. Afrakstur af þessari vinnu má finna á vefsvæði hópsins.

Stýrihópurinn er þannig skipaður: Þorleifur Gunnlaugsson, varaborgarfulltrúi og jafnframt formaður, tilnefndur af ráðherra, Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, tilnefnd af ráðherra, Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, tilnefndur af ráðherra, Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitafélaga og Hjörtur Grétarsson, upplýsingatæknistjóri hjá Reykjavíkurborg, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Með stýrihópnum starfa Halla Björg Baldursdóttir, forstöðumaður rafrænnar stjórnsýslu hjá Þjóðskrá Íslands, en auk hennar mun Árni Gíslason, stjórnmálafræðinemi aðstoða hópinn.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira