Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2012 Matvælaráðuneytið

Ársfundi NEAFC 2012 lokið

 

Dagana 11.-16. nóvember 2012 fór fram 31. ársfundur Norðaustur Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC) í höfuðstöðvum nefndarinnar í London.

Venja er að á ársfundinum séu staðfestir samningar strandríkja um stjórnun veiða úr deilistofnum.

Þar sem samningum strandríkja um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og kolmunnastofninum, sem og makrílstofninum, hefur ekki verið lokið var á fundinum ekki tekin afstaða til stjórnun veiða úr þeim stofnum á árinu 2013.

Samkomulag náðist um stjórnun veiða á karfa í Síldarsmugunni. Þar var aflamark ákveðið 19.500 tonn og eru veiðar heimilar öllum NEAFC aðildarríkjum á tímabilinu 1. júlí til 31. desember 2013. Jafnframt var ákveðið að boða til fundar um skiptingu aflahlutdeildar og framtíðarstjórn veiða úr stofninum.

Varðandi stjórn veiða á úthafskarfa á Reykjaneshrygg þá er í gildi samkomulag milli strandríkjanna, Íslands, Færeyja og Grænlands, ásamt Evrópusambandinu og Noregi, um stjórnun veiða úr stofnunum sem gildir út árið 2014. Á fundinum náðist ekki samkomulag allra aðildarríkja NEAFC um stjórn veiðanna og því er framangreint samkomulag áfram í gildi.

Í kjölfar samþykktar á síðasta ársfundi var á fundinum nánar útfært hvernig standa skuli að frammistöðumati á starfsemi NEAFC með það fyrir augum að styrkja starfsemi samtakanna.

Í íslensku sendinefndinni voru Ingvi Már Pálsson, sem jafnframt var formaður, Kristján Freyr Helgason frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir frá utanríkisráðuneytinu, Þorsteinn Sigurðsson frá Hafrannsóknarstofnuninni, Auðunn Ágústsson frá Fiskistofu, Gylfi Geirsson frá Landhelgisgæslunni og Kristján Þórarinsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum