Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Háskólalestin hlýtur viðurkenningu á Vísindavöku

Katrín Jakobsdóttir afhenti viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun árið 2012

Háskólalestin hlýtur viðurkenningu á Vísindavöku
Háskólalestin hlýtur viðurkenningu á Vísindavöku


Vísindavaka er árlegur viðburður þar sem almenningi gefst kostur á að hitta vísindamenn sem stunda rannsóknir í hinum ýmsu vísindagreinum og kynnast viðfangsefnum þeirra. Hún er haldin samtímis um alla Evrópu á Degi evrópska vísindamannsins, sem er síðasta föstudag í september.

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði gesti á Vísindavöku og afhenti viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun árið 2012. Í ávarpi sínu sagði hún m.a.: „Háskólalestin ferðaðist um landið í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands 2011. Lestin heimsótti alls níu áfangastaði og stoppaði tvo daga á hverjum stað. Lögð var áhersla á lifandi vísindamiðlun til fólks á öllum aldri með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Viðtökur voru með eindæmum góðar og má segja að með Háskólalestinni hafi vísindin og fræðin verið færð til fólksins í landinu.

Háskólalestin byggðist upp á fjölþættum vísindaviðburðum þar sem margir lögðust á eitt við að uppfræða og skemmta samtímis. Í lestinni voru vísindamenn háskólans, kennarar og framhaldsnemendur og var lestin byggð á sjálfstæðum einingum sem mynduðu eina heild.

Helstu einingarnar sem ferðuðust með lestinni voru Háskóli unga fólksins, þar sem grunnskólanemar fengu að kynnast um stund háskólanámi, vísindum og rannsóknum; Vísindavefurinn, sem svarar spurningum um allt milli himins og jarðar og er einn fjölsóttasti vefur landsins; Sprengjugengið,  sem er hópur efnafræðinema úr Háskóla Íslands sem vakið hefur mikla athygli fyrir kröftugar og litríkar tilraunir á sviði efnafræðinnar og loks Stjörnutjaldið, sem fræddi um fyrirbæri alheimsins.

Háskólalestin var farin í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni en samstarfsaðilar voru einnig grunnskólar á landsbyggðinni, sveitarfélög og fleiri.

Í lestinni var boðið upp á vísindaleiki, létta en markvissa kennslu, fjör og gríðarlega fjölbreytt fræði sem oft voru sniðin að sérkennum þess staðar sem var heimsóttur. Áhersla var lögð á að auka skilning þátttakenda á vísindum, en í þeim hópi var almenningur; börn, unglingar og fullorðnir. Einnig var leitast við að sýna fram á mikilvægi rannsókna, vísinda almennt og nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag. Alls staðar tóku vísindamenn beinan þátt í viðburðum lestarinnar“.

Háskólalestin hlýtur viðurkenningu á VísindavökuKatrín Jakobsdóttir ásamt aðstandendum Háskólalestarinnar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira