Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mál nr. 18/2012

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 26. september 2012 í máli nr. 18/2012
Fasteign:  Bakkatún 32, fnr. 210-1219, Akranesi
Kæruefni:  Fasteignamat

Ár 2012, þriðjudaginn 26. september, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 18/2012 kveðinn upp
svohljóðandi:

ÚRSKURÐUR


Með bréfi dagsettu 6. júní 2012, mótteknu 11. júní 2012,  kærðu Grenjar ehf. kt. 570901-2490 og
Þorgeir og Ellert hf., kt. 510794-2309 úrskurð Þjóðskrár Íslands frá 13. mars 2012 um endurmat á
fasteigninni að Bakkatúni 32, fnr. 210-1219, 210-1220 og 210-1221, Akranesi fyrir árið 2012.

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði eftir umsögnum frá Akraneskaupstað og Þjóðskrá Íslands með bréfum
dagsettum 15. júní 2012. Umsögn Akraneskaupstaðar barst með bréfum dagsettum 25. júní og 3. júlí
2012 og umsögn frá Þjóðskrá Íslands með bréfi dagsettu 11. júlí 2012.

Kærendum var með bréfi dagsettu 13. júlí 2012 gefinn kostur á að gera athugasemdir vegna umsagna
Akraneskaupstaðar og Þjóðskrár Íslands. Með bréfum dagsettum 13. júlí 2012 var Þjóðskrá Íslands
send umsögn Akraneskaupstaðar og Akraneskaupstað send umsögn Þjóðskrár Íslands og þeim gefinn
kostur á að koma að athugasemdum.

Frestur til að skila inn athugasemdum var til 27. júlí 2012 en af hálfu kærenda var óskað eftir
framlengdum fresti vegna sumarleyfa til 15. ágúst og var sá frestur veittur. Athugasemdir kærenda
bárust með bréfi dagsettu 15. ágúst 2012.

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði eftir nánari upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands, með bréfi 8. ágúst 2012,
um fasteignamat skipalyfta alls staðar á landinu og meðfylgjandi skipastæða og forsendur mats.
Umbeðnar upplýsingar bárust nefndinni með bréfi 14. ágúst 2012 og voru þær sendar kæranda með
bréfi 17. ágúst 2012 og veittur frestur til athugasemda til 27. ágúst 2012. 

Með bréfi 17. ágúst 2012 voru athugasemdir kærenda og upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands sendar
Akraneskaupstað og veittur frestur til 27. ágúst til að koma að athugasemdum. Með bréfi 17. ágúst
voru athugasemdir kærenda sendar Þjóðskrá Íslands og gefinn kostur á að koma að athugasemdum
til 27. ágúst 2012.

Tölvupóstur barst frá Akraneskaupstað þann 20. ágúst 2012 þar sem upplýst var um leigusamning um
skipalyftuna dagsettan 2. mars 2007. Með bréfum 4. september 2012 voru þau gögn send kærendum
og Þjóðskrá Íslands til upplýsinga.

Með bréfi 24. ágúst 2012 bárust athugasemdir kærenda við upplýsingar Þjóðskrár Íslands, sbr. bréf
14. ágúst 2012. Athugasemdir kærenda voru sendar Þjóðskrá Íslands og Akraneskaupstað með
bréfum 4. september 2012.

Tölvupóstur barst frá kærendum þann 6. september 2012 með nánari upplýsingum með hliðsjón af
gögnum sem þegar höfðu borist nefndinni varðandi leigu á skipalyftunni við Bakkatún 32. Þann 10.
september 2012 var Þjóðskrá Íslands og Akraneskaupstað sendar upplýsingarnar með tölvupósti til
kynningar.

Bréf barst svo nefndinni frá Þjóðskrá Íslands 21. september 2012 þar sem færð eru fram frekari rök
fyrir hinu kærða mati. Var bréfið sent með tölvupósti 21. september 2012 til Akraneskaupstaðar og
kærenda.

Yfirfasteignamatsnefnd gekk á vettvang og skoðaði eignina 9. júlí 2012.

Kærendur höfðu með vísan í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, farið fram
á endurmat á fasteigninni Bakkatúni 32, Akranesi og krafist þess að Þjóðskrá Íslands lækkaði mat í kr.
4.733.255. Með bréfi 13. mars 2012 var tilkynnt um endurmat á fasteigninni þar sem það var lækkað
úr kr. 192.531.000 í kr. 68.594.000, þar af lækkaði lóðarmat úr kr. 39.221.000 í kr. 11.084.000.Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 26. september 2012 í máli nr. 18/2012

Sjónarmið kærenda
Með bréfi 20. mars 2012 óskuðu kærendur eftir rökstuðningi frá Þjóðskrá Íslands fyrir úrskurði um
endurmat eignarinnar frá 13. mars 2012. Barst hann með bréfi 25. apríl 2012.

Þar kom fram að fasteignamat á hverjum tíma skuli endurspegla markaðsverðmæti fasteignar.
Matsmenn frá Þjóðskrá Íslands hafi skoðað eignina 2. febrúar 2012 og í kjölfarið endurmetið
fasteignina. Í bréfinu sé tekið fram að þrátt fyrir að umrædd mannvirki séu ekki hús, falli þau undir 3.
gr. laga nr. 6/2001, sbr. 5. tölul. 26. gr. laganna. Jafnframt komi fram að við mat á mannvirkjum hafi
verið  litið til annarra skipalyfta og dráttarbrauta í landinu. Þekkt sé verð á nýlegri skipalyftu í
Vestmannaeyjum og að með tilliti til lyftugetu hennar sé áætlað verð lyftunnar u.þ.b.  kr. 316.666
tonnið. Þá hafi verið horft til fasteignamats á öðrum skipalyftum og dráttarbrautum í landinu.

Kærendur telja aðeins hluta þeirra mannvirkja sem á lóðinni eru vera varanlega skeytt við fasteignina
og því ekki hluta fasteignarinnar, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001. Matshluti 01 og 03 séu skipastæði
og bryggjur og teljist hluti fasteignar en matshluti 02, skipalyftan sjálf, sé ekki  varanlega skeytt við
fasteignina.

Tekið er fram að dráttarbrautir á stærri höfnum séu yfirleitt teinakerfi sem fari ofan í sjóinn og eru
rammlega áfastar við lóðina sjálfa. Því sé áréttað í 5. tölul. 26. gr. laga nr. 6/2001 að slík mannvirki
teljist varanlega skeytt við fasteign.  Kærandi telur í þessu tilviki  ekki  vera  um  að ræða  eiginlega
dráttarbraut í skilningi 6. tölul. 26. gr. laga nr. 6/2001 heldur einungis færsluteina sem liggi á lóðinni
með lausa vagna ofan á. Lyftan sjálf hangi í vírum og sé ekki varanlega skeytt við fasteignina og teljist
því ekki hluti fasteignarinnar. Matshluti 02 skuli því ekki skráður í fasteignaskrá og þar af leiðandi ekki
háður fasteignamati.

Ef ekki verði fallist á ofangreint og því haldið fram að skipalyftan, matshluti 02, sé hluti fasteignar fara
kærendur fram á að fasteignamat hennar verði lækkað verulega. Gangverðið sé ekki þekkt og ekki
liggi fyrir nákvæmt nývirði lyftu af þessari gerð með sömu lyftugetu. Fram hafi komið í rökstuðningi
Þjóðskrár  Íslands  að virði skipalyftunnar hafi verið metið m.a. út frá kostnaði við gerð skipalyftu í
Vestmannaeyjum. Þá hafi verið horft til fasteignamats á öðrum skipalyftum og dráttarbrautum í
landinu, sem metin eru með kostnaðarleiðréttu markaðsmati.

Varðandi skipalyftuna í Vestmannaeyjum kemur fram að hún hafi verið gerð upp og að áætlað hafi
verið að kostnaður vegna þess hafi verið um 380 milljónir króna, keyptur hafi verið nýr stjórnbúnaður
frá Rolls Royce Naval Marine Inc. í Bandaríkjunum. Í gögnum frá Þjóðskrá Íslands hafi einnig verið
yfirlit yfir þrjár fasteignir þar sem m.a. var að finna spilhús og dráttarbrautir.

Kærendur halda því fram að þar sem gangverð eignarinnar sé ekki þekkt sé mikilvægt að horfa til
kaupsamnings um eignina frá 13. desember 2006  þegar kærandi keypti eignina á kr. 4.733.225 af
Akraneskaupstað með yfirtöku tveggja lána sem á henni hvíldu.

Kærendur telja ekki vera til fullnægjandi gögn til að meta hvort skipalyftan sé sambærileg þeirri
skipalyftu  sem sé  í Vestmannaeyjum. Ekki sé fullnægjandi grundvöllur fyrir þeim samanburði að
Syncrolift lyfta kæranda sé frá Rolls Royce Naval Marine Inc. í Bandaríkjunum. Kærendur mótmæla
því  jafnframt að  litið sé til fasteignamats á þeim þremur fasteignum sem  vísað sé til í gögnum
Þjóðskrár Íslands þar sem engin gögn séu fyrir því að þær eignir séu sambærilegar. Sjáist það t.d. á því
að ein lyftan virðist vera með fasteignamat að  fjárhæð rúmar 10 milljónir króna á meðan önnur
virðist vera með fasteignamat að fjárhæð rúmar 170 milljónir króna. Kærandi telur því að frekar skuli
skoða þann kaupsamning sem fyrir liggi um eignina og í því sambandi er vísað í 8. gr. reglugerðar um
fasteignaskráningu  og fasteignamat  nr. 406/1978.  Jafnframt er bent á að skipalyftan skili litlum
tekjum  og  að  rekstur hennar  standi ekki  undir kostnaði m.a. vegna hárra fasteignagjalda.
Tekjumöguleikar séu almennt takmarkaðir þar sem lyftan hafi ekki mikla burðargetu og að aðkoma
frá sjó sé frekar grunn og því einungis hentug fyrir tiltölulega litla báta. Tiltekið er að þetta hafi m.a.
verið atriði sem höfðu áhrif á kaupverð eignarinnar á sínum tíma.

Sjónarmið Þjóðskrár Íslands

Í umsögn Þjóðskrár Íslands 11. júlí 2012 er tilgreint að kærendur geri einkum tvær athugasemdir við
hið kærða endurmat. Annars vegar telji kærandi að matshluti 02 skipalyfta, geti ekki verið hluti
fasteignarinnar þar sem hún sé ekki varanlega við landið skeytt og eigi því að vera undanþegin
fasteignamati, ólíkt matshlutum 01 og 03 sem séu varanlegir við landið skeyttir og því matsskyldir.
Hins vegar telji kærendur að gangverð eignarinnar sé ekki þekkt og því eigi að miða fasteignamatið
við kaupverð hennar á árinu 2006 er þeir keypti eignina á kr. 4.733.255 af Akraneskaupstað.

Bent er á að hugtakið fasteign sé skilgreint í 3. gr. laga nr. 6/2001 en þar segi að fasteign sé
afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim
mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt. Þá segi í b-lið 2. mgr. 3. gr. laganna að fasteignir,
hluta þeirra og einstök mannvirki skuli skrá sem sérstakar eindir í fasteignaskrá og eigi það m.a. við
um mannvirki sem gert hafi verið í landi eða á eða verið við það tengt.

Tilgreint er að þegar kærendur keyptu eignina af Akraneskaupstað á árinu 2006 virðist meginforsenda
sölunnar hafa verið að tryggja áframhaldandi rekstur skipalyftunnar á staðnum, sbr. kvöð í afsalinu
um aðgang almennra fyrirtækja að skipalyftunni til almennrar málningarvinnu. Þarna sé grundvöllur
rekstrarins undirstrikaður, þ.e. rekstur skipalyftunnar og að sama skapi séu undirstrikuð órjúfanleg
tengsl hennar við önnur mannvirki sem þarna mynda eina heild um reksturinn.

Til fasteignar teljist hlutir sem varanlega hafi verið við landið skeyttir, svo sem hús og hvers konar
önnur mannvirki, ef samband þeirra við landið eða annað mannvirki á landi, er með þeim hætti, að
það sé ekki ætlað til bráðabirgða. Til fasteignar teljist einnig tilfæringar og útbúnaður sem eru í þess
konar sambandi við mannvirkið, að þau myndi fjárhagslega heild og verði ekki frá henni skilin, nema
hafa í för með sér erfiðleika og jafnvel fjártjón.

Þetta þýði að til þess að hlutir teljist til fasteignar sé ekki nauðsynlegt að þeir séu þannig við landið
skeyttir að það sé almennur ómöguleiki að flytja þá í burtu heldur sé þetta spurning um hvort þeim sé
ætlað að standa til lengri tíma.

Þjóðskrá Íslands telur því skipalyftuna vera hluta fasteignarinnar sem meta eigi til verðs í samræmi
við 2. gr. laga nr. 6/2001.

Varðandi seinni athugasemd kærenda um að gangverð sé ekki þekkt er bent á að meginregluna um
hvernig fasteignamat skuli unnið sé að finna í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 6/2001. Þar komi fram að
fasteignamat skuli vera gangverð eignar. Ef lítið er um viðskipti með sambærilegar eignir geti
gangverð þeirra verið óþekkt en þá beri að líta til annarra þátta sem tilgreindir eru í 2. mgr. sömu
greinar.

Orðið gangverð í 27. gr. l. nr. 6/2001 vísi til þess verðs sem ætla megi að eignir hafi almennt á
markaði. Gangverð merki það verð sem algengast sé að greiða fyrir í viðskiptum með sambærilegar
eignir. Ákvörðun um fasteignamat geti því ekki byggst á einum stökum kaupsamningi um þá fasteign
sem meta skuli.

Í umsögninni er tekið fram að atvinnuhúsnæði sé metið með aðferðum sem teknar hafi verið upp við
endurmat fasteignamats árið 2001 og byggi á markaðsleiðréttu kostnaðarmati. Verðmatið sé því
byggt á byggingarkostnaði að teknu tilliti til afskrifta og markaðsaðstæðna. Mest allt atvinnuhúsnæði
á landinu sé nú metið með markaðsleiðréttu kostnaðarmati.

Þar sem fasteignamat skuli endurspegla gangverð liggi í hlutarins eðli að upplýsingar um
fasteignaverð almennt og tengsl þess við hina ýmsu þætti og eiginleika fasteigna skipti gífurlegu máli.
Útreikningar byggi á gagnasöfnum og ítarlegum rannsóknum á fasteignamarkaði.

Samanburður við aðrar sambærilegar eignir sé gerður í þeim tilgangi að sjá hvort niðurstaða matsins
sé í takt við fasteignamat annarra eigna. Matið sjálft sé ekki unnið út frá fasteignamati þeirra eigna
heldur með markaðsleiðréttu kostnaðarmati.

Var það því mat stofnunarinnar að fasteignamat eignarinnar hefði verið rétt ákvarðað kr. 68.594.000.
Að öðru leyti er vísað til rökstuðnings sem sendur var kæranda með bréfi 25. apríl 2012 og almennrar
umfjöllunar um fasteignamat atvinnuhúsnæðis í skýrslu um fasteignamat fyrir árið 2012.

Sjónarmið Akraneskaupstaðar

Í umsögn Akraneskaupstaðar 25. júní 2012 kemur fram að bærinn hafi fyrst fengið vitneskju um kæru
vegna endurmats frá lögmanni kærenda. Hinn 24. janúar 2012 hafi lögmenn Akraneskaupstaðar ritað
Þjóðskrá Íslands bréf og óskað sérstaklega eftir því að sveitarfélaginu gæfist kostur á að fylgjast með
úrvinnslu málsins hjá stofnuninni og koma sjónarmiðum sínum á framfæri, áður en endurmat færi
fram. Stofnunin hafi tekið eignina til endurmats án þess að virða óskir sveitarfélagsins.

Þjóðskrá Íslands hafi ekki virt skýra ósk sveitarfélagsins um að fá tækifæri til að fylgjast með úrvinnslu
málsins og að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en endurmat eignarinnar  hafi farið fram.
Vissulega beri að hafa í huga að andmæla- og tilkynningarregla eigi ekki við um meðferð þessara
mála, sbr. 3. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001, en sú lagaregla sé ekki til þess ætluð að Þjóðskrá Íslands
virði að vettugi sérstakar óskir hagsmunaaðila. Lagaheimild um að ekki þurfi sérstaklega, eða að
frumkvæði stofnunarinnar, að tilkynna eða kalla eftir athugasemdum hugsanlegra hagsmunaaðila
breytir ekki almennum reglum stjórnsýsluréttarins um að þegar hagsmunaaðili hafi sérstaklega óskað
eftir að fá að fylgjast með framvindu mála og koma athugasemdum á framfæri beri Þjóðskrá Íslands
að verða við þeim óskum. Sveitarfélagið sé augljóslega hagsmunaaðili í málum af þessu tagi. Það sé
ámælisvert að stofnunin hafi ekki virt beiðni sveitarfélagsins um að  fá að fylgjast með framvindu
málsins og að koma athugasemdum sínum á framfæri áður en endurmat fór fram.

Áður tilkynnt mat hafi verið kr.  184.500.000 fyrir skipastæði og skipalyftu auk  kr. 8.031.000 fyrir
bryggjur eða samtals kr. 192.531.000. Kærendur hafi krafist þess að það yrði við endurmat lækkað í
kr. 4.733.255. Við endurmatið lækkaði Þjóðskrá Íslands matið í  kr.  68.594.000 og rökstuddi
breytinguna með því að vísa til aldurs og ástands eignarinnar.

Akraneskaupstaður hafnar kröfu kærenda um að matsverð eignarinnar verði kr. 4.733.255. Ákvörðun
Þjóðskrár Íslands við endurmat eignarinnar hafi verið eðlileg miðað við þær forsendur sem lágu til
grundvallar. Í þessu sambandi er vísað til 27. gr. og 1. mgr. 28. gr. laga um skráningu og mat fasteigna
nr. 6/2001.

Bent er á að eigandi fasteignar hafi ekki ákvörðunarvald um það hvaða aðferð skuli lögð til
grundvallar útreiknings á fasteignamati eða hvernig þeirri aðferð sé beitt. Þau sjónarmið sem fram
koma í 2. mgr. 27. gr.  laganna séu vegvísarnir í  þeim útreikningum sem beita skuli og gæta verði
jafnræðis milli mála og sambærilegum aðferðum alls staðar. Líta beri fram hjá umfjöllun kærenda um
að sérstaklega eigi að skoða kaupsamninga um þeirra eigin eign.

Í kjölfar skoðunar matsmanna Þjóðskrár Íslands í febrúar 2012 hafi fasteignamat meðal annars verið
lækkað með vísan til aldurs og ástands eignanna. Lækkunin sé alls um 64%. Þetta mat byggi á reynslu
og þekkingu matsmanna Þjóðskrár Íslands og kærendur hafi ekki fært fram nein haldbær rök fyrir því
að mat þeirra sé ranglega unnið.

Gæta beri jafnræðis um mat á sambærilegum eignum alls staðar á landinu. Skipalyftur séu metnar til
fasteignamats víða um land, meðal annars á Ísafirði, í Vestmannaeyjum og Reykjavík svo nokkrir
staðir séu nefndir. Því sé rétt og eðlilegt að skipalyftan sé metin til fasteignamats.

Tekið skal fram að í bréfi Akraneskaupstaðar, dagsettu 3. júlí 2012, kemur fram að á fundi bæjarráðs
Akraness, sem haldinn var þann 28. júní 2012 hafi ráðið ekki talið tilefni til athugasemda af hálfu
Akraneskaupstaðar.

Athugasemdir kærenda

Með bréfi 15. ágúst 2012 sendu kærendur athugasemdir og tilgreina að fram komi í umsögn
Þjóðskrár Íslands að þegar Akraneskaupstaður seldi lóðina, skipastæðið og skipalyftuna árið 2006 sé
jafnframt kveðið á um aðgang almennra fyrirtækja að skipalyftunni til almennrar málningarvinnu. Sé
því haldið fram að þetta hafi verið gert til að tryggja áframhaldandi rekstur skipalyftunnar á staðnum
og undirstriki órjúfanleg tengsl skipalyftunnar við önnur mannvirki sem þarna myndi eina heild um
reksturinn. Þessu mótmæli kærendur. Með afsalinu sé verið að selja skipalyftu, skipastæði og lóð. Í
þessari kvöð felist einungis skylda til að veita aðgang  að lyftunni ef og á meðan hún sé staðsett á
Akranesi. Því er mótmælt að þessi kvöð feli það í sér að kærendum beri skylda til að hafa lyftuna á
staðnum um ókomna tíð eða að hún sé í órjúfanlegum tengslum við önnur mannvirki. Einnig telji
kærendur ljóst að ef lyftan væri almennt í órjúfanlegum tengslum við önnur mannvirki á Akranesi,
hefði aldrei verið þörf á að leggja kvöð á eignina í þeim tilgangi sem Þjóðskrá Íslands leggur upp með.

Kærendur taka jafnframt fram að lóðarréttindi fylgi ekki endilega lyftunni, þó þau hafi verið seld
saman. Þannig séu t.d. skipastæðið og skipalyftan seld án lóðarréttinda samkvæmt afsali árið 2011,
sbr. skjal 412-A-000305/2011 á veðbandayfirliti og lóðarréttindin seld samkvæmt skjali 412-A-
001705/2011. Slíkt geti skipt máli við mat á því hvort mannvirki teljist varanlega skeytt við landið.

Tiltekið er að kærendur byggi aðallega á því að umrædd skipalyfta sé tæki, ekki fasteign. Kærendur
telji að  hægt væri að fjarlægja lyftuna og setja  hana  upp annars staðar án erfiðleika, eftir stæði
bryggja og steypt plan.

Kærendur benda á að þó svo t.d. steypupallar teljist í svo órjúfanlegum tengslum við landið að þeir
teljist til fasteignar, þá leiði það ekki til þess að vélbúnaður eins og skipalyfta teljist jafnframt hluti af
þeim eða fasteigninni, þó svo tækið sé skeytt við fasteignina. Í þessu sambandi er bent á 2. mgr. 6. gr.
reglugerðar nr. 406/1978.

Því er mótmælt af kærendum sem fram kemur í umsögn Akraneskaupstaðar 25. júní 2012 að á
grundvelli jafnræðissjónarmiða skuli meta umrædda skipalyftu til fasteignamats. Jafnframt er bent á
að dráttarbrautir og skipalyftur séu ekki sami hluturinn og tilgreind dæmi í því sambandi.

Ef skipalyftan teljist fasteign í skilningi 2. og 3. gr. l. 6/2001, ítreka kærendur að Þjóðskrá Íslands hafi
þegar viðurkennt í bréfi 25. apríl 2012 að gangverð skipalyftunnar sé ekki þekkt þar sem fram komi að
ekki liggi fyrir nákvæmt nývirði nýrrar lyftu af þessari gerð og með sömu lyftugetu  og heldur ekki
gangverð.

Kærendur benda á að í rökstuðningi Þjóðskrár Íslands  komi ekki beint fram að endurmatið á
skipalyftunni hafi byggt á kostnaðarleiðréttu markaðsmati. Sé í bréfinu hins vegar talsverð umfjöllun
um þá staðreynd að gangverð lyftunnar sé ekki þekkt. Sé skipalyftan borin saman við 45 árum yngri
lyftu í Vestmannaeyjum og tekið fram að litið hafi verið til fasteignamats á öðrum skipalyftum og
dráttarbrautum við endurmatið. Ekki komi fram í rökstuðningi Þjóðskrár Íslands að fasteignamatið á
lyftunni  hafi verið  lækkað vegna aldurs og ástands lyftunnar en það hafi verið rökstuðningur fyrir
lækkun fasteignamats á bryggjunni og skipastæðinu. Kærendur telja að Þjóðskrá Íslands hafi komist
að þeirri niðurstöðu að um svo sérstæða eign sé að ræða að víkja yrði frá því matslíkani sem almennt
er notað fyrir fasteignamat atvinnuhúsnæðis. Undir þetta taka kærendur en telja að lækkunin hafi
ekki tekið mið af öllum þeim sjónarmiðum sem kveðið sé á um í lögum og reglugerð.

Kærendur tiltaka að í umsögn Þjóðskrár Íslands  11. júlí 2012 sé látið að því liggja að niðurstaða
endurmatsins hafi að öllu leyti byggt á markaðsleiðréttu kostnaðarmati. Kærendur telja að það verði
að liggja fyrir hvort svo hafi verið, einkum hvað varðar skipalyftuna. Hafi svo ekki verið telja kærendur
rétt að athugað sé hvort við matið hafi verið höfð hliðsjón af 8. gr. reglugerðar nr. 406/1978, einkum
m.t.t. kaupverðs samkvæmt kaupsamningi um eignina frá árinu 2006, bókfærðs virðis eignarinnar
samkvæmt ársreikningi sem var kr. 28.000.000 og tapreksturs undanfarinna ára. Sé því  jafnframt
mótmælt að litið sé til fasteignamats annarra sambærilegra eigna þar sem kærendur telji að slík eign
sé ekki til, auk þess sem fasteignamat þeirra eigna er jafnvel sömu annmörkum háð og upphaflegt
fasteignamat fasteignar kærenda.

Í tölvupósti kærenda 6. september 2012 er tiltekið að með leigusamningi dagsettum 2. mars 2007
hafi skipalyftan verið leigð og leigugjaldið hafi átt að vera 350.000 kr. á mánuði auk vsk. Fljótlega hafi
gengið illa að  innheimta  leiguna greidda. Samningnum hafi verið slitið í október 2012.  Ógreiddir
reikningar hafi síðar verið kreditfærðir þar sem leigutaki hafi verið úrskurðaður gjaldþrota 4. apríl
2012.

Þann 14. janúar 2011 hafi verið gerður samningur um skipalyftuna við Skipaþjónustu Íslands ehf. og
hafi afrit þess samnings verið sent til Þjóðskrá Íslands með tölvupósti 8. febrúar 2012. Leiguverðið
taki mið af notkun á hverjum tíma sem hafi verið lítil. Tekjur ársins 2011 voru kr. 1.994.600 og standi
þær ekki undir rekstrarkostnaði.

Upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands og frekari athugasemdir kærenda
Þjóðskrá Íslands svaraði fyrirspurn yfirfasteignamatsnefndar með bréfi 14. ágúst 2012. Fram kemur
að samkvæmt úttekt Þjóðskrár Íslands séu ellefu mannvirki á landinu sem teljist vera skipalyfta,
dráttarbraut eða flotkví. Öll þessi mannvirki gegni samskonar hlutverki, sem sé að taka skip upp til
viðgerða og viðhalds. Þessi mannvirki séu staðsett í Hafnarfirði, Reykjavík, Akranesi, Stykkishólmi,
Ísafirði, Akureyri, Vestmannaeyjum og Njarðvík. Í bréfi Þjóðskrár Íslands er tilgreind nánari útlistun og
staðsetning.

Tiltekið er að þessi mannvirki séu ólík að  gerð, búnaði og aldri. Einnig sé misjafnt hvort þau séu
almennt skráð í fasteignaskrá eða ekki en sveitarfélögin beri ábyrgð á því að skrá þessi mannvirki.

Fram kemur að í Hafnarfirði séu tvær flotkvíar. Þær séu ekki skráðar í fasteignaskrá og því séu ekki
greidd af þeim fasteignagjöld. Í stað þess sé greitt af þeim hafnargjöld en Þjóðskrá Íslands hafi ekki
upplýsingar  um  fjárhæð þeirra. Í Reykjavík sé dráttarbraut við Ægisgarð 1 sem sé  skráð og  með
fasteignamati. Á  Akranesi sé umrædd skipalyfta og á Stykkishólmi sé ein dráttabraut sem ekki sé
skráð í fasteignarskrá sem sérstök eign en kunni að vera í mati annarrar eignar. Á Ísafirði séu tvær
dráttarbrautir við Suðurtanga 6 og 8. Sú við Suðurtanga 8 sé skráð sérstaklega í fasteignaskrá en hin
sé ekki skráð sem sér eign  en gæti  verið inni í mati húseignar. Á Akureyri sé ein dráttarbraut við
Hjalteyrargötu 22 og ein flotkví við Naustatanga 1. Flotkvíin sé ekki skráð í fasteignaskrá en
væntanlega séu greidd af henni hafnargjöld. Dráttarbrautin við Hjalteyrargötu 22 sé heldur ekki skráð
sem sérstök fasteign í fasteignaskrá, aðeins spilhúsið og önnur mannvirki á lóðinni. Í
Vestmannaeyjum sé skipalyfta sem  ekki sé  í fasteignaskrá, a.m.k. ekki skipalyftan sjálf, og því  ekki
með fasteignamat. Það sem sé í fasteignaskrá heiti skipalyfta við Friðarhöfn sé iðnaðarhús upp á
1571,4 m² og tengist starfsemi skipalyftunnar. Í Njarðvík sé dráttarbraut við Sjávargötu 6-12. Hún sé í
fasteignaskrá og því í fasteignamati.

Varðandi forsendur mats er tilgreint í bréfi Þjóðskrár Íslands 14. ágúst 2012 að þau mannvirki,
dráttarbrautir og skipalyftur, sem séu skráð og í fasteignamati séu í svokölluðu handmati. Handmat
grundvallist á því að matið sé handreiknað út frá einhverjum forsendum sem í upphafi séu þekktar.
Þetta geti verið t.d. samanburðarmat, þ.e. að þekkt sé mat á einhverri fasteign sem matsmaður telji
vera sambærilegt þeirri eign sem verið sé að meta. Þetta geti líka verið grundvallað á kostnaði við
gerð fasteignarinnar í upphafi. Þessi handmöt taki síðan breytingum á hverju ári í samræmi við
vísitölu- og kostnaðarbreytingar á efni og vinnu. Því miður sé ekki að finna nákvæmar forsendur á bak
við grunnútreikninga á fasteignamati þessara eigna enda mjög langt um liðið síðan þær voru
upphaflega  skráðar og í sumum tilvikum kunni að vera að matsmenn  hafi ekki haldið sínum
útreikningum nægilega vel til haga. Ekki hafi borist beiðnir um endurmat á fasteignamati þessara
eigna sem gæti bent til þess að eigendur þeirra séu  sáttir við það mat sem á þeim sé. Í þessu
sambandi er sérstaklega bent á að mannvirkin við Naustatanga 2 og Hjalteyrargötu 22, Akureyri, hafi
verð  keyptar í desember 2011 fyrir  kr. 255.000.000 en fyrirliggjandi fasteignamat fyrir árið 2012 á
þessum eignum hafi verið kr. 201.924.000. Salan hafi verið milli skyldra aðila og sé því ekki tekin inn í
gagnagrunna Þjóðskrár Íslands. Þetta sé þó ákveðin vísbending um að fasteignamatið sé ekki of hátt.
Jafnframt er bent á að núverandi eigendur Bakkatúns 32 hafi selt Krókatún 22-24, til Lýsingar hf. þann
15. desember 2006 fyrir kr. 125.000.000 þegar fyrirliggjandi fasteignamat fyrir árið 2007 á þeirri eign
hafi verið kr. 112.582.000. Síðan  hafi þeir keypt það aftur af Lýsingu á  kr. 73.500.000 þann 13.
október 2011. Það sé heldur ekki hægt að horfa til þessara kaupsamninga þar sem þeir uppfylli ekki
þau skilyrði að um frjálsa og óþvingaða sölu sé að ræða auk þess sem um sé að ræða  einstaka
samninga.

Fram kemur að við matið á skipalyftunni, Bakkatúni 32, hafi í raun  verið  beitt handmatsaðferð.
Matsmenn hafi reynt að finna verð á fasteignum sem þeir töldu sambærilegar og reiknað út frá því.
Aðallega hafi verið horft til þeirra upplýsinga sem lágu frammi varðandi verðið á skipalyftunni í
Vestmannaeyjum. Í Morgunblaðinu  hafi  komið fram að endurgerð á henni hefði kostað  kr.
380.000.000. Telja  megi  víst að ekki sé farið út í slíka fjárfestingu nema hún borgi sig. Í  Þessu
sambandi er vísað í fyrri rökstuðning í bréfi 25. apríl 2012 þar sem farið er yfir það hvernig Þjóðskrá
Íslands bar þessi tvö mannvirki saman.

Að lokum tekur Þjóðskrá Íslands fram  í bréfinu 14. ágúst 2012  að víða sé pottur brotinn varðandi
skráningu á þessum mannvirkjum inn í fasteignaskrá. Einnig virðist það vera á reiki hjá sveitarfélögum
hvort af mannvirkjum eigi að greiða hafnargjöld eða fasteignagjöld. Þjóðskrá Íslands telji að flotkvíar
sem eru skeyttar við land og ætlað að standa til langs tíma og mynda fjárhagslega heild með öðrum
mannvirkjum í landi eigi að vera í fasteignamati.

Með bréfi 24. ágúst 2012 bárust athugasemdir kærenda við fyrrgreint bréf Þjóðskrár Íslands. Þar er
eftirfarandi samantekt á stöðu fasteignamats á skipalyftum, dráttarbrautum og flotkvíum á landinu:

Hafnarfjörður       Tvær flotkvíar                Ekki skráð í fasteignaskrá.
Reykjavík             Dráttarbraut                  Skráð í fasteignaskrá.
Stykkishólmur       Dráttarbraut                  Ekki skráð í fasteignaskrá.
Ísafjörður             Tvær dráttarbrautir         Ein skráð í fasteignaskrá, hin ekki.
Akureyri               Dráttarbraut og flotkví    Hvorugt skráð í fasteignaskrá.
Vestmannaeyjar     Skipalyfta                      Ekki skráð í fasteignaskrá.
Njarðvík               Dráttarbraut                  Skráð í fasteignaskrá.

Af þessu draga kærendur þá ályktun að flotkvíar séu ekki skráðar í fasteignaskrá og helmingur allra
dráttarbrauta á landinu ekki skráður. Ítrekað er að dráttarbrautir séu ekki það sama og skipalyftur.
Dráttarbrautir séu festar við land með mun varanlegri hætti heldur en umrædd skipalyfta. Það veki
athygli  að u.þ.b. helmingur dráttarbrauta landsins séu ekki skráðar í fasteignaskrá og því séu  ekki
greidd af þeim fasteignagjöld. Þá sé eina önnur skipalyftan á landinu, utan Bakkatúns 32, ekki skráð í
fasteignaskrá og því væntanlega ekki greidd af henni fasteignagjöld.

Þá er tiltekið að það skjóti skökku við að Þjóðskrá Íslands telji sölu mannvirkja á Akureyri milli tengdra
aðila vera vísbendingu um réttmæti fasteignamats eignarinnar. Því er mótmælt  af kærendum þar
sem því hafi ítrekað verið hafnað af hálfu Þjóðskrá Íslands að sala fasteignarinnar við Bakkatún 32 frá
Akraneskaupstað til kærenda árið 2006, sem og sala annarra fasteigna í eigu Lýsingar hf. til kærenda
árið 2011, gefi  vísbendingu um réttmæti fasteignamats umræddra eigna. Kærendur mótmæla því
einnig  að draga megi þá ályktun af söluverði eignarinnar á Akranesi að það sé vísbending um að
fasteignamat dráttarbrauta á landinu sé ekki of hátt skráð.

Fram kemur að kærendur telji að yfirlit Þjóðskrár Íslands yfir dráttarbrautir, flotkvíar og skipalyftur
landsins, sýni helst fram á að um sé að ræða mjög sérstæðar eignir og að óljóst sé hverjar eigi að
sæta fasteignamati og hverjar ekki. Þá liggi heldur ekki fyrir nákvæmar forsendur
grunnútreikninganna og telur  kærandi  með hliðsjón af því að fasteignamat Bakkatúns  32 hafi
upphaflega verið skráð kr. 192.531.000  fyrir árið 2012, séu talsverðar líkur á því að fasteignamat
þessara eigna sé jafnframt allt of hátt skráð. Kærendur mótmæla því að sú staðreynd að eigendur
fasteignanna hafi ekki mótmælt fasteignamati þeirra ennþá, geri það ekki að verkum að þeir telji það
rétt. Kærendur hafi greitt fasteignagjöld í samræmi við allt of hátt fasteignamat í áratugi áður en þeir
mótmæltu fasteignamatinu. Slíkt geti stafað af mörgum ástæðum og gefi helst vísbendingar um að
eigendur fasteigna fylgist ekki nægilega vel með skráðu fasteignamati eigna sinna.

Með vísan í framangreint mótmæla kærendur því að höfð séu til hliðsjónar fasteignamöt
dráttarbrautarinnar í Njarðvík, Reykjavík og Ísafirði.

Varðandi skipalyftuna í Vestmannaeyjum er tekið fram  að hún sé ekki skráð í fasteignaskrá. Telji
kærendur að af því megi draga þá ályktun að Vestmannaeyjabær telji að um sé að ræða tæki en ekki
fasteign, þrátt fyrir að sú lyfta sé væntanlega mun stærri og viðameiri. Kærendur telja það óeðlilegt ef
niðurstaðan yrði sú að skipalyftan í Vestmannaeyjum sé ekki skráð í fasteignaskrá, en lyfta kæranda
skráð.

Jafnframt taka kærendur fram að þó svo að um sé að ræða skipalyftu bæði í Vestmannaeyjum og við
Bakkatún 32, sé ekki endilega  um sambærilegar eignir að ræða. Mjög mikill munur sé á skipalyftu
kæranda og lyftunni í Vestmannaeyjum. Hún sé ný en lyfta kærenda um 45 árum eldri. Tæknin hafi
tekið miklum framförum á  þessum tíma og því óljóst hvort vélbúnaðurinn sé að nokkru leyti
sambærilegur.  Lyftan í Vestmannaeyjum  sé  með helmingi meiri lyftugetu. Lyfturnar séu  ekki
sambærilegar hvað varði vélbúnað, lyftigetu eða umfang.

Kærendur benda jafnframt á það að rekstrargrundvöllur fyrir rekstri lyftunnar í Vestmannaeyjum sé
allt annar en fyrir rekstri lyftunnar á Akranesi. Þannig sé lyftan í Vestmannaeyjum staðsett í miðri
höfn bæjarfélagsins en lyfta kærenda sé ekki staðsett á hafnarsvæðinu. Útgerðin í Vestmannaeyjum
sé jafnframt mun umfangsmeiri en útgerðin á Akranesi og sæki mikið af bátum þaðan þjónustu sína
til Reykjavíkur. Lyfta kærenda sé ekki staðsett  við höfnina og sé  í þröngu, grunnu sundi sem hefti
mjög djúpristu skipa. Lyftan geti því þjónustað mun minni báta  en lyftan í Vestmannaeyjum.  Taka
kærendur fram að rekstrarumhverfið fyrir umræddar skipalyftur sé því gerólíkt og séu kærendur með
mun þrengri markhóp og minna af viðskiptatækifærum en eigendur skipalyftunnar í
Vestmannaeyjum.

Kærendur mótmæla þeirri ályktun Þjóðskrár Íslands að þar sem farið hafi verið út í kr. 380.000.000
fjárfestingu á skipalyftu í Vestmannaeyjum hljóti menn að telja að fjárfestingin borgi sig, s.s. að
fjárfestingin standi undir sér.  Kærendur  taka fram að Hafnarsjóðurinn í Vestmannaeyjum eigi
skipalyftuna og leigi hana út. Tekið er fram að kærendur hafi enga trú á því að leigutakinn geti greitt
leigu sem standi undir slíkri fjárfestingu, þrátt fyrir að vera væntanlega með mun meiri veltu en
kærendur. Sveitarfélagið í Vestmannaeyjum hafi væntanlega farið í þessa fjárfestingu, þar sem það
vildi tryggja það að þessi þjónusta við útgerðina yrði áfram í Vestmannaeyjum. Sé alveg óljóst hvort
og hvernig sveitarfélagið ætli að endurheimta fjárfestinguna.

Kærendur ítreka að ef meta á skipalyftuna til fasteignamats beri, m.a. með vísan til 2. mgr. 8. gr.
reglugerðar nr. 406/1978, að hafa til hliðsjónar við matið þann kaupsamning sem fyrir liggi varðandi
þessa tilteknu eign. Jafnframt beri, með vísan til 3. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar að hafa til hliðsjónar
tekju- og hagnýtingarmöguleika eignarinnar, en skipalyftan skili litlum tekjum og standi rekstur
hennar ekki undir kostnaði. Þá séu tekjumöguleikar hennar almennt takmarkaðir þar sem hún hafi
ekki mikla burðargetu auk þess sem aðkoman frá sjó sé frekar grunn og því aðeins hentug fyrir litla
báta. Þetta séu atriði sem  áhrif  höfðu  á kaupverð eignarinnar á sínum tíma og beri að hafa til
hliðsjónar við mat á eigninni.

Í bréfi 21. september 2012 bendir Þjóðskrá Íslands á að fram komi í leigusamningi að leiga á mánuði
sé kr. 350.000, verðtryggt miðað við neysluvísitölu í mars 2007. Með vísitöluhækkun er sú fjárhæð i
september 2012 orðin kr. 518.731.

Tiltekið er að það sé þekkt aðferð við að reikna fasteignaverð að margfalda ársleigu með 10. Ef sú
aðferð sé notuð komi út að ársleiga fyrir Bakkatún 32 sé 6.224.776 kr. Verðmæti eignarinnar sé
gróflega reiknað miðað við þessa aðferð kr. 62.247.762 og bent á að fasteignamat hlutanna sé eftir
síðustu ákvörðun Þjóðskrár Íslands kr. 65.550.000 og fyrir árið 2013 kr. 69.300.000.

Þjóðskrá Íslands bendir jafnframt á að í leigusamningnum komi fram að eigendur Bakkatúns 32 hafi
sett það skilyrði að leigutakar myndu tryggja eignirnar fyrir kr. 75.000.000. Sé miðað við daginn í dag
sé sú tryggingarfjárhæð  kr. 111.156.000. Jafnframt er tilgreint að það komi fram í samningnum að
leigusalar hafi nýtingarrétt á skipalyftunni og skipastæðinu.

Niðurstaða
Af hálfu kærenda er þess krafist að yfirfasteignamatsnefnd endurskoði úrskurð Þjóðskrár Íslands frá
13. mars 2012 varðandi Bakkatún 32, Akraneskaupstað, fnr. 210-1219, 210-1220 og 210-1221, þar
sem fasteignamat eignarinnar var lækkað úr kr. 192.531.000,- í kr. 68.594.000,-.

Yfirfasteignamatsnefnd fór á vettvang og skoðaði eignina þann 9. júlí 2012. Af hálfu nefndarinnar
mættu Inga Hersteinsdóttir og Þórey S. Þórðardóttir. Fyrir hönd kærenda mættu Eybjörg Hauksdóttir
hdl. og Valdimar Axelsson. Fyrir Akraneskaupstað mætti Runólfur Sigurðsson, byggingarfulltrúi.
Fasteignin er skipastæði, skipalyfta og bryggjur. Eignin skiptist í þrjá matshluta.

Í matshluta 01-0101, fnr. 210-1219, er skipastæði, skráð 4872,4 m², byggt 1965. Planið er steypt með
teinum og færsluvagnar á þeim. Stæðið hefur verið endurnýjað að hluta með nýlegum færsluvagni.
Í matshluta 02-0101,  fnr. 210-1220,  er skipalyfta, skráð 1012,0 m², byggt 1967. Lyftan er alfarið
upprunaleg. Mikið er um ryð og kominn tími á endurbætur.

Í matshluta 03-0101, fnr. 210-1221, eru bryggjur, skráðar 166,3 m², byggðar 1980. Í undirstöðum er
stál en timbur í þverbitum. Mikið er um ryð og þarfnast þær verulegs viðhalds.

Kærendur telja að matshluti 02-0101, skipalyftan, sé ekki mannvirki sem sé varanlega skeytt við land
sbr. skilgreiningu á fasteign í 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Eigi matshlutinn
því ekki að vera skráður í fasteignaskrá og sé þar af leiðandi ekki háður fasteignamati.

Í 1. mgr.  3. gr. laganna segir að fasteign sé afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum
hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt.
Tekið er fram í 2. mgr. 3. gr. að fasteignir, hluta þeirra og einstök mannvirki skuli skrá sem sérstakar
eindir í fasteignaskrá.  Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 406/1978,  um fasteignaskráningu og
fasteignamat, sbr. reglugerðir nr. 95/1986 og nr. 458/1998 segir að hús og önnur mannvirki skuli
metin ásamt fylgifé sínu. Til fylgifjár teljist munir sem tilheyri mannvirki samkvæmt þeirri notkun sem
það er ætlað til og almennt er gengið út frá að  fylgi mannvirki af því tagi sem um er að ræða.
Yfirfasteignamatsnefnd telur skipalyftu vera mannvirki sem sé varanlega skeytt við land auk þess sem
vagnar og annar nauðsynlegur búnaður er fylgi sé fylgifé sem tilheyri lyftunni  samkvæmt þeirri
notkun sem henni er ætluð. Því er það mat nefndarinnar að matshluta 02-0101 beri að meta til verðs
í samræmi við 2. gr. laga nr. 6/2001.

Þjóðskrá Íslands lækkaði við endurmat matshluta  01-0101, fnr. 210-1219, skipastæði  úr kr.
81.500.000,- í kr. 26.900.000,- og lóðarmat úr kr. 38.950.000,- í kr. 10.950.000,-. Mathluti 02-0101,
fnr. 210-1220, skipalyfta lækkaði úr  kr.  103.000.000,- í kr. 38.650.000,- og matshluti 03-0101, fnr.
210-1221, bryggjur, lækkaði úr kr. 8.031.000,- í kr. 3.044.000,-.

Samkvæmt 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, sbr. 15. gr. laga nr. 83/2008 um
breytingu á þeim lögum, skal matsverð fasteignar vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu, miðað
við heimila og mögulega nýtingu á hverjum tíma. Í 2. mgr. sömu greinar segir að sé gangverð
fasteignar ekki þekkt skuli matsverð ákveðið eftir bestu fáanlegri vitneskju um gangverð
sambærilegra fasteigna með hliðsjón af tekjum af eignum, kostnaði við gerð mannvirkja, aldri, legu
með tilliti til samgangna, nýtingarmöguleikum og öðrum atriðum sem kunna að hafa áhrif á verð
eignarinnar. Í 28. gr. laganna er tilgreint að við mat samkvæmt 27. gr. skuli eftir föngum finna
tölfræðilega fylgni gangverðs við ýmsar staðreyndir um seldar eignir og að huglægu, órökstuddu mati
skuli ekki beita nema engra annarra kosta sé völ um ákvörðun matsverðs.

Í kæru er gerð krafa  um að litið verði til kaupsamnings um fasteignina  þar sem gangverð sé ekki
þekkt. Það er mat yfirfasteignamatsnefndar að ekki sé tækt við mat fasteigna að miða við einstaka
kaupsamninga eða verðmat þar sem matið þarf að endurspegla það verð sem ætla má að sé almennt
markaðsverð sambærilegra eigna. Slík gögn ber þó að hafa til hliðsjónar við mat eigna sbr. 2. mgr. 8.
gr. reglugerðar um fasteignaskráningu og fasteignamat nr. 406/1978.

Í umsögn Þjóðskrár Íslands 11. júlí 2012 kemur fram að atvinnuhúsnæði sé metið með aðferðum sem
teknar hafi verið upp við endurmat fasteignamats árið 2001 og byggi á markaðsleiðréttu
kostnaðarmati. Verðmatið sé því byggt á byggingarkostnaði að teknu tilliti til afskrifta og
markaðsaðstæðna.  Mest allt atvinnuhúsnæði á landinu sé nú metið með  markaðsleiðréttu
kostnaðarmati. Jafnframt segir að útreikningar byggi á gagnasöfnum og ítarlegum rannsóknum á
fasteignamarkaði. Samanburður við aðrar sambærilegar eignir sé gerður í þeim tilgangi að sjá hvort
niðurstaða matsins sé í takt við fasteignamat annarra eigna. Þessar aðferðir við mat fasteigna eru að
mati yfirfasteignamatsnefndar í fullu samræmi við ákvæði 1. mgr. 28. gr. laga nr. 6/2001.

Fyrir  liggur  í málinu að í kjölfar skoðunar matsmanns Þjóðskrár Íslands  2. febrúar 2012 hafi
fasteignamat verið lækkað. Yfirfasteignamatsnefnd skoðaði eignina og telur ekki vera rök til að lækka
hið endurskoðaða mat frekar á matshluta 01-0101, skipastæði né matshluta 03-0101, bryggjur.

Matshluti 02-0101, skipalyfta, er sérhæft mannvirki og því örðugt að finna sambærilegar eignir til
viðmiðunar við mat. Þau gögn sem Þjóðskrá Íslands tilgreinir að lögð hafi verið til grundvallar mati á
lyftunni byggja að mati yfirfasteignamatsnefndar á veikum grunni. Jafnframt hefur komið fram að það
sé nánast tilviljunum háð hvort  dráttarbrautir, skipalyftur og flotkvíar séu skráðar í fasteignaskrá.
Verklag Þjóðskrár Íslands við mat á skipalyftum virðist vera nokkuð ómarkvisst auk þess sem illa er
haldið utan um þau gögn sem mat byggist á. Eins og atvikum er háttað í þessu máli og á grundvelli
meðalhófs  er það mat yfirfasteignamatsnefndar að  ekki  verði  hjá því komist að lækka mat
skipalyftunnar umfram það sem  áður var gert af Þjóðskrá Íslands í hinu kærða endurmati. Skal
fasteignamatið lækka úr kr. 38.650.000,- í kr. 20.000.000,-.

Að því er varðar athugasemdir Akraneskaupstaðar þess efnis að bærinn hafi ekki, þrátt fyrir ósk þess
efnis, fengið færi á að fylgjast með framgangi málsins og koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður
en endurmat fór fram, skal tekið fram að yfirfasteignamatsnefnd ber að úrskurða um fasteignamat en
hefur að öðru leyti ekki eftirlit með störfum Þjóðskrár Íslands.

Úrskurðarorð

Fasteignamat Bakkatúns 32, Akranesi, matshluta 01-0101, fastanúmer 210-1219, skipastæðis, vegna
ársins 2012  er staðfest krónur 26.900.000,- þar af lóðarmat krónur 10.950.000,- og fasteignamat,
matshluta 03-0101, fastanúmer 210-1221, bryggjur, vegna ársins 2012 er staðfest krónur 3.044.000,-.

Fasteignamat  Bakkatúns 32, Akranesi,  fyrir  matshluta 02-0101, fastanúmer 210-1220, skipalyftu,
vegna ársins 2012 telst hæfilega ákvarðað krónur 20.000.000,-.
                                                   __________________________________

Þórey S. Þórðardóttir
_______________________________                     _____________________________
Ásta Þórarinsdóttir                                                         Inga Hersteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn