Endurreisn bankanna: 414 milljarðar króna

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands

„Að öllu samanlögðu má rekja tæplega 28% af heildarskuldum ríkissjóðs beint til endurreisnar fjármálakerfisins“, sagði Katrín Júlíusdóttir fjármála- og efnahagsráðherra í sérstökum umræðum um skýrslu Ríkisendurskoðunar um fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins. Skýrslan kom út seint í júní síðastliðnum.

Málshefjandi var Magnús Orri Schram (S). Fram kom m.a. í máli hans að hlutafjárframlag ríkissjóðs til nýju bankanna þriggja hafi samtals numið 132,2 milljörðum króna.

Um skuldir ríkissjóðs vegna endurreisnar bankakerfisins sagði Katrín: „Um 414 milljarðar af þeirri upphæð geta talist til beins kostnaðar af endurreisn fjármálakerfisins. Þar af runnu tæplega 213 til fjármálastofnana, bróðurparturinn, eða 170 milljarðar, til Seðlabankans vegna slæmrar stöðu hans og næstmest þurfti að leggja til Íbúðalánasjóðs eða tæpa 32 milljarða.“

Samtals nema þessar tilteknu skuldir vegna endureisnar fjármálakerfisins 28% af heildarskuldum ríkisins eins og áður segir.

Tæplega helmingur tapsins vegna Seðlabankans

Af áætluðum liðlega 80 milljarða króna vaxtakostnaði ríkisins árið 2012 er beinn vaxtakostnaður vegna endurreisnar fjármálakerfisins tæpir 16 milljarðar króna. „[Þ]ar eru ekki talin með öll hliðaráhrifin, þ.e. kostnaður vegna fjármögnunar á gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans vegna hruns krónunnar né heldur kostnaður vegna tekjutaps ríkisins vegna hruns skattstofna svo að dæmi séu tekin,“ sagði Katrín ennfremur.

Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sagði skýrslu Ríkisendurskoðunar staðfesta að langstærsti einstaki reikningur hrunsins væri vegna Seðlabanka Íslands.

Í skýrslunni stendur m.a. á bls. 6: „Kröfurnar sem ríkissjóður yfirtók frá Seðlabankanum námu þannig samtals 367,9 milljörðum kr. en mat á þeim benti til þess að meirihlutinn væri tapaður eða myndi tapast. Hjá ríkissjóði voru þar af leiðandi gjaldfærðir 192,2 milljarðar kr. sem tapaðar kröfur. Áætlað tap Seðlabankans og ríkissjóðs vegna lánveitinga til bankakerfisins fyrir hrun var því samtals 267,2 milljarðar kr.“

Tap sem nemur 800 þúsund krónum á mann

Um þetta sagði Steingrímur: „Með öðrum orðum: Seðlabankinn var búinn að veita bönkunum fyrirgreiðslu fyrir hrun upp á um fjórðung af landsframleiðslu Íslands eins og hún var á árinu 2008.“

Í upphafi umræðunnar sagði frummælandinn, Magnús Orri Schram, um framangreint 267,2 milljarða króna tap:
„Ríkisendurskoðun er svartsýn á endurheimtur þessara fjármuna. Í skýrslunni segir að nokkur von sé til þess að ríkið geti endurheimt þá fjármuni sem hafa runnið til stóru bankanna þriggja, með sölu á eignarhlutum og með arðgreiðslum.  Hins  vegar liggur fyrir að ríkið varð fyrir verulegum kostnaði vegna fyrirgreiðslu Seðlabankans við bankana fyrir hrun þeirra.

Það er semsagt mat Ríkisendurskoðunar að kostnaður ríkisins við gjaldþrot Seðlabankans séu tapað fé. 267 milljarðar króna – sem gerir rúmlega 800 þúsund krónur á hvern Íslending.“

Í lok umræðunnar bar Katrín skuldastöðuna vegna endurreisnar bankakerfisins saman við stöðuna  á Írlandi: „Hætt var við því á tímabili að ríkið þyrfti að fjármagna nýju bankana að fullu, sem telst vera 385 milljarða kr. pakki. Í stað þess var farin þessi leið sem endaði á því að ríkið þurfti að leggja út tæpa 140 milljarða. Ríkið sparaði sér þannig skuldsetningu og þar með var niðurskurðarþörfin líka minni... Það er erfitt að bera okkar leið saman við leiðina sem Írar fóru þar sem þeir dældu peningum inn í bankakerfið. Þeir fóru ekki þá leið sem við fórum. Ef 30% af heildarskuldum Íra eru vegna endurreisnar bankakerfisins þá eru 28% hjá okkur með skuldinni - sem kemur vegna Seðlabankans - sem er þá tæplega helmingurinn af þessu.“

Skýrslu Ríkisendurskoðunar, Fyrirgreiðsla ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins, er að finna á vef stofnunarinnar og umræðuna alla á vef Alþingis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn