Hoppa yfir valmynd
6. desember 2012 Matvælaráðuneytið

Bætt umgjörð fyrir nýsköpun og nýfjárfestingu

Í grein sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag fer Steingrímur J Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra yfir helstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu nýsköpunar og nýfjárfestinga í atvinnumálum:

Bætt umgjörð fyrir nýsköpun og nýfjárfestingu

Margir af hægri vængnum hafa farið mikinn að undanförnu í gagnrýni sinni á ríkisstjórnina og rætt er um aðgerðaleysi í málum sem varða nýsköpun og nýfjárfestingar. Vissulega dróst fjárfesting harkalega saman með hruninu og annað gat tæpast gerst með stórlöskuðum efnahag fyrirtækja sem voru meira en nógu skuldsett fyrir. Nú eru það meira óhagstæð ytri skilyrði, ekki síst efnahagsástandið í Evrópu, en veikleikar okkar eigin hagkerfis sem valda töfum. Ég er fullkomlega ósammála því að lítið hafi verið gert til að efla nýsköpun og nýfjárfestingu. Fjölbreyttar aðgerðir sýna að margt hefur áunnist. Auk þess furða ég mig á því af hverju sjálfstæðismenn stóðu sig ekki betur í þessum málum þegar þeir héldu sjálfir um stjórnartaumana – en hér sannast að það er jafnan auðveldara um að tala en í að komast.

Ýmsar aðgerðir

Ég tók saman stuttan en langt í frá tæmandi lista yfir aðgerðir sem núverandi ríkisstjórn hefur ráðist í í þágu nýsköpunar og nýfjárfestinga í atvinnumálum. Ansi er ég hræddur um að margur góður sjálfstæðismaðurinn sem les listann af sanngirni geti svo spurt sig; bíddu við af hverju gerði flokkurinn minn ekkert af þessu á sínum óralanga valdatíma?  Nokkur dæmi:

  • Lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi nr. 99/2010 hafa breytt allri umgjörð um nýfjárfestingar í atvinnulífinu og þau munu nýtast fyrir fjölbreytileg minni og meðalstór ekki síður en stór fjárfestingaverkefni, jafnt innlendra sem erlendra aðila. Meðal samninga um fjárfestingarverkefni sem búið er að gera á grundvelli þessara laga má nefna  stækkun aflþynnuverksmiðju Becromal á Akureyri, stálendurvinnslu GMR á Grundartanga og gagnaver Verne á Ásbrú.
  • Lög um skattaívilnanir eða beinar endurgreiðslur rannsóknar- og þróunarkostnaðar í sprotafyrirtækjum hafa sannað sig svo um munar. Nú fer í hönd þriðja árið og hefur umfangið vaxið jafnt og þétt. Samkvæmt frumvarpi til fjálaga fyrir árið 2013 er gert ráð fyrir að samtals fari talsvert á annan milljarð króna í skattaafslætti eða endurgreiðslur sem er beinn stuðningur við rannsókna- og þróunarstarf í sprota- eða nýsköpunarfyrirtækjum.
  • Allir vinna, sem gengur út á 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts á vinnu við endurbætur á íbúðarhúsnæði og húsnæði í eigu sveitarfélaga, hefur hleypt auknum þrótti í byggingariðnaðinn og auk heldur komið þessum viðskiptum betur upp á yfirborðið.
  • Markaðsátökin Inspired by Iceland, sem hrundið var af stað í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli og Ísland allt árið sem gengur út á að lengja ferðamannatímabilið á Íslandi hafa sannað gildi sitt. Og galdurinn á bak við velgengni beggja verkefnanna er sá að hér tóku saman höndum stjórnvöld og fyrirtækin sjálf í greininni.
  • Framkvæmdasjóður ferðamála var settur á stofn gagngert til að lyfta grettistaki í uppbyggingu aðstöðu og vernd náttúru við helstu ferðamannastaði á landinu en einnig til að fjölga vinsælum ferðamannastöðum. Á árinu 2013 er áformað að setja umtalsverðar fjárhæðir í þetta verkefni samkvæmt fjárfestingaráætlun til viðbótar við hefðbundin framlög.
  • Lög um jöfnun flutningskostnaðar fela í sér mikilvægan stuðning við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni.
  • Gjalddagaaðlögun fyrir atvinnulífið sem gengur út á að fyrirtæki geti frestað eða dreift gjalddögum hefur  verið mikilvægur stuðningur við rekstur  margra fyrirtækja á erfiðum tímum.
  • Sóknaráætlanir hafa verið gerðar fyrir hvern landshluta og ganga þær út á að meta styrkleika hvers svæðis og hvernig best verði staðið að atvinnuuppbyggingu. Heimamenn sjálfir forgangsraða verkefnum og verður umtalsverðum fjármunum varið í þessi verkefni á næsta ári.
  • Fjárfestingaáætlun sem nýlega hefur verið kynnt markar alger tímamót og seturr nýjar áherslur í nýsköpun og atvinnuþróun. Stærra skref hefur ekki verið stigið í þeim efnum um árabil. Eitt af fyrirheitum ríkisstjórnarinnar var að vistvænar og sjálfbærar lausnir skyldu komast í forgang og marka upphaf nýrrar sóknar fyrir þekkingarstörf og aukna fjölbreytni íslensks atvinnulífs.
  • Mótuð hefur verið aðgerðaáætlun um eflingu verk- og tæknináms á framhaldsskóla- og háskólastigi.
  • Frá stofnun Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknarsjóðs hefur aldrei fyrr verið lögð jafnmikil áhersla á eflingu þeirra eins og nú enda gegna þeir lykilhlutverki í framþróun atvinnu- og efnahagslífsins.  Samkvæmt fjárfestingaráætlun er gert ráð fyrir miklu viðbótarfjármagni til þessara sjóða.
  • Nýstofnsettur Verkefnasjóður fyrir skapandi greinar mun verða veigamikill stuðningur fyrir verkefni þar sem saman fer listrænn sköpunarkraftur og nýsköpun í atvinnulífinu og þar eru svo sannarlega mörg tækifæri.
  • Grænn fjárfestingarsjóður hefur verður settur á laggirnar en tilgangur hans verður að efla stoðir Græns hagkerfis sem snýst um sókn í atvinnu- og efnahagsmálum þar sem umhverfisvænar lausnir leysa þær hefðbundnu af hólmi.
  • Stofnun Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis þar sem málum alls hins almenna atvinnulífs og nýsköpun er sinn án landamæra af einni öflugri einingu er róttæk og kjarkmikil aðgerð sem vísar fram á veginn í stað íhaldssemi baksýnisspegilsins.

Sem sagt, heilmiklu hefur verið áorkað samhliða glímunni við beinar afleiðingar hrunsins á þessu kjörtímabili. Öflugt, sjálfbært og fjölbreytt atvinnulíf er grunnur sem framþróun og aukin lífsgæði hljóta að byggja á. Um það er engin deila né ágreiningur nema þá inni í hugarheimi þeirra sem reyna að búa slíkt til.

Steingrímur J. Sigfússon
Höfundur er atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum